Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

miðvikudagur, desember 21, 2005

Góðir vinir...

Ég verð nú að leggja aðeins til málanna til heiðurs henni Önnu vinkonu minni.
Þannig er mál með vexti að ég og Halli fórum út að borða í gær og Anna og Hrafn buðust að sjálfsögðu til að passa litlu vinkonu sína, sem var mjög sátt við stöðu mála og kvaddi foreldra sína hratt og ákveðið til að hafa sem mestan tíma með vinum sínum. Alla vega, þá talaði Anna um það á blogginu sínu hvað það væri gott að koma í heimsókn í Bugðulækinn :)
Ég verð nú að segja að þegar ég kom heim frá því að borða gott Sushi í gærkveldi upplifði ég mjög spes tilfinningu. Þegar við opnuðum dyrnar var dýrindis kökuilmur og Anna nýbúin að klára að baka smákökur, sem voru himneskar. Ég verð bara að segja að mér leið eins og ég væri komin heim til mömmu :) þar sem hún var búin að baka og allt var tilbúið. Þar sem ég er sjálf orðin mamman þá finnur maður þessa tilfinningu ekki oft og það er voðalega notalegt að upplifa hana svona í skammdeginu, takk elsku Anna mín. Það er gott þegar hlutirnir eru bara svona heimilislegir, þannig á lífið að vera.
Pojntið með þessari sögu er það að það er líka ofsalega gott að koma til Önnu í Bugðulækinn og enn betra að koma til hennar í litla húsið á Urðarstígnum. Það fylgir þeim Önnu og Hrafni einhver sérstök ró og þægilegheit, alltaf. Alveg magnað :)

Takk fyrir mig

Húsmóðirin

þriðjudagur, desember 20, 2005

mánuður...

Nei húsmóðirin er ekki horfin....

Ég er samt ekki búin að vera í mánuð í sveitasælunni, það var nú bara helgi sko....
Svona er þetta hjá mér, það er náttúrulega hálf vonlaust hjá mér að ætla að halda úti svona síðu þar sem ekkert gerist með margra mánaða millibili usss uss usss.

Annars er ég að leggja lokahönd á jólakortin og annan undirbúning jólanna. Halldóra Björg búin að halda upp á afmælið sitt með pompi og prakt og orðin tveggja ára stúlkan. Það er samt orðið hálfgert ástand hér á heimilinu vegna þess að hún er farin að apa allt eftir sem við segjum, foreldrarnir sko, og það er ekkert sérstaklega gott því að Halli blótar svo mikið... :( Nú er heljarinnar átak í gangi þar sem á að útrýma öllum blótsyrðum á heimilinu, hana nú.

jæja verð að fara að kaupa jólagjafir

Hó hó hó Gleeeðileg jól

Húsmóðirin