Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

sunnudagur, desember 02, 2007

Adventupostur..

Hin hátíðlega aðventa er byrjuð með sínum ógeðslegu skrímslum, hræðslu og ótta ! Já svoleiðis er það hér í Salzburg, borginni sem býður venjulega upp á leðurhósur, Heidi kjóla (Dirndl), klassíska tónlist og tísku áttunda áratugarins. Þá byrjar aðventan á því að Nikulás kemur í bæinn. Hann kemur með sinn stóra gilta staf og góða skapið, því hann er boðberi afls kaþólskrar trúar, góðmennsku og gylliboða, til að hrekja hin vondu öfl til síns heima yfir hátíðarnar. Hann er stór karl í bænum, með svaka hatt og yfirmáta rólegur, ákveðinn í að hópa saman þessum ófreskjum (yfirleitt í portinu fyrir aftan íbúðina okkar í miðbænum) og reka þær burt úr bænum. En eins og af vondum öflum má vænta eru þær alls ekki ánægðar með það og verða árásarfullar, hávaðasamar og hrikalegar saman komnar, þessar verur heita KRAMPÚSH !!! Og eru viðurstyggileg kvikindi ... Í dag fórum við á fund þessara óvætta.

Einhver undarleg löngun greip okkur Halldóru Björgu í vikunni til að hitta þessi svokölluðu illmenni. Við sem höfum margra ára reynslu af Grílu og Leppalúða (sem eru samanborið við þessi dýr óttalegir lúðar bæði tvö) töldum við okkur alveg nógu sjóuð til að heilsa upp á kvikindin. Ég spurði Halldóru Björgu oft hvað hún ætlaði að gera ef þær kæmu til okkar og byrjuðu að hræða okkur, öskra, svipa okkur og brjálast. Hún sagðist þá bara ætla að galdra þá burt með töfrastafnum sínum sem (orðrétt) TUFFAR glimmeri... En ég komst að því í dag að hann þurfti víst að kaupa dýrum dómi í dótabúðinni áður en við færum til fundar... svo ekki var hægt að tuffa neinu glimmeri á þessi óargardýr í dag, bara bíta á jaxlinn. Við fórum niður í port og biðum.... ætli þeir þori nokkuð að koma, sagði ég við Halldóru Björgu... hún sagði örugglega ekki, ég ætla að öskra á þá, síðan sagði hún með litlu, björtu, brothættu þriggja ára röddini sinni ... "vvvrrrruuuuu" .... Við biðum spennt .... þeir voru orðnir seinir, klukkan langt gengin sex, eru þessir menn ekki með klukku, hugsaði ég. En þá gerðist það... við heyrðum ógeðslega djúpan kúabjöllu hljóm, baunk, baunk og síðan sagði mamma "þeir eru að koma héðan líka" og gæsahúðin spratt út. Með dimma kúabjöllu hljómnum bárust skerandi vein kvikindanna, WWWRRRÖÖÖÖGGGRRRHHH, WWRRRAAMFFF, HRRRRÖÖGGHH, og þegar þeir birtust úr myrkrinu voru allar leiðir lokaðar heim. Hornin voru það fyrsta sem augað greindi, síðan loðinn og ógeðslegur feldurinn, síðan brennandi augun og þá fyrst greindu eyrun eitthvað sem skarst inn um æðaveggina. Þeir öskruðu, þeir hoppuðu, þeir slógu fólk með hölum sínum, þeir urruðu á lítil börn !!! Þeir voru ekki glaðir. Á eftir þeim rölti hinn hvíti maður, boðberi góðmennsku og gjafmildi. En helvítið rölti bara, og ég var búinn að reikna með að hann kæmi bara strax og bjargaði mér (sem hélt skíthræddur á stjörfu barninu í fanginu) og barninu úr þessum hroðalegu aðstæðum. Hann var bara eitthvað staulast með stafinn, bla, bla bla og við að skíta á okkur af hræðslu ! Komdu þér úr sporunum gamli durgur ! Komdu þessum helvítum í gröfina ! Síðan horfðum við á þá lemja fólk með svipum, öskra og hrista sig, en þegar þeir komu að okkur að skoða barnið í fanginu á mér var mér ekki sama og ekki HBH. En eftir nokkrar æfingar fékk ég Halldóru Björgu til að urra með mér á helvítið sem rak sitt skítuga tríni framan í okkar. Við sögðum saman UUURRRHHH þegar þeir komu. Eftir nokkra stund ákváðum við að nóg væri komið. Mamma var eftir og myndaði á fullu. Þegar við vorum komin inn í lyftuna heima sagði Halldóra Björg að hún vildi aldrei fara út aftur. Síðan varð það "ekki út á morgun" og rétt áður en hún sofnaði var hún farin að tala um það þegar hún urraði á krampússinn og hann fór í burtu rosa hræddur. Þetta var mjög skemmtilegur dagur, en það eru engar ýkjur að þessi kvikindi eru hrikalega ófrínileg og mjög hræðandi. Aðventan er byrjuð með sínum yndislegu kaþólsku hefðum, við reynum að læra og meta hefðir þess lands sem við búum í samt því að taka þátt í "helgiathöfnum" þeirra sem þessum.

Nú erum við að verða búin að skreyta og héðan í frá verða mjög mikið kristilegri hefðir uppi við. Kertljós, jólalög, kossar og hverabrauð ... (mér fannst bara hverabrauð passa en hér eru nottla engir hverir). Það kemur stöku sinnum fyrir að hér finnist smá hveralykt en þá er yfirleitt hægt að reka það til mín.

Með KRAMPÚSH kveðjum, Familien Von Salzach

Nýjar Krampusmyndir á myndasíðunni
!!