Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, september 18, 2007

Gestir fra Herlev og operuferð til Vinar.

Við fengum mjög skemmtilega heimsókn frá Danmörku í síðustu viku. Doddi, Valgerður og Sylvía komu með góða skapið og gubbuna. Ég var að vinna á daginn sem var pínu fúlt en hitti þau svo á kvöldin í góðu yfirlæti Hörpu minnar og var það rosa næs, alltaf heitur ylmandi matur, allir kátir. Stelpurnar litlu náðu rosalega vel saman og áttu mörg frábær móment. Við Doddi notuðum kvöldin saman til drykkju eins og gengur (soleiðis gera strákar sko) og röltum í regninu. Eitt kvöldið enduðum við uppá fjalli, hérna beint fyrir ofan Linzergasse og annað kvöldið á Jazzklúbbnum mínum þar sem við heyrðum eiginlega ekki neitt fyrir skvaldri og glasa glamri og enduðum bara á hinu margrómaða "Shakespeare" listakaffi. En það var einmitt þar sem hinn þaulreyndi atvinnumálari fékk hreinlega gubbupest af litavali staðarhaldara og náði sér ekki fyrr en nokkrum dögum seinna, ældi alla nóttina. Ég hins vegar er orðinn ónæmari fyrir þessum hörmulega innanhúslita stíl og slapp við veikina. Á fimmtudegi voru frídagar þeirra taldir hér í Salzburg og þurftu þau frá að hverfa til vinnu og venjulegs lífs í Herlev. Á sama degi mætti ég til vinnu um morguninn í Hallein, (hálftíma fyrir utan Salzburg) og var rakleiðis sendur til Vínar að vinna í einn dag, en þangað eru 4 klukkutímar í keyrslu frá Hallein. Skemmtileg tilviljun því við Harpa vorum einmitt á leiðinni þangað um helgina að endurnýja góð kynni okkar af borginni frá 2002, til að á fara á óperusýningu.
Óperuferðin
Sunnudagurinn vakti okkur snemma, kirkjuklukkurnar lömdu bjölluhljómnum ákveðið í hlustir okkar, við spruttum á fætur og Guðrún vinkona kom til að taka við Halldóru Björgu í tvo daga. Við fórum í lest til Vínar og á ágætt hótel í úthverfi Vínar, síðan fórum við á Japanskan veitingastað klukkan fimm og tókum svona "wild ride" á matseðlinum sem var rosalega skemmtilegt. Við smellhittum á veitingastað rétt við torgið kringum Staatsoper, þjónustan var frábær og maturinn líka. Við fengum Miso súpur, skrítinn fisk, andakjöt, steiktan þara, sushi og tofu. Ég get mælt með öllu sem við fengum nema ... Ígulkerja súshjí... það er svona brún búðíngsleðja sem vafið er inn í nori blað, þjónninn sagði að japanir trúðu því að það hjálpaði til við kynlífið... Allt svona skrítið á að hjálpa til við kynlífið í japan, það er ekki eins og þessir japanir þurfi neina hjálp í því, rosa fjölgun alltaf þar. Ekki mælum við heldur með rauðu risahrognunum sem voru líka vafin í Nori blöð og eitt hrogn var eins og ein lýsis perla og nákvæmlega eins á bragðið, allt annað frábært. Við að sjálfsögðu þurftum að hlaupa á óperuna alveg við það að verða of sein. Við höfðum 8 mínútur að finna sætið sem er fínn tími fyrir sætisleit í bíóinu á Blönduósi en í Staatsoper í Vín í fyrsta skipti telst það stuttur tími eiginlega ógjörningur. En með okkar einstöku lagni, hlaupum og stressi tókst okkur að komast í frábæru sætin okkar á fjórðu hæð, fremst á svölum, beint gegnt sviðinu. Sýningin byrjaði þegar við settumst, keyptum ekki litla gullna óperu kíkinn fyrr en í fyrsta hléi. Sýningin var "Werther" eftir Jules Massenet og var mín fyrsta óperusýning, Þetta var STÓRKOSTLEGT, algerlega frábær upplifun og segi ég það núna að ég er opinberlega orðinn áhugamaður um óperur og óperusýningar. Þetta er algerlega ólýsanleg upplifun líkt og þegar maður fer á Napalm death í stuttbuxum og gleymir sér. Ólýsanlegt.
Núna erum við að fá nýja gesti, Haukur og Rannveig koma í kvöld og við hlökkum mikið til, alveg brjálað plan framundan...

Nyjar myndir á myndasíðunni.

Bæjó.