Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

sunnudagur, október 22, 2006

Þetta er alveg magnað...

Jebb þetta er magnað tæki þessi tölva og þessi tölvuheimur. Fyrir nokkru kunni ég ekki að kveikja á tölvu, prenta úr henni eða skrifa póst, hvað þá að framkvæma hina ofurflóknu aðgerð að blogga. En núna er maður orðinn svo virkur að ef ég skrepp i burtu í smá tíma fara menn bara að heimta meira blogg og það strax. Og það besta er að háværustu kröfuhrópin koma úr íslandsátt, nánar Hlíðarbrautinni á Blönduósi. En þar á bæ lærðu menn að lesa blogg um það leyti sem við fluttum hérna út. Því segi ég að þeir síðustu verða fyrstir og þeir fyrstu í öðrusæti. Jamm, ég fór til St.Martin að vinna við Skihotel Speiereck á mánudaginn sem er ekki frásögu færandi, enda engin áform um faglegar lita og málningarfrássagnir hér. Á miðvikudaginn fórum við út að borða. Til Flachau, sem er klst frá St.Martin, við fórum þangað af því að þar eru framreiddar "heimsins bestu nautakjötsteikur" á hverjum degi. Maturinn var himneskur, (þetta ætti frekar heima á bloggsíðu matarklúbbsins Matskák, en höldum áfram...),nautacarpaggio með parmesan og rukóla salati sem var frábært og stærðarinnar steik. Ekki langt eins og handleggur heldur stutt, þykk og há eins og lítill tempur koddi, í fullkomnum hlutföllum. Bragðið æðislegt, sósan góð og vínið líka. Rétt eftir að ég kyngdi síðasta bitanum með sælusvip og roða í kinnum fór ég að taka eftir mjög undarlegum mönnum á rölti um staðinn, við nánari eftigrennslan sá ég það glökkt að hér voru komnir hljófæraleikarar í austurískum þjóðbúningum og stigu þeir vígreifir á svið. Hasarinn byrjaði um níu og þá var hvergi hopað til miðnættis. Prógrammið hófst á allkyns þekktum jóðlstandördum og líka þekktum "klappítakt" austurískum ellimannasöngvum. Stemmingin náði hápunkti eftir greinilega mjög þekkt lag sem hljómsveitin notaði í undirleik fyrir "jóðlbattle". Það stóðu tveir skrítnir menn í stuttleðurhósum með axlabönd sem héngu með hliðum og í rauðum hnéháum sokkum, í hvítum skyrtum og með rauðan klút með risastórum hnút og með fjaðrahatta, og jóðluðu í keppni við hvorn annan. Sumir minna vina þekkja þetta listform sem gítarbattle, þar sem tveir síðhærðir, tattúveraðir geðsjúklingar taka vangefin sóló til skiptis, en þessir jóðluðu bara hraðar og hærra, með þeim mun meiri mun á háu og lágu jóðli og með cresendo og diminuendo maður og allt saman. Þarna voru augljóslega mjög færir jóðlarar á ferð og tel ég mig heppinn að hafa upplifað þetta. Nú veit ég hvað ég fíla í jóðli og hvað er flókið og töff. Þeir héldu áfram snillingarnir í gegnum hin ýmsu lög vel skreyttum jóðli og var það gott, sér í lagi fyrir hláturtaugarnar sem þreyttu maraþon þetta kvöld. Síðan byrjaði ballið. Hljómsveitin skipti um gír og hóf að spila þekkt danslög frá ´60, ´70 og ´80 með afardræmum árangri. Best fannst mér þó bandið standa sig er þeir sungu bæði Bítla og Buddy Holly á þýsku en restin var bara soldið leiðó. Reyndar elskuðu allt fólkið þarna inni (troðfullt hús á miðviku degi, dont know why) bandið og dönsuðu á fullu. Ekki var unglingur sjánlegur, né ungmenni. Ekki heldur fólk á milli 20 og 30 þarna inni nema ég og ekki nema tveir milli 30 og 45 (þessi sem ég er að vinna fyrir). Enginn milli 45 0g 65 en eftir það.... úff, allir ! Konan sem sat á borðinu við hliðina á mér var með staf og mjög gömul, afar fáar tennur sá ég upp í henni þegar hún söng með og hrópaði aíaaíaaí, eða jiiihúúúú ! Maðurinn hennar var eldri og söng minna. Þessi upplifum gleymist mér aldrei, þetta var skemmtilegt kvöld og er, skilst mér, venjulegt. Ég vann fram á föstudag og kom síðan í bæinn aftur, það var mjög gott að koma heim til stelpnanna minna. Fór og málaði íbúð gullreiðareigandans Kjartans á laugardag og við kláruðum það áðan (sunnudagur). Nú er fínt veður úti, sól og hiti og Harpa er að baka apfelstrudel. Nicht mit vanillen sause sem er það versta sem hægt er að fá hér í þessarri annars ágætu borg, heldur bara venjulega. En kakan verður bara snædd með ís sem er miklu betra. Jæja, lyktin úr eldhúsinu er svo lokkandi verð að fara, Svona rétt að lokum í virðingaskyni við þá sem elska jóðl---Jodeleidídei !!!