Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

mánudagur, desember 19, 2011

Hugleiðingar

Nú eru 5 dagar til jóla og ég stend í miðjum Sörubakstri. Búin að skreyta að mestu og halda tvö barnaafmæli, gera pakka dagatal og svo kíkja jólasveinarnir auðvitað í heimsókn hingað til Salzburgar. Síðast bakaði ég Sörur áður en ég eignaðist Matthildi mína. Þá var ég svo tímanlega í öllu til að hafa allt tilbúið fyrir komu dótturinnar. Við Halldóra Björg náðum sem betur fer að eiga góða aðventu saman og bökuðum og föndruðum fjöldan allan af jólakortum sem svo aldrei fóru í póst... Desember 2009 var sérstaklega erfiður tími hjá okkur fjölskyldunni. Líf okkar breyttist á einni nóttu og var okkur kippt inn í atburðarás sem var okkur algerlega ókunnug. Á sama augnabliki fundum við hvernig þéttur veggur myndaðist í kringum okkur af fjölskyldu og vinum.
Halldóra Björg náði sem betur fer að njóta jólanna í faðmi fjölskyldunnar á Íslandi á meðan við, mamma og pabbi, fylgdumst með litlu systur hennar og öðrum litlum veikum börnum, berjast við að halda lífi í annars mjög svo veikum kroppum. Sumir töpuðu baráttunni en Matthildur barðist og barðist þar til hún sigraði örugglega. Í desember 2010 varð Matthildur aftur lasin og var lögð inn á spítalann hér í Salzburg. Það gerðist 14. des eða daginn fyrir 7 ára afmælisdaginn hennar Halldóru Bjargar. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sagði Halldóru Björgu að við yrðum aftur á spítala á afmælinu hennar og við yrðum að færa afmælispartýið þar til í janúar. Hún tók því eins og ekkert væri og faðmaði mömmu sína... Matthildur dvaldi á spítalanum í viku og Halldóra Björg bakaði súkkulaðiköku og gaf hjúkkunum á afmælisdaginn :) Við náðum að eiga yndisleg jól þar sem Matthildur náði sér á mettíma. Mér var hins vegar ómótt allan desembermánuð...
Nú í desember 2011 eru allir við hestaheilsu. Halldóra Björg búin að halda afmælispartý og Matthildur stjórnar öllu hér eins og herforingi. 15. des. fór Matthildur svo í 2 ára skoðun hjá barnalækninum sínum sem var hæstánægður með hana þar sem þroskinn er fullkomlega eðlilegur.
Nú heldur hinn árlegi jólaundirbúningur áfram en með öðrum áherslum en áður. Ég er breytt manneskja, ég finn það svo vel. Ég var alveg ógurlegt jólabarn og er það sjálfsagt enn en á allt annan hátt. Hef upplifað jólin í einmanaleika án barnanna minna sem kenndi mér að það er ekkert mikilvægara en að eiga góða fjölskyldu og njóta þess sem maður á. Jólin koma án þess að þess að búið sé að skúra eða klára Sörurnar og án þess að kaupa dýrar og fínar gjafir. Allt þetta skiptir engu máli. Lífið skiptir máli og það erum við sem kennum börnunum okkar lífsins gildi.
Það er skrítið að vera endalaust þakklát en það er einfaldlega þannig sem mér líður. Þakklát fyrir allt sem ég á og hef áorkað.

Gleðileg jól !

Harpa

þriðjudagur, apríl 12, 2011

Því miður...

Því miður hefur facebook unnið, ... lengsta reglulega mánaðarbloggi íslandssögunnar er hér með lokið. Ég komst ekki til að skrifa neitt í mars og hef ekkert að segja núna, reyndar frá nógu að segja en mig skortir orðin, frumkvæðið og kraftinn. Held meira að segja að ég skrifi þessi síðustu orð fyrir vindinn einann því hingað lítur varla nokkur maður lengur inn. Við svo búið blæs ég rykið úr gluggakistunni á þessu litla bloggherbergi sem lengi var fullt af hlátri og kommentum en gleymdist í öllu facebook fjaðrafokinu. Ég kem stólnum haganlega fyrir á sínum stað, ef ég skildi nokkurn tíma koma aftur og ríf niður köngulóarvefinn í síðasta sinn sem kemur alltaf milli eldhússkápsins og gluggakarmsins. Liggur enn eitthvað í draslskúffunni við innganginn? Ég veit það ekki, það er annarra að komast að ef einhver finnur þennan kofa í allri uppbyggingunni. Hérna skil ég eftir allar hálfkláruðu smásögurnar, allar minningarnar og alla vitleysuna. Loka hurðinni og sný lyklinum í ryðgaðri læsingunni. Hér var gott að vera. Ég geng niður að bílnum og lít í átt að blogginu, .. "Ætli honum hafi liðið svona manninum sem læsti hurðinni á síldarvinnslustöðinni í Djúpuvík á ströndum í síðasta sinn". Ég hætti að hugsa um það. Nú eru hér öll ljós slökkt og úti tekið að rökkva. Háuljósin lýsa mér leiðina á facebook. Þar er alltaf bjart og allir heima.

laugardagur, febrúar 05, 2011

Janúar liðinn, fullt búið að gerast og tíminn þeysist áfram

Tíminn hefur svo svakalega stungið mig af það sem af er þessu ári að mér finnst eiginlega sjálfum að ég ætti að fara að segja ykkur af áramótunum, þrettándanum og skólabyrjun, en það er nú þegar allt orðið old news sem allir eru búnir að gleyma. þannig að ég hef ákveðið að stinga niður það sem sendillinn bankar upp á með nýju plötuna.

kafli 3. hier brauche Ich deine unterschrift bitte.

Er Haraldur hafði nýlokið við að greiða sítt hárið og klóra sér letilega í flóknum bringuhárunum þar sem hann stóð fyrir framan vaskinn, hryngi dyrabjallan. "Ist hier jemand wer warted auf ein sendung von sony?" Heyrðist sagt í gegnum dósahljómandi dyrsasímann undir háværu feedbakki, hjartað tók kipp og Haraldur sveiflaði hárinu frá augunum og sagði, "elskan, diskarnir eru komnir". Gréta lagði frá sér morgun sígarettuna, blés út og beit í þurrkt brauðið sem lá á diski við hlið öskubakkans, "m hm.." heyrðist tautað út um munnvikið. Haraldur klæddi sig í leðurvestið, tók utan um brúnt, slétt hárið með hægri hendinni og lagði það yfir öxlina fram á brjóstið og tvíssté framan við spegilinn í forstofunni er hann hlustaði á þungt fótatak sendilsins í stigaganginum. "og hvað ætlarðu síðan að gera við allar þessar plötur? eru þetta ekki 5000 stykki?" spurði Gréta útum um annað munnvikið án þess að líta á hann. Haraldur starði í spegilinn og lyfti nasavængnum öðru megin Billie Idol style er hann hugsaði hið augljósa svar "..meikaða.." Bláklæddur sendill á miðjum aldri rétti Haraldi staðfestingu, reikning og móttöku eyðublað er hann gekk rakleitt inn í teppalagða forstofuna og settist við símaskenkinn, andaði þungt frá sér og bennti með breiðu nefinu á efsta blaðið í bunkanum í höndum Haraldar og sagði "Hier brauche ich deine unterschrift bitte". Sendillinn boraði kröftulega í nefið með þumlinum meðan Haraldur beygði sig hæglega yfir símaskenkinn, þannig að slétt hárið hékk báðum megin höfuð hans niður og sveiflaðist í takt við hrynfastar hreifingar pennans. Sendingin var komin, Haraldur flýtti sér niður og opnaði á göngu upp stigann fyrsta pakkann, 25 stykki í pakka af "where the fire burns" með -Lost At Sea-. Haraldur horfði einbeittur á logandi eldtungur umslagsins er þær liðuðust í kringum svart mannshjarta og sveiflaði hárinu til hliðar, Gréta gladdist ekki, hún hataði að þeir hefðu skrúfað fyrir rafmagnið.

Ah sorry, þetta var víst önnur hljómsveit og annar Haraldur, en ég ákvað að segja ykkur af honum þar sem tíminn leið svo hratt í janúar að ég man bara eiginlega ekki neitt. Þeir sem þekkja okkur vel, geta hrngt í Hörpu og fengið nánari upplýsingar um það sem gerðist í janúar og hinir verða bara að geta í eyðurnar, eða skrifa nýja sögu.

H.

fimmtudagur, janúar 13, 2011

sorry, sorry, sorry lesendur góðir...

Hæ. Einu sinni sagði ég nú að ég ætlaði ekki að hætta að halda úti þessarri "dagbókar" síðu úti, þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir facebook þar sem allt kemur fram of þar sem allir eru, en einhvernveginn tókst mér samt að falla í þá djúpu grifju. Í síðasta mánuði var auðvitað margt um að vera, við fluttum í nýju íbúðina okkar í Münzgasse 4, í miðbænum, í byrjun mánaðarins og auðvitað var það mikið verk að koma öllu í stand. Síðan komu elskulegir tengdafpreldrar mínir og fengu sér skammt af gubbepest fjölskyldunnar, en Valdi slapp þó fyrir horn.

Þau voru varla stigin inn en upp kom verkfæra taskan og hafist var handa við ýmsar uppsetningar, upphengingarnar, skipulag og jólaeldamennsku, þvilíkir dugnaðarforkar ! Eftir heimsóknina voru jólin bara komin, eldhúsið fullt af ný steiktu laufabrauði, pörtum, hangikjöti rjúpum og grænum ORA banum, þvílík hátíðarstemmning. En þá vektist músin, fékk slæma vírus sýkingu og þurfti að leggjast inn á Landes krankenhaus, rett örfáum dögum fyrir jól. Við það vöknuðu strax óþ´gilegar minningar síðasta árs, sem til allrar lukku eru bara minningar. Matthildur buslaði sér í gegnum veikindin og fékk að fara heim 3 dögum fyrir jól. að var mikill léttir en varð til þess að afmæli Halldóru Bjargar var frestað fram á nýtt ár.

Jóla matseldin tókst vonum framar og hátíðarstemmning var í sófanum er við horfum á Mackauley Culkin lumbra á ræningjunum í Home alone...

Síðan fórum við í 5 daga upp í Speiereck og vorum yfir áramót á skíðum og í mjög góðu yfirlæti hjá góðum vinum okkar Dodda og Þuríði.

Það sem af er Janúar höfum við verið í hvað mestri ró, notið nýja heimilissins og hvers annars, allir í fríi. Núna hins vegar er allt farið af stað aftur, Halldóra Björg í Fransiskaner , Harpa og Matthildur í Mozarteum og ég í vinnuna. Groundfloor er að klára nýju plötununa, ".. this is what´s left of it" og heldur nokkra tónleika í Austurríki um mánaðarmótin jan/feb.
nánar af því seinna.

endilega lesa, kommenta og vera hress, fress segir bless.

fimmtudagur, nóvember 18, 2010

Húffh allt að gerast !

Jibb, og þá var kátt í höllinni ! Nú erum við loksins að hafa okku í að byrja að pakka og vesenast, ekki seinna vænna þar sem við fáum nýju íbúðina í MUNZGASSE 4 eftir eina viku. Við erum næstum búin að palla í alla kassagerðarkassana sem við keyptum fyrir flutninginn yfir á meginlandið 2006 og þó sést varla að við séum nokkuð byrjuð, ætli búslóðin fylgi verðbólgu og vísitölubreytingum?... mér finnst við ekkert hafa verið að kaupa svona mikið en einhvernvegin hefur höfu'stóllinn vaxið umfram minn skilning. Það hefur reyndar fjölgað um einn í fjölskyldunni en hingað til hefur mér ekki fundist hún leyta neitt meira í búðir en önnur 11 mánaða börn og ætti það ´vi ekki að skýra þessa öflugu inanstokksaukningu heimilisins.

En við slíkan búferla flutning eru þó oft ansi margir kostir, (sem er oft höfuðástæða búferlaflutninga) og í þessu tilviki er erum við mjög meðvituð um helstu kosti flutningsins, einna helstur kostur annars margra, er að í Munzgasse er nefnilega engin geymsla, og neyðist maður þess vegna til að hafa enga geymslu til að sjá um... í Schwarzstrasse er afar stór geymsla og var ákveðinn maður skipaður í það verkefni að halda henni skikkanlega til haga, fenginn til að raða skipulega inn skíðum, verkfærum, töskum, flöskum og umbúðakössum. Eftir annars ágæta byrjun yfirmanns geymslumála, lagerstjóra, framkvæmdastjóra og hleðslumanns (allt sami starfsmaðurinn) sem náði yfir hornborðsmíði úr gömlum skáp og smíði á forláta hillu ásamt uppsetningu fór áhuginn dvínandi og metnaðurinn fyrir "hinni fullkomnu" geymslu hrindi alveg, þegar, .. hillan hrundi með öllu sem á henni var... eftir að geymslustjórinn hafði hennt inn á mitt gólf geymslunnar gömlum bláum sófa og meðfylgjandi pullum svo að ómögulegt var með öllu móti að stíga fæti innar í geymsluna en sem nam eins og hálfum metra, og eftir að sú staða kom upp, var ekki aftur snúið. Stafsmanninum hefur verið sagt upp og er nú geymslan í umsjá okkar saman, okkar hjónanna, saman, mín OG Hörpu. Ég fæ vonandi bíl ur vinnunni um helgina til að fara með geymsluna á haugana.

Í Munzgasse er engin geymsla, engin þörf á sérstakri manneskju til að sjá um "geymslumál" engin rifrildi um hver eigi að klifra þessi 77 þrep upp og niður til að ná í töskur fyrir ferðalagið, engin spurning um hver eigi að halda á tómu bjórflöskunum niður í geymsluna, því maður þarf ekki einu sinni að fara niður nné í geymsluna. ég sé fyrir mér hamingjuríkt líf í Munzgasse 4.

Mitt í öllu þessu erum við Harpa að spila á fullu, gigg um hverja helgi og allt í stuði. Endilega chekkið á Sound Post á facebook og hlustið á efnið okkar sem við höfum smellt þar inn. kærar kveðjur,
fyrrverandi framkvæmdastjóri geymslumála og hleðslu, viðtöku og afgreiðslu geymslu afurða, herr, doktor Haraldur Gudmundsson.

fimmtudagur, október 28, 2010

veturinn er kominn með allt sitt kvef og allann sinn kulda

Hæ segi ég og sýg upp í nefið, í dag er fimmtudagur og Matthildur grætur inn í rúmi meðan rökkrið færist hljóðlega yfir. Hún er hóstandi og hnerrandi í kapp við okkur hin en slefið kemur í ofan á lag hjá henni, þannig að Mattan okkar er oft ansi hreint slímug.

í þessarri viku hef ég fengið margar mjög góðar hugmyndir, aldrei þessu vant, og ætla ég að taka ykkur í stuttann rölt um hugarheima mína...

Eftir annars ágætt start á nýja verkefninu okkar Hörpu, "Sound Post", hef ég að sjálfsögðu fengið margar hugmyndir um hvernig væri best að koma því almennilega á koppinn og hef nú þegar bókað ansi skemmtilega tónleika staði sem gætu hugsanlega veitt okkur gott start í næsta ár. Við erum strax farin að hugsa um að taka upp prógrammið sem spannar hatt í 16 tilbúin jazzlög. Harpa hefur nú ekki verið sérlega þekkt í jazzheimum en hún gerir þetta sérlega vel, fer vel með textana og fraserar eins og þær bestu, ég er afar stoltur af henni. Sound Post byrjaði nú ansi forvitnilega, ég var núinn að bóka annað jazz trío, "BaadRoots"sem spilar einnig eingöngu mínar lagasmíðar, en þeir félagar mínir komust ekki settann dag, því var að annað hvort að hræra í nýtt project í hvelli og æfa upp rpógram eða afsegja gigginu. Harpa hafði auðvitað hlustað á mig gaula þetta kvöld eftir kvöld og þekkti nú þegar flest allar melódíurnar og meiripart textana og þar sem hún er sjálf söngkona, var hún ráðin, en fékk ekki að vita það fyrr en seinna. því næst leitaði ég að gítarleikara og fann hann, Julian Urabl, lítinn trítil úr Salzburg sem spilar eins og engill.

Á meðan á öllu þessu stendur þá er Harpa að koma sér aftur inn í skólann eftir hlé síðasta vetur og hljómar alveg glimrandi vel, kennararnir í heild sinni afar ánægði með útkomuna og keppast um að eigna sér heiðurinn af hinni nýju breyttu Hörpu, .. en ég veit nú betur, heiðurinn af framförum Hörpu á óperusviðinu á hin litla slefandi Matthildur, með allri sinni baráttu og sigrum og sínum óbugandi karakter hefur hún haft ótrulega mikil áhrif á okkur foreldrana. Við gerum okkur frekar grein fyrir því að það sem við tökum okkur fyrir hendur skaðar engann þó það gangi ekki upp né að góður árangur veiti nokkuð öryggi um ævarandi hamingju, þess vegna göngum við mun léttar til verks og þar af leiðandi gengur okkur einfaldlega betur. Einu sagði ég, þegar allt var sem erfiðast hjá Matthildi, að ég hefði nú lært það að það væru engin alvöru vandamál nema þau sem snéru beint lífi eða dauða, þessi skoðun mín hefur aðeins slípast til frá þ´vií janúar en í grunnvallaratriðum óbreytt, þökk sé þessarri litlu mús.

Matthildur er farin að skríða út um öll gólf og dundar sér við að rífa og tæta nótur, jazz tímarit og Bo Bedre... þegar hún dettur niðra góða uppskrift, nú eða jafnvel gott gítarsóló ú Down Beat þá á hún það til að leggja sér þær kræsingar til munns.

Harpa og Halldóra Björg fóru í skvísuferð til Linz í dag, Linda og Helga, listamennirninr okkar í Linz buðu okkur að koma yfir í smá veislu sem mæðgurnar þáðu með þökkum, ég reyndar þáði það líka en við Matthildur slefandi og fnæsandi horslummum í allar áttir myndi varla hæfa í svo fínu boði sem þessu. Ég mæli með að þeir sem ekki hafa skoðað leyti þær systur uppi í netheimum og skoði gallerýið þeirra, sérlega skemmtilegar skúlptúr myndir, fataframleiðsla úr íslensku hráefmni og skartgripir, síðan eru þær líka sjálfar svaka skutlur fyrior karlmennina. "Atelier einfach MÝR design" check them out.

a... ég er búinn að blaðra svo mikið að ég ætla bara að halda hugmyndunum öllum fyrir mig, það kemur allt í ljós seinna.. en bíddu ! ,... bling ! Var að fá hugmynd, ... panta sushi, einhver með?

H

sunnudagur, október 10, 2010

engin kæra, ekkert gaman.

Kæra dagbók, ég er hættur við að kæra fólk sem sinnir sínum daglegu salzbúrgísku störfum og kæri mig ekki lengur um að kæra þá sem sinna sínum daglegu störfum í kæruleysi. í kær fór ég... í gær ákvað ég að blogga í dag, því í gær átti ég stutta samtal við virðulegan mann sem táraðist bara og grét þegar ég svaraði spurningum hans. Hann sem sagt spurði bara um Matthildi, hvernig þetta hefði allt veirð og hvernig hún væri núna og hvernig ég héldi að hún myndi verða. Við öll mín svör roðnuðu augu hanns og fylltust af tárum, og í hvert skipti sem ég tók eftir því reyndi ég að "hugga" hann án þess þó að taka utan um hann og klappa honum á bakið og hvísla í eyrað að þetta yrði allt í lagi, heldur með að segja eitthvað ferskt og bjartsýnt og glaðlegt um reynslu okkar. Það kallaði bara fram meiri tár hjá aumingja manninum, sem varð til þess að ég þakkaði honum kærlega fyrir að fyrlgjast með okkur fjölskyldunni, styðja okkur í hugsunum og að hafa komið að hlusta... þegar ég gekk í burtu heyrði ég enn að hann snökkti.

Það er allt kreisí hérna á svörtugötu núna ! Við fundum æðislega fallega íbúð í miðbænum og skrifum líklega undir í vikunni. Settum auglýsingu um okkar íbúð í blaðið og bara BOMM komin læknisfjölskylda með fullt af börnum sem segja bara "hættið að auglýsa við viljum flytja inn á morgun", við auðvitað himinlifandi, blásum til *Dirndl veislu og höldum upp á (einnig auðvitað til að hella salzburgaríslendingana nógu fulla til að þeir samþykki að hjálpa okkur að halda á öllu helv.. draslinu okkar aftur niður af 4 hæð... 77 þrep !) en þá hryngir síminn og allt aftur í baklás, leigusalinn vill ekki leigja læknunum og börnunum hans, "af því þau eru of MÖRG", hið týpíska austurríska yndæli. þannig að við erum ekkert að fara flytja í bráð heldur að halda áfram að leyta eftir **nachmieter.

Oktober er kreisí að gera í tónlist, fullt að tónleikum að spila, með Hörpu án Hörpu á Hörpu og slaghörpu, Hörpu slag, Harpa í slag og ég er með slag á hjartaásinn og allt ásamt því að fara á tónleiak þess á milli sem maður á frí kvöld. Þetta gerist ekki oft svona, en november er einnig að verða líklegur kandidat í þess háttar spilabrjálæði, það er bara mjög gaman.

Við Harap höfum sett saman nýtt project sem gengur vonum framar, búin að spila eitt gigg með Julian Urabl, ungum austurrískum jazz gítarista, og erum búin að taka upp smá demo sem við ætlum að brenna sjálf og ljósrita umslögin, líma sjálf og dreifa frítt á tónleikum, sem eru nokkuð margir framundan.

jæja, vinna á morgun, verð að hætta, Matta, HBH, Harpsíkord og ME the MAN, biðjum fyrir KÆRUM kveðjum til allra ykkar sem fylgjast með okkur. H.

*austurríksur þjóðbúningur, a.k.a. Heiða með brjóstin uppúr
**eftirleigjandi