Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

mánudagur, ágúst 18, 2008

Skemmtilegt fyrir áhorfendur, leiðinlegt fyrir mig.

Við fjölskyldan vorum rétt í þessu að koma af "ströndinni", það er staður hérna niðrí bæ sem býður upp á standstemmningu. Sólhlífar, kokteilar og .... sandur á veröndinni, jibb ekta strandstemmning. þegar við löbbuðum heim varð mér hugsað um atvik sem henti mig hér um daginn, þegar við fjölskyldan vorum á gangi í Linzergasse, götunni okkar, á sólríkum sumardegi. Nokkuð sem var skemmtilegt fyrir áhorfendur en ... leiðinlegt fyrir mig. Þennan dag var mjög mikið að fínu fólki gangandi um götuna okkar, að eyða tímanum fyrir næstu óperusýningu eða næstu orghesta tónleika því nú stendur yfir festspiel sem er hin árlega heimsfræga klassíka tónlistarhátíð hér í borg. Hátíð þessi dregur að sér mikið af fólki, oft mjög gömlu og mjög efnuðu og afar snobbuðu fólki, sem lætur jafnvel veðrið móðga sig ásamt öllum öðrum vanköntum hversdagsleikans.

En eins og fólk sem þekkir mig þá er ég nú enginn hversdagsHalli, ég er Hallinn ykkar.

Við fjölskyldan vorum á gangi upp götuna okkar og nálguðumst kebab stað einn, sem við höfum átt nokkur viðskipti við áður, þegar við sáum starfsmenn staðarins sparka á milli sín tennisbolta í frítímanum. Það var lítið að gera og þeir höfðu lengi sparkað, í ró og spekt rúllaði boltinn gegnum mannþröngina eins og væri sendur af snjöllum billjard spilara, algerlega óáreittur af hinu afslappaða festspielfólki sem þakti sjónarsviðið. Stundum skoppaði hann á milli veggja götunnar og endaði smekklega á réttum stað, við fætur kekab kallana tyrknesku. Við gengum áfram, jafnróleg og aðrir, og fylgdumst með þessum kebeb kunningjum í boltaleiknum. Guli tennisboltinn hafði greinilega komið víða við, ég tók eftir því að hann var ekki alveg jafngulur og mér hafði sýnst hann áður, né jafn þurr og ég hafði haldið hann vera. Hann hafði líklega lent í bjórpolli eða öðru leiðindagutli sem liggur yfirleitt á göngugötum sem slíkum, en ég hugsaði ekki meira um það. Þegar við fjölskyldan nálguðumst boltaspilarana og Halldóra Björg datt inn í sjónlínu eigandans, leit hann skyndilega upp, líklega í von um viðskipti og sá mig.

Hann hefur líklega haldið, að jafn fitt og flottur náungi og ég, að þessi herðabreiði ísklenski víkingur kynni nú að fara með bolta, eftir allar uppspunnu EM fótbplta samræður okkar, sendi hann á mig knöttinn. Ég leit upp með íslenska alþýðubrosið þegar ég sá hinn forargula, rennblauta tennisbolta skoppa til mín og hugsaði, "Ég er sko ekki að fara að taka þátt í þessu með allt þetta fína fólk hér gangandi hjá, ég sendi þetta bara strax aftur til föðurhúsanna". Þar sem loðni skítaköggullinn kom skoppandi nær mér hugsaði ég hvernig væri best að koma þessu frá mér, eftir nokkrar lendingar boltans var hann kominn við fætur mér og ég .... ofurlétt .... teygði tá mína .... ofurlétt, og teygði og teygði en .... teygði mig kannski aðeins of hratt og hitti hinn skoppandi skítaknött þéttingsfast í hliðina og með því endasentist hann frá MÉR á fleygiferð, ég, hinn saklausi ég, hinn vonlausi knattleiksmaður ég, vonaði að einginn hlyti skaða. En heppnin var ekki með mér.

Hinn loðni skoppandi skítaknöttur smellhitti fína miðaldra frú í andlitið sem leiddi mann sinn á leið í óperuna. Allir sem til sáu misstu málið og tíminn stóð í stað. Mér fannst eins og allt væri stopp og ég vonaði að ég gæti teygt mig í boltann, tekið hann af enni konunnar og þurrkað af henni ofurlétt og sent tímann aftur af stað. En sú var ekki raunin, hún brást hin besta við, Hún sagði ekki neitt, ég sagði ekki neitt, maðurinn hennar sagði ekki neitt og kebebkallarnir sögðu ekki neitt, enginn sagði neitt í götunni... það sló á algera þögn.... þangað til hún og maðurinn voru komin fyrir næsta horn, þá sprungu allir úr hlátri meira að segja þeir sem höfðu ekki einu sinni séð hin snilldarlegu tilþrif, allir hlógu.... nema ég. Ég blóðroðnaði og drullu skammaðist mín. Eigandi kebabstaðarins kom til mín með tárin í augunum og sagði að þeir hefðu spilað bolta í götunni allan daginn og ekkert hefði gerst, enginn hefði orðið fyrir skoti, þetta væri ótrúlegt.

Ég gat því einu til svarað að hæfileikar mínir í flestum boltaíþróttum væru líka ótrúlegir. Næst læt ég blöðruna rúlla framhjá og þykist vera partur af hinu ofur snobbaða óperu liði sem lætur ekki plata sig í boltaleik.

Halli.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Allt að gerast...

Jæja þá er allt að verða komið í samt lag.
Tölvan hrundi um leið og ég kom heim úr Lofer þannig að við erum búin að vera tölvusambandslaus í þann tíma, sem er ekki magnað. Við erum að koma netinu í lag heima á Linzergasse og ég vona að það verði komið í lag í kvöld.
Óperunámskeiðið í Lofer var alveg meiriháttar og er óhætt að segja að ég hafi lært mikið og kynnst góðu fólki víða að úr heiminum. Ég sakna þeirra allra núna. Er að díla við smá lægð núna eftir þetta allt saman, held að það sé eðlilegt eftir svona intensíva vinnu í nær tvær vikur með góðu fólki. Var samt rosa fegin að komast til Halla og HBH.
Nú erum við að reyna að koma lífinu í venjulegt horf. Halldóra Björg byrjuð á leikskólanum og ég að koma mér aftur í gírinn. Halli er að æfa á fullu fyrir íslandsferðina með pólska bandinu sem verður fyrstu vikuna í sept.
Við erum að skoða íbúðir núna og stefnum á að flytja ef eitthvað annað býðst sem er ögn stærra en um leið ódýrara (I wish..) það þýðir jafnvel aðeins út úr Salzburg en það leggst bara vel í okkur, þ.e.a.s ef lestarsamgöngur eru góðar. Já já það er allt að gerast og gleðin ein við völd :)
Erum að fá gott fólk í mat til okkar í kvöld, Íslendinga sem bjuggu hér rétt áður en við fluttum og við náðum góðu smabandi við. Gúllassúpa og heimabakað brauð á boðstólnum !!!

Við hlökkum til að komast í samband við allt okkar fólk aftur... Það er alveg ferlegt hvað maður er orðinn háður tölvunni, þ.e.a.s ég því að Halli hefur engan áhuga á þessu og var held ég bara feginn þegar hún hrundi... Nei nei þetta er nauðsynlegt og gerir fjarlægðina mun styttri.

Bestu kveðjur og hlakka til að heyra í öllum.

Harpa Þ