Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

laugardagur, maí 31, 2008

Ups and downs eins og alltaf.

Af ups-um og dáns-um er af nógu af taka, en ég ætla mér að láta nægja að minnast á nokkra þeirra. Hitinn hér er búinn að vera rosalegur undanfarna daga sem gerir alla fjölskyldumeðlimi þunga í skapi og snarpa í tilsvörum, ekkert endilega svo gott skap sem fylgir svona rosalegri veðurblíðu. Ég er hins vegar búin að snúa ástandinu mér í hag og hangi inni kaldri íbúðinni að æfa mig, lengur en ella og er því að ná alveg öskrandi framförum, ásamt því að vera að búa til meiri lög og nú er stefnan að reyna að klára tónleika prógram fyrir næsta sumar (2009). Harpa er búin að vera í marathon Töfraflautu æfingum ásamt öðru í skólanum og hefur stundum verið á barmi taugaáfalls við komuna heim að Linzer, svoleiðis eru lætin. En hún er hörð og þegar á móti blæs þá ýtir hún harðar og bítur fastar og mylur niður andstöðuna sem hún mætir og klárar sín verkefni.

Núna í dag var General prufa fyrir fullu húsi í Mozarteum. En við byrjuðum daginn á að fara í pikknikk í Volksgarden. Sátum í svalandi skugganum við vatnið horfðum á endurnar dilla rassinum meðan við mauluðum nestið okkar. Við ímynduðum okkur hvað það væri skemmtilegt að taka þetta upp á video vélina sem ég tók með... en hún var batteríslaus og myndavélin okkar hvergi nærri. Við borðuðum smurt úr bakaríinu á horninu og lékum okkur en það var ekki fyrr en við tókum upp crossantið að stokkandapar, sem við höfðum verið að fylgjast með, tók land við teppið okkar og vaggaði rólega í áttina að okkur. Þau voru um það bil 10 cm frá okkur þegar ég fór að banda þeim frá mér. Maður veit ekkert hvað þessar austurrísku háfjalla endur geta gert bláeygri íslenskri fjölskyldu. En þó ég hafi margt hugsað um endurnar datt mér þetta ekki í hug sem á eftir fór. Ég hafði greinilega gefið í skyn að yfir mig yrði ekki vaðið og færðu þær þá sóknarsvæðið að veikasta meðliminum, hinni fjögurra ára Halldóru Björgu. Hún sat á milli okkar með pínulitla brauðmola sem hún kastaði til þeirra öðru hvoru, en eins og það væri nóg? Ó nei, ó nei, svona fæðubóta endur vilja helst ekkert nema frankfurther pullsur, djúpsteikta kjúklinganagga og smjordeigs crossant. Þær réðust nú til atlögu að teppinu hægramegin við mig, þar sem Harpa sat og baksaði við nestispokann. Við höfðum öll augun á stokkandarsteggnum sem dillaði rassinum og kvaggaði sér, snéri upp á gogginn og dansaði á línu... Á augabragði, þegar við vorum sem dýpst sokkin í dáleiðandi sýningu steggsins, stökk andamamma upp í fang Hörpu, tók fiðurlétt spor, rétt til að teygja og lengja mjúkan hálsinn og festa flötum gogginum í risastórt crossantið sem Halldóra Björg hélt á og hafði rétt tekið einn aggalítinn bita af. Áður en við vissum var parið flúið á haf út og reif á milli sín crossantið. Hann reyndar fékk eiginlega ekki neitt þar sem hún var búin að lofa honum að bera börnin hans og fæða (þið vitið hvað matarlistin eykst og breytist á meðgöngu og karlarnir verða undirgefnir og meirir...) og þurfti þess vegna að borða það allt. Þarna var þetta ljóslifandi, hún hakkaði krossantið í sig meðan svangt barni grét söltum tárum. Eftir að við lentum í þessu fylgdumst við af og til með sakborningunum... (þau átu sönnunargagnið) og sáum að hún var alltaf með rassgatið upp í loft og andlitið á bólakafi að ná í sand á botninn til að éta, vegna greynilegra ofsafenginna meltingatruflana, sem kennir okkur eitt, ... eins og Harpa sagði svo skemmtilega þegar hún skellihló að sandætunni... Þér skulið ekki stela.

Harpa söng "dritte dame" með þvílíkum krafti og offorsi í dag að á tímabili leit út fyrir að verki hefði verið skrifað um þriðju þjónustu stúlku næturdrottningarinnar, sem missti barn sitt í hendur ræningja sem prinsinn Tamino ætti að bjarga frá vondum mönnum, drekum og díflissum. Hún stóð sig mjög vel, gerði það sem gera þurfti eftir miklar æfingar og ves, og söng eins og engill. Ég tók Halldóru Björgu með mér í fyrsta skipti til að sjá mömmu á sviðinu, á óperu, í 3 og hálfan tíma... Ég var alveg viðbúinn því að ég þyrfti kannski að fara heim eftir hlé en hún krafðist þess að fá að sjá alla sýninguna. Sem var í alla staði einstaklega vel heppnuð og skemmtileg, frábær leikstjórn, búningar, tækni trix og söngur, mér fannst eins og allt gengi bara upp... en hvað veit ég svo sem?...

Bestu kveðjur og munið útgáfutónleika Groundfloor á Organ 16 Júlí, frítt inn.

Halli.