Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Vorið er komið og grund...

Vorið kom um daginn, skömmu fyrir páska var hér allt í ilmandi vorlykt, óvenjulega snemmt þó eins og kom á daginn. Eða öllu heldur fór daginn eftir og páskarnir hófu innreið sína. Það var eins og árstíðirnar hefðu einungis verið að prófa sig áfram, athuga hvort öll kerfin væru örugglega í lagi eftir vetrarhvíldina. Sumarhitinn, sólin, lyktin og hlýja golan, allt var prófað, kerfin virkuðu og var þeim því pakkað niður aftur til nokkurra daga og veturinn kom. Eiginlega fyrstu og einu merki almennilegs vetrar komu í páskavikunni. Það snjóaði í Salzburg í tvo daga og við Halldóra Björg fórum og prófuðum jólagjöfina hennar. Trésleðinn með strigasætinu virkaði vel og við náðum 10 ferðum í Mirabell garðinum áður en við þurftum að flýja inn vegna hlýinda. Núna er svo komið að veðurkerfin hafa verið sett í fullan gang, engin prufukeyrsla. Fuglarnir stökkva syngjandi milli greina og brumknapparnir grænu lykta sætum ilmi meðan myndavélum skreyttir ferðamennirnir rölta í rólegheitum milli gosbrunna. Japanarnir setja upp "pís" merki á hverri mynd, hvort sem það er á veitngastaðnum með hausinn hangandi yfir djúpsteiktri Vínarsnitzel, við ljósum prýdda göngubrúna í myrkrinu eða við Gröf Leopolds Mozarts í St.Sebastian. Alls staðar "pís".

Á föstudaginn fór ég í fyrsta "session" giggið á ferlinum. Ég hef tekið að mér að spila inn á plötu hjá hljómsveit héðan úr Salzburg. Þau spila svona austurrískt jazz/popp. Ekkert flókin músík nema að því leyti að gíarleikarinn veit aldrei hvaða hljóma hann er að spila og ég verð að heyra það eða kryfja á gítarinn, eða komast að því á annan hátt. En þetta er bransinn og svona er vinnan. Það er samt alltaf skemmtilegt að spila tónlist og enn skemmtilegra ef maður fær að taka það upp á plötu og fær laun fyrir.

Harpa er komin á fullt skrið í skólanum aftur og það gengur mjög vel eftir smá ládeiðu undanfarið. Martha og hún vinna vel saman og Hún er að syngja "dritte dame" í Töfraflautunni í vetur. Töluvert minna hlutverk en aðalhlutverkið í síðustu uppsetningu sem hún gerði.

Við fjölskyldan fórum í rosalega góða gönguferð á sunnudaginn upp á Mönchbergið og myndavélin var tekin með. Engin písmerki samt heldur einungis fátækir námsmenn að leyta að gleðinni í gönguferð um Salzburg. En eins og við komumst að þá er hún auðfundin í slíkum ferðum.

Myndir á síðunni, kv. Linzerliðið.