Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

miðvikudagur, október 08, 2008

Við höfum ennþá efni á að blogga !

Hæ allir.
Ég vil byrja á að senda öllum baráttukveðjur í ástandinu sem nú ríkir á Íslandi og gleðja hjörtu ykkar með einhverju hressandi. Ég er núna að blogga frá þeim yndislega stað Skihotel Speiereck í Lungau þar sem veðrið er æðislegt og útsýnið frábært. Reykurinn liðast upp úr hverju húsi í þorpinu hér fyrir neðan mig og nýt ég þess mjög vel að sitja á veröndinni, í ullarpeysunni frá Mömmu Lillu og lesa bók um Thelonious Monk. Sá gæi var nú ekki að hafa miklar áhyggjur af efnahagsástandi þess tíma, sem þó var helvíti slappt, bara samdi stórskrítin jazz lög og gekk rólega um götur Harlem. Þannig er bara best að tækla kreppuna, semja skrýtin jazz lög. Í öllu þessu havaríi megum við ekki gleyma að undanfarin ár hafa verið ævintýri líkust fyrir flest okkar, allavega þau sem hafa haft heilsu til að vinna og nema, allar hurðir hafa staðið okkur opnar. Eingöngu fyrir að vera fædd á Íslandi. Ég er að gera allt fínt og flott fyrir veturinn og Doddi og Þurý dekra mig alveg, líkt og þau gera við alla sína gesti. Þó að vinnan sé mikil og nóg sé að gera nýt ég þess til fullnustu að vera í þessu fallega og rólega umhverfi hér. Beljur á beit í brekkunum sem koma til með að fyllast af snjó og íkornar stökkvandi milli greina. Hér heilsast allir og brosa til hvors annars, þó svo einhver kreppa virðist vera í tanngarði fólksins, allavega miðað við höfuðstól. Enginn er að pæla í því hvort vanti eina eða tvær tennur í Lungau. En hér er margt gott fólk, yfirleitt frábært veður og sem skíðamaður segi ég frábærar skíðabrekkur. Við mamma og pabbi ætlum að þeysast hér um brekkurnar í vetur í faðmi þessara fjalla, það er besta tilfinning sem ég finn, tilfinningin í brjóstinu þegar maður þýtur framhjá trjánum einu af öðru með brjálæðisglampa í augunum og vonar að maður getur stoppað sig áður en maður hendist fram af hundrað metra hengju á toppi klettabeltis fyrir ofan hinn fagra dal.

Við familien Ha, eins og við erum stundum kölluð öll saman, biðjum aftur fyrir bestu kveðjum og munið... það er FRÍTT að kommenta.
Halli, skihotel Speiereck.