Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

föstudagur, október 31, 2008

Lítur allt vel út.

Ég byrja á mánudaginn næsta að vinna hjá litaheilaranum Ernst Muthwill og fer í sjálfskipað námsleifi frá kontrabassanum í bili. En atvinnuástandið er ágætt hér eins og stendur en fyrirtæki eru nú samt aðeins farin að draga saman seglin og undurbúa sig undir aðhald, í þessu fjármálaástandi sem nú ríkir um heim allann er það víst skynsamlegt. Ég tel mig bara heppinn að geta bankað upp á hjá "heilaranum" og gengið inn í hans "söfnuð" á ný.
En talandi um atvinnu, ég vil senda sérstakar samúðarkveðjur til allra kollega minna og félaga sem ég vann með á íslandi áður en ég flutti út sem hafa nýverið misst vinnuna eða koma til með að lenda í því seinna. Málið er grafalvarlegt. Mér barst nefnilega símtal frá Íslandi í gær þar sem einn gamall vinur og vinnufélagi hryngdi í mig til að athuga atvinnuástandið hjá mér, og hvort hér vantaði mannskap. Hann sá það fyrir sér að best væri, þar sem öllum starfsmönnum fyrirtækissins hefði verið sagt upp og hann vissu um fleiri fyrirtæki sem svo höfðu gert, að það væri best að leita á erlendar slóðir, aðrar en þær sem kollegar hans hefðu þalað um. "Nú stefna margir til Noregs og Svíþjóðar" sagði hann, "hvernig er þetta hjá þér?" ég fann mjög til með honum þegar ég sagði honum að hér væri, því miður, yfirleitt mjög gott jafnvægi á verkefnum og iðnaðarmönnum, (framboð/eftirspurn) og væri því ekki mikil eftirspurn eftir fagmálurum og að uppbyggingarhraðinn væri ekki lýkt því eins mikill og á íslandi hefði verið og þess vegna líka minni eftirspurn. Og þegar ég sagði honum að til að eiga möguleika á vinnu hér þyrfti þýskan að vera nokkuð góð, vegna þess að hér töluðu varla nokkrir iðnaðarmenn ensku. Eftir þetta stutta, örþrifaráðs-samtal við gamla vin minn, sagði hann að lokum að líklegast reyndi hann þá að fara til Noregs að vinna. -Hann á tvö börn, venjulega litla íbúð og venjulegan lítinn bíl.

Groundfloor platan rjátlast út hægt og bítandi og engar nýjar fréttir af því, en á lista yfir söluhæstu titla þessarar einstöku búðar og stillt út í glugganum. En markaðsdeild hljómsveitarinnar er að hugsa upp eitthvað rosalegt sölutrix fyrir jólin, til koma plötunni í austurríska alpajólapakka. Við sjáum hvað setur í þeim efnum.

Í kvöld er ég að fara hitta einn svakalegan, kontrabassakall. Hann heitir Henry Grimes og var uppi á sínu besta á bíbobb árunum, ´56 - ´65 en þá einmitt "hvarf hann". Hann hætti að spila, og varð húsvörður en hafði um langt skeið unnið með Sonny Rollins, Cecil Taylor, Albert Ayler, og spilað live með Coltrane og fleiri köllum. Síðan hætti hann bara að spila og hvarf í hringiðu mannlífssins í New York. Enginn vissi neitt af honum, hvert hann fór eða hvað hann gerði. Síðan poppaði hann aftur upp á jazz yfirborðið árið 2002 og hefur ekki stoppað síðan, rúmlega 40 ára hlé og nú 72 ára og túrar út um allt, heldur masterklassa og gefur út. Ég skrfaði þessum mikla kalli email, og umboðsmaðurinn hans bauð mér að koma á sándcheck tala við hann solo og hanga, þar til blaðamannfundurinn byrjaði. Auk þess að bjóða mér líka frítt á tónleikana. Ég bjóst ekki við að fá svar frá þeim en svona er þetta þegar maður bara prófar, reynir það sem manni dettur í hug. Ég ætla meira að segja að taka bassann minn með uppeftir og reyna að fá að spila með gæjanum, það væri ansk. skemmtilegt ef við JOHN COLTRANE hefðum spilað með sama bassaleikaranum... Hí, hí, hí.

Bestu kveðjur,
Kontrabassakallinn

sunnudagur, október 19, 2008

Jibbí !!

Hæ ! Ég hef þær gleðifréttir að færa að platan Bones með Groundfloor klifrar hér vinsældar listann á ógnarhraða, þökk sé strákunum í Musikladen í Linzergasse. Sem leiðir til þess að þegar loksins verður aftur opnað fyrir millifærslur banka Íslands og Austurríkis, sem liggja alfarið niðri um þessar mundir, þá komum viðl, strákarnir í Groundfloor, til með að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni við kreppuna með auknum gjaldeyri inn í landið. Þegar við greiðum aftur lánin okkar heima. En nóg raus um peninga og kreppu.

Við Harpa, Halldóra Björg og ég buðum Matthijs flautuleikara í afmælisveislu hingað um daginn þó að enginn hér ætti afmæli. Hann átti samt afmæli og við buðum upp á kryddköku, mjólk og múffur. Hann var hinn glaðasti og við áttum gott kvöld. Á Laugardaginn fórum við síðan í haustlitagöngu á Kaputzinerberg og gengum alveg hringinn, stoppuðum aðeins í Fransikanerschlosl og trömpuðum til baka. Í dag fórum við svo í margsuðaða og ítrekað neitaða túristaferð með fljótabátnum Sæunni, eða öllu heldur AMADEUSi áleiðis upp Salzach og til baka, og Halldóra Björg fékk að stýra. En eftir tveggja ára veru hér í Salzburg er ég bara orðinn svo þreyttur á þessum ófrumlegu nafngiftum á öllu sem nauðsynlega nafn þarf að bera og hef því byrjað að skýra hlutina bara sjálfur. Fljótabáturinn Sæunn heitir sem sagt Amadeus eins og ,... jú þið gátuð það.... Wolfgang AMADEUS Mozart, en hann var einmitt frægasti súkkulaðikúlugerðar maður þeirra austurríkismanna, og ber borgin því til vitnis ógrynnin öll af súkkulaðuikúlusölustöndum og súkkulaðikúlugerðarbúðum sem allar halda því fram að þeir hafi hina einu sönnu, upprunarlegu uppskript af Mozart kúlunum frægu. En nóg af Amadeusum, súkkulaðikúlum og krepputali, lifi Groundfloor, lifi byltingin og lifi Íslenska þjóðin.

Nú verður innmaturinn aftur vinsæll.

kv. H.

fimmtudagur, október 09, 2008

Nýjar myndir á myndasíðu...

miðvikudagur, október 08, 2008

Við höfum ennþá efni á að blogga !

Hæ allir.
Ég vil byrja á að senda öllum baráttukveðjur í ástandinu sem nú ríkir á Íslandi og gleðja hjörtu ykkar með einhverju hressandi. Ég er núna að blogga frá þeim yndislega stað Skihotel Speiereck í Lungau þar sem veðrið er æðislegt og útsýnið frábært. Reykurinn liðast upp úr hverju húsi í þorpinu hér fyrir neðan mig og nýt ég þess mjög vel að sitja á veröndinni, í ullarpeysunni frá Mömmu Lillu og lesa bók um Thelonious Monk. Sá gæi var nú ekki að hafa miklar áhyggjur af efnahagsástandi þess tíma, sem þó var helvíti slappt, bara samdi stórskrítin jazz lög og gekk rólega um götur Harlem. Þannig er bara best að tækla kreppuna, semja skrýtin jazz lög. Í öllu þessu havaríi megum við ekki gleyma að undanfarin ár hafa verið ævintýri líkust fyrir flest okkar, allavega þau sem hafa haft heilsu til að vinna og nema, allar hurðir hafa staðið okkur opnar. Eingöngu fyrir að vera fædd á Íslandi. Ég er að gera allt fínt og flott fyrir veturinn og Doddi og Þurý dekra mig alveg, líkt og þau gera við alla sína gesti. Þó að vinnan sé mikil og nóg sé að gera nýt ég þess til fullnustu að vera í þessu fallega og rólega umhverfi hér. Beljur á beit í brekkunum sem koma til með að fyllast af snjó og íkornar stökkvandi milli greina. Hér heilsast allir og brosa til hvors annars, þó svo einhver kreppa virðist vera í tanngarði fólksins, allavega miðað við höfuðstól. Enginn er að pæla í því hvort vanti eina eða tvær tennur í Lungau. En hér er margt gott fólk, yfirleitt frábært veður og sem skíðamaður segi ég frábærar skíðabrekkur. Við mamma og pabbi ætlum að þeysast hér um brekkurnar í vetur í faðmi þessara fjalla, það er besta tilfinning sem ég finn, tilfinningin í brjóstinu þegar maður þýtur framhjá trjánum einu af öðru með brjálæðisglampa í augunum og vonar að maður getur stoppað sig áður en maður hendist fram af hundrað metra hengju á toppi klettabeltis fyrir ofan hinn fagra dal.

Við familien Ha, eins og við erum stundum kölluð öll saman, biðjum aftur fyrir bestu kveðjum og munið... það er FRÍTT að kommenta.
Halli, skihotel Speiereck.

miðvikudagur, október 01, 2008

Hæ hó, vinir !

Nú er skólinn byrjaður, með öllu sínu stuði, stressi og stemmningu. Við fjölskyldan vorum svo heppin að góðvinur okkar Þorri Þorvalds. er kominn til að nema við skólann. Hann er búinn að vera koma sér fyrir í fallegri íbúð, rétt við Unterbergið, með Ásgeiri Páli stórsöngvara og útvarpsmanni, og eru þeir hinir hamingjusömustu í nýju íbúðinni. Hjá okkur er lífið bara í stærstum hlutum venjulegt en þó ein sú frétt að Halldóra Björg er farin að stunda kórsöng af miklum móð, fyrsta æfing í dag.
Allt fór vel og hún var ekki beðin um að vera bara heima næstu æfingar eins og síðast átti sér þegar hún mætti á æfingu með þessum sama kór,... en þá vegna aldurs, of ung sko.

Ég er búinn að fá myndir úr íslandsförinni og kem ég til með að skella nokkrum velvöldum á myndasíðuna okkar til ánægju og yndisauka (yndisauka... það þýðir fullt af myndum af mér)

Bestu kveðjur að sinni.

Halli, Harpa og Halldóra Björg.