Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

sunnudagur, október 29, 2006

SLAYER ! SLAYER ! SLAYER !

Já þessi helgi var sú rosalegasta í afar langan tíma. Strákarnir frá Danmörku komu galvaskir á föstudag og við hittumst í Munchen, röltum um og fundum ýmislegt skemmtilegt. Gummi og ég áttum miða á tónleika kvöldsins en Óli greyið ekki, því ætluðum við að redda seinna. Við fundum hótelið og fórum í bæinn til að kaupa tónleika skó og sokka. Í einhverri verslunarmiðstöð fundum við þjóðlagatríó Bæjaralands og hlustuðum á þá, mikið stuð. Síðan keyptum við skó og hlustuðum á gráhærðan blindfullann píanista sem spilaði á handónýtt píanó út á götu, fullt af sígarettum og með brotna hamra, hann var vondur. Síðan fundum við hið heimsfræga veiði og fiskasafn Þýskalands, ábyggilega ríkisstyrkt því það kostaði ekkert inn, en það var samt eitthvað skrítið við þetta merkilega safn því það var eitthvað lítið inn í því. Við sáum enga fiska og enga spúna og fórum út, ömurlegt. Chilluðum í bænum aðeins meira og fórum og fundum tónleikastaðinn, Zenith, í úthverfi Munchen. Reyndum að redda miða fyrir Óla en ekkert gekk, hann fór heim á hótelið og fékk sér kanínu með öllu og chillaði, átti ágætt kvöld að mér skilst. En við hins vegar áttum miða. Sjitt, er við gengum inn í tónleika höllina fundum við okkur á mjög svo kunnulegum stað. Ekki það að við höfðum komið þangað áður heldur höfðum við báðir oft séð tónleika með öllum okkar uppáhaldshljómsveitum á einmitt svona stöðum. Þarna hafa aldrei verið haldin íþróttamót eða unglinga dansleikir, aldrei basar eða klassískir tónleikar. Þetta er METAL höll. Á moti okkur tóku stálstoðir og stálbitar í lofti sem héldu uppi risastórum gálgakrana, þetta er gömul verksmiðja örugglega í eigu BMV sem eru með aðstöðu allstaðar í kringum staðinn. Steypt gólf og troðfullt af metal. Just as we want it. ég hafði ekki heyrt í neinni af upphitunarhljómsveitunum áður og beið því með nokkrum spenningi. Fyrsta bandið, Thyne eyes bleed, kemur frá Canada, mjög kröftugt band og spiluðu frábært sett. Síðan kom Lamb of God sem var líka æðislegt og stóðu sig best af aukaböndunum, frábær frontmaður þar og svínfeit riff í gangi. Þar næst kom finnska hljómsveitin Children of bodom sem eru ekki alveg vissir á því hvort þeir eru að spila glysrokk, metal eða goth og samsetningin var ekki alveg að virka, samt ágætt og gaman að kynnast bandinu. In flames, er nokkuð þekkt metal band og voru næstir á svið, það kom mér mikið á óvart hversu léttir þeir voru í rauninni, vel spiluð tónlist, djö þéttir og flott riff en léttasta bandið um kvöldið. Gott sett samt. Þá kom að því. Slayer mættir og allir mættir sem áttu miða. 4000 mans sem er frábær fjöldi fyrir svona tónleika. Sándið á öllum böndunum var absalútlí frábært og öll umgjörð um tónleikana frábær. Slayer byrjuðu af krafti og renndu í þekkt lög af ferlinum strax. War ensamble, chemical warfare og fleira, neglu í nýtt stöff líka sem mér fannst svínvirka, suddaþungt og frábær riff. Textarnir hættir að vera jafndökkir og í gamla daga en enn beittir, núna hápólitískir og skemmtilegir. Tom Araia, kominn með sítt grátt skegg og messaði eins og afi okkar en djöflaðist svo með bassann og öskraði eins og hann gat. Slayer voru algerlega frábærir og með þessu held ég að þeir hafi ýtt hinni gömlu og góðu hljómsveit Metallica kurteisislega til hliðar út fyrsta sæti yfir mín uppáhaldsmetal bönd í dag. Þeir einfaldlega sönnuðu að það er enn hægt að gera góðan metal og selja plötur án þess að klippa hárið og setja á sig lykt. Eftir frábæra tónleika fórum við á hótelið að sofa, big day tomorrow. Vöknuðum snemma til að fara til Salzburg. Er við komum þangað átum við með stelpunum mínum og fórum í hestaferð um Salzburg altstadt (gamla bæinn), chekkuðum á hótel Stein og fórum á metalbúðina. Komum síðan heim og lögðum okkur aðeins til að ná upp þoli fyrir komandi nótt... ætluðum að djamma heavý ! (ekki Gummi samt, still sober, still going strong) Borðuðum hérna heima og tókum í hljóðfæri, spiluðum Groundfloor stuff í fyrsta skipti í langan tíma og chekkuðum á nýju efni. Hvergi nærri hættir. Fórum síðan á jazzit og hittum vini og drukkum bús, fórum þaðan á klúbbarölt og skemmtum okkur æðislega vel. Strákarnir voru í stelpna leit og Óli hafði heppnina með sér, í Mirabell garðinum ! Sváfum síðan út og strákarnir flugu heim í hádeginu. Við Harpa og Halldóra Björg slökuðum bara vel á eftir þetta og nutum þess að það væri mjög haustlegt úti með að hanga inni í allan dag. Verð að fara sofa, nýja vinan á morgun og þetta er orðið fínt. Myndir frá helginni á myndasíðunni. Bæbb.

miðvikudagur, október 25, 2006

Stuð, stuð, stuð ...

Jebb hér er alltaf stuð. Eftir síðasta sunnudagsblogg ákváðum við að fara smá út á hjóla. Við fórum ekki svo langt að Há, Bé sofnaði heldur fundum við dýragarð og höll... og keyptum miða. Við fundum sem sagt Salzburger zoo palaze und der wasser upfh spritzer garten.. (gosbrunnagarð við höllina) og af því að klukkan var orðin svolítið margt þá fórum við bara í zoo inn. Það var rosalega gaman og getum við Harpa algerlega mælt með ferð í þennan zoo. Umgjörðin öll hin snyrtilegasta og dýrin höfð í nokkuð svo raunverulegum aðstæðum (að ég held, hef aldrei búið í frumskógi), allt svona frekar væld en snyrtó. Við sáum ljon og nashyrninga, apa og fleira stuff. Harpa var hrifnust af ösnunum því henni fannst þeir svo sætir og skýrir það kannski að einhverju leyti makavalið. Við H.B áttum mjög erfitt með að draga hana frá þeim en eftir smá röfl og leiðindi gátum við platað hana að skoða byrnina, þeir voru hressir, bara að synda og svoleiðis, síðan þurfti hún að pissa. Halldóra Börg fór með. Eftir um einn og hálfan fórum við heim að elda, þennan dag var hið frábærasta veður og allir úti á bolnum að sóla sig, 22 oktober. Um næstu helgi geng ég aftur í barndóm og læt mína penu og virðulegu framkomu lönd og leið og ætla með strákunum (Óla T, a.k.a. Lundi og Gumma a.k.a. Gönzi, Mófó eða bara D.) úr Danskalandi á Slayer tónleika í Munchen. Síðan komum við hingað aftur og hressumst eitthvað hér um helgina. Nánari fréttir af því seinna af því það er ekki búið, það verður ábyggilega skemmtilegt. Nýjar myndir úr Zúnum á myndasíðunni og jafnvel eitthvað af mér fyrir áhugasama. Tzhúúús !

sunnudagur, október 22, 2006

Þetta er alveg magnað...

Jebb þetta er magnað tæki þessi tölva og þessi tölvuheimur. Fyrir nokkru kunni ég ekki að kveikja á tölvu, prenta úr henni eða skrifa póst, hvað þá að framkvæma hina ofurflóknu aðgerð að blogga. En núna er maður orðinn svo virkur að ef ég skrepp i burtu í smá tíma fara menn bara að heimta meira blogg og það strax. Og það besta er að háværustu kröfuhrópin koma úr íslandsátt, nánar Hlíðarbrautinni á Blönduósi. En þar á bæ lærðu menn að lesa blogg um það leyti sem við fluttum hérna út. Því segi ég að þeir síðustu verða fyrstir og þeir fyrstu í öðrusæti. Jamm, ég fór til St.Martin að vinna við Skihotel Speiereck á mánudaginn sem er ekki frásögu færandi, enda engin áform um faglegar lita og málningarfrássagnir hér. Á miðvikudaginn fórum við út að borða. Til Flachau, sem er klst frá St.Martin, við fórum þangað af því að þar eru framreiddar "heimsins bestu nautakjötsteikur" á hverjum degi. Maturinn var himneskur, (þetta ætti frekar heima á bloggsíðu matarklúbbsins Matskák, en höldum áfram...),nautacarpaggio með parmesan og rukóla salati sem var frábært og stærðarinnar steik. Ekki langt eins og handleggur heldur stutt, þykk og há eins og lítill tempur koddi, í fullkomnum hlutföllum. Bragðið æðislegt, sósan góð og vínið líka. Rétt eftir að ég kyngdi síðasta bitanum með sælusvip og roða í kinnum fór ég að taka eftir mjög undarlegum mönnum á rölti um staðinn, við nánari eftigrennslan sá ég það glökkt að hér voru komnir hljófæraleikarar í austurískum þjóðbúningum og stigu þeir vígreifir á svið. Hasarinn byrjaði um níu og þá var hvergi hopað til miðnættis. Prógrammið hófst á allkyns þekktum jóðlstandördum og líka þekktum "klappítakt" austurískum ellimannasöngvum. Stemmingin náði hápunkti eftir greinilega mjög þekkt lag sem hljómsveitin notaði í undirleik fyrir "jóðlbattle". Það stóðu tveir skrítnir menn í stuttleðurhósum með axlabönd sem héngu með hliðum og í rauðum hnéháum sokkum, í hvítum skyrtum og með rauðan klút með risastórum hnút og með fjaðrahatta, og jóðluðu í keppni við hvorn annan. Sumir minna vina þekkja þetta listform sem gítarbattle, þar sem tveir síðhærðir, tattúveraðir geðsjúklingar taka vangefin sóló til skiptis, en þessir jóðluðu bara hraðar og hærra, með þeim mun meiri mun á háu og lágu jóðli og með cresendo og diminuendo maður og allt saman. Þarna voru augljóslega mjög færir jóðlarar á ferð og tel ég mig heppinn að hafa upplifað þetta. Nú veit ég hvað ég fíla í jóðli og hvað er flókið og töff. Þeir héldu áfram snillingarnir í gegnum hin ýmsu lög vel skreyttum jóðli og var það gott, sér í lagi fyrir hláturtaugarnar sem þreyttu maraþon þetta kvöld. Síðan byrjaði ballið. Hljómsveitin skipti um gír og hóf að spila þekkt danslög frá ´60, ´70 og ´80 með afardræmum árangri. Best fannst mér þó bandið standa sig er þeir sungu bæði Bítla og Buddy Holly á þýsku en restin var bara soldið leiðó. Reyndar elskuðu allt fólkið þarna inni (troðfullt hús á miðviku degi, dont know why) bandið og dönsuðu á fullu. Ekki var unglingur sjánlegur, né ungmenni. Ekki heldur fólk á milli 20 og 30 þarna inni nema ég og ekki nema tveir milli 30 og 45 (þessi sem ég er að vinna fyrir). Enginn milli 45 0g 65 en eftir það.... úff, allir ! Konan sem sat á borðinu við hliðina á mér var með staf og mjög gömul, afar fáar tennur sá ég upp í henni þegar hún söng með og hrópaði aíaaíaaí, eða jiiihúúúú ! Maðurinn hennar var eldri og söng minna. Þessi upplifum gleymist mér aldrei, þetta var skemmtilegt kvöld og er, skilst mér, venjulegt. Ég vann fram á föstudag og kom síðan í bæinn aftur, það var mjög gott að koma heim til stelpnanna minna. Fór og málaði íbúð gullreiðareigandans Kjartans á laugardag og við kláruðum það áðan (sunnudagur). Nú er fínt veður úti, sól og hiti og Harpa er að baka apfelstrudel. Nicht mit vanillen sause sem er það versta sem hægt er að fá hér í þessarri annars ágætu borg, heldur bara venjulega. En kakan verður bara snædd með ís sem er miklu betra. Jæja, lyktin úr eldhúsinu er svo lokkandi verð að fara, Svona rétt að lokum í virðingaskyni við þá sem elska jóðl---Jodeleidídei !!!

fimmtudagur, október 19, 2006

Hvað getur maður sagt...

Já hvað getur maður sagt nema það að það er grautfúlt að reyna að vera söngvari og missa svo bara röddina sí sona. Bara vaknaði í morgun með eitt stykki enga rödd, átti að vera í undirleikstíma í dag og allur pakkinn þið vitið en nei nei.... við skulum bara segja að ég hljómi ekkert sérstaklega vel. Hef reyndar, held ég bara, aldrei lent í þessu áður. Ég er ekkert lasin, finn ekki fyrir neinum eymslum what so ever... Furðulegt !!! Ég fann reyndar aftur yndislegan vin í eymd minni..... (ekki Matthias...)
Jebbs nebblilega BUBBELS !!!! Veeei, ég var búin að gleyma að hann væri til en svo fann ég hann áðan og er alveg búin að slá persónulegt met í kvöld :) Halli kemur á morgun og þá verð ég líklega voða lítið í bubbels enda er allt gott í hófi. Ég er ekki viss um að Hrafn spili mikið bubbels í La jolla, nei en hann bíður eftir þér eins og hann beið eftir mér... :) Ég er bara að bulla núna. Hef það reyndar ansi hreint gott, sit hér ein inn í stofu og hlusta á yndilega tónlist með hvítvínsglas í hönd, áðan var bubbles líka inn í yndislegheitunum en ekki lengur.
Já hvað getur maður sagt annað en þegar röddin en engin þá er það bara Bubbles !!!

Harpan

sunnudagur, október 15, 2006

Komin heim eftir frabæra helgi

Hæ, hæ. Nú erum við komin heim á Linzergötu eftir mjög skemmtilega helgi. Við leigðum okkur bíl í Freilassing, þorpi í Þýskalandi 15 km í burtu frá Salzburg, á Fimmtudag. Við ákváðum að leigja þar af því þar er það yfirleitt ódýrara en hér og við erum líka komin á svartan lista í Austuríki ! Megum ekki lei... neh stopp, bara fjárhagslegar ástæður. Fórum síðan eldsnemma á föstudagsmorgun til fundar við Höllu systur og Baldur í landamæraþorpinu Villach. Þau komu keyrandi frá San Danielle á Italíu með fullt skott af parmaskinku og parmesan osti, sem átti eftir að gleðja svangann ferðalang seinna um daginn, til fundar við okkur. Við lögðum af stað tímanlega út úr Salzburg og það hlakkaði í okkur, spennt fyrir ferðalaginu. Eftir um 50 mínútna keyrslu sáum við á stórum skiltum allt í kringum okkur að við vorum á hraðri leið í átt til Munchen, sem er algerlega í kolöfuga átt við Villach og ítallalíu ! Upp hófust mikil læti, því við vorum á hraðbrautinni og lítið um útafaksturs sénsa, en fundum svo aðrein inn að Salzburg aftur. Eftir um klukkutíma indælisratleik um þröngar götur Salzborgar, í nær alls óþekktum hverfum borgarinnar, vorum við aftur á leið til Villach. En nú vorum við svo smeik um að missa af skiltum sem upplýstu rétta leið að við fókusuðum svo stíft og spáðum svo mikið að við ómeðvitað lærðum nöfnin á megninu af smábæunum á þessari tveggja tíma akstursleið algerlega af óþörfu. En þökk fyrir gleymsku okkar og viðutansheit vorum við búin að gleyma þeim aftur er við lögðum af stað aftur heim, og við keyrðum eiginlega alla leiðina heim án þess að blikka. Við hittum Höllu og Baldur í miðbæ Villach, sem er eins og allar aðrar borgir og bæir á þessu svæði c.a. frá 1500 og eitthvað, og mjög sjarmerandi. Við fengum okkur öll parmesanost vafðann í gæða parmaskinku og sötruðum hvítt með, það var alveg meiriháttar fínt, nema fyrir dúfurnar sem heimtuðu helllmíng eða skitu á okkur fljúgandi. Hellvítis rottur! Síðan gengu við um bæinn og kíktum í búðir og leituðum að týndum manni við árfarveginn... fundum hann ekki. Eftir spjall, snæðing og góðann dag var ákveðið að keyra af stað heim. Allt gekk vel.


Daginn eftir skiluðum við bílnum til Freilassing, en ekki tókst það betur en svo að ég kolviltist áður en ég komst út úr borginni. Heppnaðist samt að lokum. Síðan fórum við í þriggja ára afmæli til Önnu Birnu vinkonu okkar. Þar var helljar veisla og gaman. Halldóra Björg varð eftir og fékk að gista meðan við fengu bíl lánaðan hjá vini og keyrðum til Sell am see til að spila. Leiðin er mjög falleg og bærinn einnig. Hótelið sem við spiluðum á er svona Design hotel þar sem allt er teiknað og hannað, sápan, sturtan, rúmmin, skápar, diskar og glös, næstum starfsfólkið. átum vel, drukkum vel og spiluðum vel. Allir voru voða ánægðir og klöppuðu, hótelstýran sýndi því mikinn áhuga á að við kæmum aftur til að vinna meira, en við erum svona að melta það. Erfitt án þess að eiga bíl, og soltið bras með pössun, sjáum bara til. Síðan komu við heim í dag og það var fínt, sóttum H.B til Kjartans, Erlu og Önnu B og fórum beint í pitzu síðan heim. Helgin var sem sagt góð, skemmtileg og slysalaus, öðruvísi en margar aðrar hér í Salz. en héðan í frá eru slysin búin. Þar til næst b.k. Halli, Harpa og Halldóra Björg.

fimmtudagur, október 12, 2006

nu fljuga fuglar...

Jebb. Það hlaut að koma að því, landaði vinnu hjá málara sem vill að ég byrji strax. Hann vildi að ég kæmi með sér til Sviss að vinna í eina viku á mánudaginn. En ég er að fara til fjalla að halda áfram með mitt verk á mán og kem ekki fyrr en á föstudag, þá ætla ég að taka til hendinna og aðstða vin minn hér, Gullreiðareigandann Kjartan, að brasa í íbúðinni sinni. Síðan byrjar fjörið. Ég veit ekkert hvort ég verð í Austuríki eða annarsstaðar að mála, það er soldið spennó. Mér leist vel á hann og verkefnin sem hann var að vinnia við. Hitti nokkra verðandi samverkamanna minna og það var fínt, þó litagleðin sé undarlega öfgafull, þá held ég að það muni bara gera starfið skemmtilegra. Harpa landaði plötubúðargigginu og það kemur til með að hjálpa okkur líka mikið og er ábyggilega mjög skemmtilegur vinnustaður. Sjáumst Bæ. Halli.

miðvikudagur, október 11, 2006

Dagurinn sem allt gerðist

Jebb, það gerðist margt í dag. Ég fór á fætur í dag og dröslaðist út í ískulda, á hjólinu í leikskólann og aftur heim, athugaði með póst, ekkert, og nöldraði eitthvað. Harpa fór að æfa sig. Hún fór í tíma og ég reyndi að koma upp minni eigin ´myspace´ síðu á netinu (maður er orðinn ROSAlegur á tölvurnar) en tókst ekki eða illa held ég, á eftir að athuga. Síðan hugsaði ég minn gang og ákvað að fara út og fá mér vinnu. Fór í plötubúðina, þar sem gamla konan vinnur og allt kostar tvöþúsund kall, og skoðaði plötur. Þar ætlaði eigandi búðarinnar að koma mér í samband við málara sem hefur unnið oft fyrir hana og hún sagði mér að hann væri bæði vandvirkur og hinn besti kall. En það var brjálað að gera svo ég skoðaði bara plötur á meðan. Búðin bíður einmitt líka snobb vín til sölu, þ.e svona vín í dýrari kantinum svo maður getur sötrað meðan maður hlustar á Mahler í andakt og draumi... (voða menningarleg, skemmtileg og DÝR búð) Ég hugsaði hvort ég ætti ekki bara að vinna hér... pæla í tónlist og sötra rauðvín allann daginn milli þess sem ég læri hástéttar þýsku og virðulega framkomu. Neh... its not me... ég vill bara mála.... jæja ég var búinn að bíða nógu lengi svo ég hvarf á braut. Hástéttar salzburgísku rauðvínslepjararnir tróðu mig næstum niður svo ég ákvað að koma aftur seinna. (Kannski töpuð orusta en sjáum til...) Ég ákvað að heimsækja minn helsta bandamann í baráttunni gegn óvinveittu Austuríki, ég fór að hitta löfræðinginn okkar ! Ég hjólaði reiður og ég hjólaði hratt, snarbremsaði svo fyrir utan bygginguna, stoppaði örskotstund og horfði upp eftir gluggunum á fram hliðinni. (Eins og í bíómyndunum) Í þessu húsi er ég sigurvegarinn og héðan fer ég aldrei boginn. Ég fór til að fá fréttir af máli okkar gegn hinu svikula og sístelandi fyrirtæki DENZELDRIVE (munið nafnið),.... en enginn var við. Ég fór þaðan boginn og beygður... hjólaði hægt heim og hugsaði... hvað er ég að gera hér í þessum heimi? Kom heim til Hörpunnar minnar og var ekki í góðu skapi, við borðuðum þar saman í þögn. Ekki góður dagur. Við ákváðum síðan að fara aftur í plötubúðina til þess að hressa upp á sambandið. Þegar þangað var komið voru allir kúnnarnir farnir heim að drekka og hlusta á Shostokovich og Mahler... báða í einu... blindfullir og búnir með allt fína vínið úr búðinni og komnir í heimabruggið. Við vorum ein ásamt eigandanum. Þú þarna, komst þú ekki til að panta klassíska-dúetta diskinn, kaupa Renee og sækja um vinnu?... Uhh ja das ist ich, aber... (lausleg þýðing á því sem fram fór) Heyrðu nú tek ég niður pöntunina, koddu á morgun fyrir Renee diskinn og ég skal hryngja í Ernst málara... Heyrðu hann vill ráða þig en í staðinn fyrir greiðann verður þú að vinna fyrir mig hér þegar þú átt lausa stund, kannski einn og einn laugardag eða fylla upp í vikuna þá daga sem þú getur ekki unnið vegna veðurs. Jamm og hann vill hitta þig á morgun klukkan níju ! Hér í búðinni ! MÆTTU TÍMANLEGA ! Jebb, tvær vinnur og í fýlu minni lofaði ég mér upp í fjöll að vinna eftir helgi ! Það er allt orðið brjálað að gera en ég veit ekki hvenær ég byrja, en ég er ráðinn. Komum heim og sambandið umvafið rósrauðum bjarma, sem átti síðan eftir að verða töluvert meiri. Um kvöldmatarleytið við niðurskurð á pizzagrænmeti skar ég mig í baugfingur vinstri handar og blóðið skvettist um eldhúsið þegar ég hristi hendina í sársaukakrampa,... djö, hellv og hellvítis hellv... hljóp inn á bað og málaði leiðina blóði, þá gerðist það,.. gamli góði sviminn,... sviminn á undan öllum venjulegum yfirliðum,... Hapa .. þa e a lið i mi.... áður en ég sofnaði, lagði ég nærri máttlausan stæltan líkamann á baðherbergis gólfið. Kaldar flísarnar struku bak mitt eins og ískaldur hnífur í frysthúsi,... hver er þar... ég heyri einhver hljóð.... ... þetta er bara ég, Harpa, viltu kalt á ennið,... já elskan. Það leið nærri yfir mig mig... já elskan, ég veit... ég elska þig... jé tökum mynd og bloggaðu um þetta, þú segir svo skemmtilega frá, ég skal gera pitzuna... ég .... elska þig Harpa... ég elska þig líka Halli (tí,hí,hí,hí,) leggðu þig bara.... en bloggaðu svo þegar þú hefur náð þér....


Jebb, þetta gerðist allt í dag. Ég fékk tvær vinnur, pitzu í matinn, Harpa sagðist elska mig og hjúkraði mér á köldu baðherbergis gólfinu og ég skar mig í fingurinn... Hvað ætli gerist á morgun....

mánudagur, október 09, 2006

Partyið buið og Italia a föstudaginn !!

Jebb, við héldum rosalega skemmtilegt partý á laugardaginn með mat, víni og skemmtiatriðum. Buðum hingað í litlu íbúðina okkar öllum sem við þekkjum hér ásamt einum sem við þekktum ekki og góðum vinum okkar í Bandaríkjunum,
La Jolla (La hojjja) San Diego,California. Það mættu ekki allir en jú ess ei-ingarnir létu sjá sig og voru þau afdráttarlaust þau sem komu lengst að. Takk fyrir það. Kvöldið byrjaði á smáréttum ýmsum sem við Harpa hnoðuðum saman fyrir veisluna, s.s. ítalskt tapenade, bólivískt empanada, kan kan pönnukökur og grænmetissnakk með ídýfum. Og fljótlega kom fyrsta skemmtiatriðið. Hann mætti, óþekkti maðurinn og heilsaði öllum, fékk sér sæti og hafði það gott, eins og aðrir gestir. Við höldum að hann hafi kannski mætt þarna fyrir örlítinn misskilning. Haldið að hann væri að fara í eitthvað mega unglingapartý, með landa og berum brjóstum en svo var ekki. Börnin byrjuðu með skipulagða skemmtidagskrá. Veit ekki hvað hann hugsaði þá. (Er ég fastur í the twilight zone eða er þetta árshátið íslandsdeildar leiksóla Salzburgarstadt.) En það var skemmtilegt og síðan duttu inn fleiri góð atriði. Hópsöngur með langskólagengnum klassískumgítarleikara, næstum einsöngur vestmanneyíska gullreiðar eigandans í slagaranum Minning um mann og undirleikur/söngur húsfrúarinnar í Nínu með Eyva og Stebba. Eftir smá tima voru ameríkanarnir búnir að hafa sig til og stimpluðu sig inn, fengu sér rölt um íbúðina og töluðu við fólk, fengu sér svo sæti út í horni og logguðu sig út eftir svolitla stund. Mér skilst að þau hafi farið í búðina... Eftir hópsönginn leystist partýið upp í jazztónleika. Einn gesturinn, prófessor við jazzdeild tónlistarháskólans Mozarteum, er píanisti og hress kall. Einhver hafði spurt hann hvort hann vildi spila eitthvað og hann var alveg til. Ég að sjálfsögðu lét ekki segja mér það tvisvar. Náði í bassann og bandið var fullskipað. Negldum saman í nokkra standarda og skemmtum okkur mjög vel. Nú fór stuðið aðeins að minnka og fólk fór að tínast heim, en eftir sat veislustjórinn og kona hans, Martha söngprófessor og við. Partýið kláraðist um kl. 4, þá voru sumir orðnir ansi þreyttir og aðrir orðnir töluvert mjúkir í mótunum svo ljósin voru slökkt. Daginn eftir, var vaskað upp í hvelli, farið út í pizzu og ís og farið í heillangann hjólarúnt um margar helstu mynjar Salzburgar. (Helstu tökustaði myndarinnar Sound of Music) Síðan var þeirri mynd reddað og frábærri helgi lokað með henni. Nú er byrjuð ný vika, H.B. farin í leikskólann og ég á leiðinni út í sveit að hitta mann. Á föstudaginn ætlum við svo að hitta Baldur og Höllu systur á ítalíu eða við landamærin einhverstaðar. Það verðuir skemmtileg ferð, en við þurfum að leigja bíl... hræðist það svoldið því okkar fyrra bílaleigumáli er enn ólokið, vonumst til að það taki enda í vikunni. Síðan er það gigg á hóteli í Zell am see, skíðaparadísinni á laugardaginn næsta.
Bestu kv. Há-karlinn.

föstudagur, október 06, 2006

Hæ,hæ nu er að verða kalt...

Jebb nú er að kólna hjá okkur heldur betur. Við fórum út í morgun eins og vanalega, röltum í leikskólann öll saman, sæmilega klædd. En uhh nohh, ekki nóg, ekki nóg, ekki nóg, eyrun blánuðu, kinnarnar roðnuðu og nefið tók líka lit, brrr... Skugginn af fjallinu sem við búum við hjálpaði heldur ekki upp á hitastigið. í þau skipti sem við gengum gegnum sólargeislana fundum við hvernig hrímið af kinnum bráðnaði og lak niður hálsmálið, kalt og óþægilegt, alveg niður á maga. Þegar við komum heim var hellt upp á kaffi og jakkinn settur í skúffuna og úlpan tekinn upp. Húfan fundin og komið haganlega fyrir í efstu skúffunni í forstofu komóðunni. Já það er kominn vetur. Þeir segja það að snjórinn komi víst um miðjan Nóvember og veturinn nái hámarki í Janúar, febrúar þá verður allveg ægilega kalt. Kannski ég verði að véla einhvern til að græja fyrir mig hnepptan íslenskan ullara í jóla gjöf, þessi flís fatnaður segir ekkert hér. Við erum nú í miðjum undibúningi fyrir fyrsta partýið okkar sem fjölskyldu. Það á að vera innflutningspartý á laugardagskvöldið og eitthvað í gogginn. Við erum að smíða snittu/pinnamat á hlaðborð sem verður bara í stofunni. Þetta verður eitthvað um 15-20 manns og megnið burtfluttir íslendingar, svo fjörið gæti orðið nokkurt. Nánari fréttir af því seinna. Jæja, vettlingar á hendurnar, húfa á skallann og úlpan um kroppinn því við erum að fara út.
Sííí ja.