Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

mánudagur, júní 18, 2007

Ætlaði til Tyrol i viku en pantaði bara viðgerð a fiðlunni minni i staðinn

í dag er mánudagur.

Það eru 1 og hálf vika í prófið hennar Hörpu.

Og ég átti að fara til Mayrhofen í Týról (rétt hjá Innsbruck) til að vinna þar í viku í dag.

Ég reif mig á fætur og hoppaði um borð í lestina til Hallein, síðan tókum við saman efni á verkstæðinu og tannbursta og föt, og renndum af stað til fjalla.
Ég, hinn óreyndi íslenski spéfugl og Michi, hinn risastóri og belgsveri háfjalla alpahornsbaulari, vorum saman í þessari ferð.
Hann talaði látlaust á sinni lokaðs-dala, smáþorpa-bændamállísku, sem ég skildi ekki á nokkurn hátt, sama hvað hann blaðraði... Hann kann samt ágæta ensku, því svíar hafa keypt næstum öll hótelin í þorpinu hans, Bad Gastein í Gasteinertahl, og segir hann þá kenna sér ensku á börunum yfir skíðavertíðina. "Þá er sko stuð á mínum," segir hann. Og greip hann til ensku kunnáttu sinnar, alltaf þegar ég ætlaði að loka augunum og sofna undan þægilegum malandanum í bílvélinni við eintóna þýskulíkið sem hann skreytt taktföstum hrossahlátri, og spurði hvort ég skildi hann ekki. "Dont understend"?.... ha, jú, jú maður, "bitte weider" sagði ég og reyndi að finna frið til að sofna aftur. Þegar á staðinn var komið kom það fljótlega í ljós að þessir tveir menn voru hafðir að fíflum... við vorum sendir af stað degi of snemma... ekkert readý (með draumkenndum augum lít ég upp í loftið og hugsa .... oh, ... málarastarfið... ) og við tók önnur tveggja tíma eintala um allt og ekkert ... þangað til ég svo sofnaði. Þá greip minn maður úr hanskahólfinu geisladisk og öskraði "þetta eru sko kallar
maður" !!! og vakti mig með lemjandi lúðrablæstri og tvíradda jóðli, allt í botn kallinn minn. "Þessir gaurar stráksi" sagði hann "eru sko úr mínum heimabæ, og eru í raun gamlir skólabræður mínir sko ... hérna sjáðu þessi" ... bennti hann á geisladiska hulstrið og hallaði sér til mín á 120 kílómetra hraða á hraðbrautinni, "heitir Helmútt og er tónlistarkennari, þessi, sjáðu sko, ... þessi með síðu krullurnar að aftan" sagði hann, á meðan hann góndi ofan í myndina af félögunum og tók blindandi fram úr vörubíl í beygju, "heitir, Georg, og þessi ! Aðalgaurinn sko" og negldi fram úr röð af mótorhjólum, algjörlega án þess að líta svo mikið sem upp, "heitir, Mannfred" ... húfffh !!! Ég var þeim degi fegnastur þegar kynningunni á gömlu félögunum úr Bad Gastein var yfirstaðin, því nú horfði hann bara út um framrúðuna, alveg stjarfur í draumi og söng hástöfum með stákunum í "Das Fröhlige Gasteiner Tanz Band" skammstafað-DFGTB !
Þagar ég kom heim pantaði ég viðgerð á fiðlunni minni hjá Maestro Suckerstatter og sótti HBH í leikskólann. Við fórum svo og hittum Hörpu og lékum okkur í veðurblíðunni.
Harpa er í rosalega góðu formi fyrir inntökuprófið og hefur unnið vel og markvisst, í langan tíma fyrir það og ætti því að vera nokkuð vel undirbúin.
Ég spila mína aðra opinberu tónleika með Pólsk Íslenska ríkjasambandinu á miðvikudaginn þar sem við flytjum eingöngu frumsamið efni. Bandið gengur á erlendum vettvangi einnig undir nafninu Miriam´s acoustic quartett.
Síðan fer ég upp í Týról á morgun til föstudags ... en skýst aðeins heim til að spila á þessum tónleikum á miðv. og síðan fer ég aftur eftir helgi. Prófið hjá Hörpu er á miðvikudag í næstu viku og ég vinn til föstudags ... svo er bara að pakka fyrir mánaðarfrí til íslands og fljúúúúúúúúúúga aaaaaafh staaaaaaaðh !! Sjáumst í kuldanum ... Cervús,

H.