Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Zagreb ferðin var æði !

Við vorum varla búin að pakka upp þegar við vorum farin að pakka niður aftur, í þetta sinn öll fjölskyldan á leið í tónleikaferð til Króatíu. Við brunuðum af stað á glænýjum audi og þustum í gegnum alpana, í gegnum Slóveníju, rétt fram hjá Ljubliana og rétt hægðum á okkur á ljósum rétt fyrir framan Hotel Sheraton, þar sem ég nelgdi niður og hennti lyklunum í vikapiltinn. Hann tók ádíinn, ... hans Peters og sagði mér að elta sig niður í bílageymslu, sem ég og gerði. Rétt handan við hornið hvarf hann niður ramp nokkurn, við enda hótelsins, þar sem ég síðan sá hann paufa við vél eina sem greinilega stjórnaði bílhliðinu inn í geymsluna. Ég hafði horft á hann slá inn röð talna áður en hann ók áfram niður rampinn og ætlaði ég, þar sem ég var enn ekki skráður gestur á hótelinu og því síður kominn með herbergisnúmer, að hann hefði nú bara græjað vélina þannig að við kæmumst báðir í gegn. Svo ég bara þrumaði á eftir honum niður rampinn og að hliðinu, sem enn stóð opið. En í þann mund sem framljósin og hálft húddið var skriðið inn fyrir gulu línuna, sveiflaðist sláin niður á við eins og flugbeitt axar egg á miðöldum, á leið að kljúfa glænýjan ádíinn í tvennt, hvernig myndi það nú hljóma hjá tryggingunum. Hva !!... Hellv... hvíslaði ég innra með mér að siglfirskum sið og botnaði drusluna. Í þetta sinn var það mér til happs að árgerð bílsins var sú sama og árið sem nú er að líða og ég þrýstist niður í sætið þegar vél bílsins þrumaði öllum stimplum sínum í allar áttir við að koma þessu níðþunga járnskrímsli úr sporunum. Þarna sat ég náfölur í framan þegar ég áttaði mig á því að rampurinn var ekki beint nógu langur fyrir kvartmílu og ég yrði að bremsa snökkt, til að fletjann ekki á steingráum burðarvegg hótelsins. Þar komu næstum ónotaðar bremsurnar mér til góða og klesstu andlitinu á mér frekjulega innan á framrúðuna þar sem ég stoppaði, einungis millímetrum frá hinum náföla vikapilti. Ég steig út úr bílnum, salírólegur og sagði "svona leggjum við bílum á Íslandi, ekkert mál".

Við komum okkur vel fyrir á hótelinu og nutum ískaldrar sundlaugarinnar og ískalda "heita" pottsins en bestur þótti mér þó hinn ískaldi matur sem við fengum á þessu annars virðulega hóteli, og hef ég ekki meiri orð um það. Tónleikarnir gengu mjög vel, uppselt og bandið náði vel saman. Eftir tónleikana fórum við út að borða á einhverjum leyndasta veitingastað sem ég hef komið á. Hann var við lítt farna götu, ómerktur að framan og maður þurfti að ganag gegnum langt port til að finna einhvern til að spyrja einhvern, ef maður fann einhvern, hvort hér væri veitngastaður. Við sendum heimamann í verkið sem kom okkur á sporið, niður langar tröppur, fyrir horn og að borðinu okkar sem hafði verið pantað. Þar spruttu upp sígaunar spilandi, sem héldu uppi stuðinu á meðan við borðuðum, milli rétta og á eftir, allveg rosalega gaman. Maturinn var FRÁBÆR.

Við náðum að skoða Zagreb svolítið daginn eftir og prófa ýmsa þarlenda skyndibita rétti, sem komust hvergi nærri matnum kvöldið áður. Síðan brunuðum við aftur fram hjá Ljubliana, gegnum Slóveníu og bremsuðum harkalega hjá Dodda og Þurí í Skihotel Speiereck. Þangað er alltaf gott að koma, hvort sem er til vinnu eða matar, ... eða skíða. Við gistum eina nótt og komum okkur svo heim.

Harpa fór síðan í gær (mánudag) í 10 daga masterclass í Lofer, smá þorp hérna rétt hjá, og við Halldóra Björg ætlum að skemmta okkur konunglega á meðan, eða prinsessulega.

P.s. Munið að kaupa Groundfloor plötuna.

Halli.