Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

mánudagur, apríl 30, 2007

Partýið buið, allir farnir heim og husið i rust ..

Já vikan sem leið var afar skemmtileg, hér var fullt af hressu fólki og margt brallað. Þorri og Doctor Árdís Ármannsdóttir komu hér á laugardagskvöldi og voru flutt heim í leigubíl í sjóðandi Ungverska Gúllhasshsúpu sem þótti bera af öðrum súpum hér og í Ungverjalandi, nóg af paprikku og kúmeni. Veðrið lék við okkur hér í útlandinu meðan þau voru í heimsókn. Það var víst mjög gott annars staðar líka, eins og á ísl. En við nutum sunnudagsins saman og röltum um bæinn. Fundum á Dómkirkjutorginu stærðar bjórtjald með afgangs bjór seldum á klink og inn í því austurríska þjóðlagaspilara. Þeir voru rétt til hafðir, spiluðu á nikku og gítar og jóðluðu og rödduðu hver í kapp við annan.
Á því augnabliki er við sáum þessa herramenn þarna upp á sviðinu leit ég í augun á Þorra ... og ég sá hann kvikna. Ég sá neistann kvikna í augunum á honum sem allir bestu jóðlarar austurríkis hafa sameiginlega, þessi sérkennilegi gleði glampi er skilur atvinnujóðlara frá jóðlandi almúganum. Ég vissi það á þessari stundu að hér var hætta á ferðum. Hér var einn af íslands efnilegustu óperusöngvurum að smitast af neistanum og mér varð hugsað um klassísku jóðlkonuna sem jóðlaði allar helstu og frægustu aríur Mozarts inn á disk eftir áralangt klassískt nám, hún fékk neistann einmitt á bjórhátíð las ég í blaði. Áður en hið einkennilega króníska bjarta jóðlbros, sem yfirleitt fylgir neistanum stuttu seinna og klófestir menn í jóðli, þá bað eg hann, algerlega óviljugan, að fylgja mér út úr tjaldinu. Á eftir okkur störðu strákarnir á sviðinu, fólkið við barinn, rukkararnir við dyrnar og allir hinir rallhálfu jóðlaranir sem sátu við borðin, við vorum sloppnir út í sólina. Ég var nú seif því ég hafði myndað mótefni gegn þjóðlagatónlistinni nokkru áður, ... ég hafði fengið neistann líka.
Seinnipartinn fórum við svo í Untsíng til Daríjós í pasta og vín, sátum úti og nutum lífsins. Það verður líka að koma hér fram að þau komu með svakalegar gjafir, vín, nammi, kaffi og sósulit... jebb, sósulit, því það er erfitt að komast yfir slíkt hér í austrinu og varð hann (sósuliturinn) að fyrsta LANGA brandaranum í þessari heimsókn og kom hann víða við eins glöggir mega sjá. En langir brandarar eru einmitt aðalsmerki Matskák klúbbsins ásamt góðum mat.
Á mánudag fannst síðan verndari hópsins, Fisher Fiskspiel, ljón frá Afríku í lófastærð eftir um hálfs árs tíma í hulinsheimum.
Þriðjudagurinn fór síðan í strákakvöldið... HE,HE,HE, Það er svona kvöld þar sem strákar verða menn, hlæja hátt og halda út í næturmyrkrið. Við fórum klukkan níu á jazzklúbbinn. Settumst niður og dukkum Gin og Tónik að karlasið, hlustuðum á jazz og reyndum að banda frá okkur stelpunum .. sem voru reyndar bara að bjóða okkur meira að drekka og að hlæja að okkur, því þeim fannst það líklega kómískt að heyra hvernig gamli maðurinn, sem þóttist vera giftur, reyndi við okkur. Eftir frábært kvöld og djamm sessíjón vorum við hvergi nærri hættir enda strákakvöld, við stefndum beint á Heitu kistuna -eða öllu heldur til Heita Kirshtens sem rekur pylsusöluna. Fengum okkur snæðing, bjór og jager, enda miklir kaddlar. á leiðinni heim rákumst við á næturklúbbinn CASANOVA sem er í Linzergasse, og fyrir hverskonar mannskap er klúbbur sem kennir sig við nóttina og Casanova annan en okkur, mökkölvaða kasanóva frá íslandi ... eh, kannski MÖKKÖLVAÐA yfirvaraskeggjaða austuríska blúsara, jebb og það var málið, þetta var ekki staður fyrir okkur, nóttin var ung en við aðeins rétt skriðnir yfir þá skilgreiningu og skriðum heim í rekkju. Toppurinn á kvöldinu? ... Heiti Kirshten og að hafa farið inn á Casanova.
Síðan var það Pasta e Vino á miðvikudaginn, staðurinn okkar. Maturinn góður og allir hressir, lítið markvert.
Fimmtudagurinn var SUSHI night ! ... Sushigerð er alveg frábær hópleikur, allir geta verið með og skemmt sér rosalega. Ég var alveg með hrísgrjóna þvottinn, sem ég tók samt örugglega allt of alvarlega, því þau voru svo gegnsósa að þau þurftu eiginlega enga suðu. Við gerðum þrjár tilraunir og ofsuðum alla skamtana. En með samstilltu átaki okkar vinanna þá bjargaðist súshi gerðin og við sátum yfir þessum 80 bitum og skemmtum okkur konunglega, konunglega.
Föstudagurinn leið í miklum rólegheitum og Harpa tók á móti Pabba sínum sem kom keyrandi úr þorpi fyrir utan Munchen til Salzburgar eftir viku vinnuferð þar. Þegar ég var búinn að vinna fórum við öll í klausturbrugghúsið Augustiner og settumst í risastóra bjórgarðinn og nutum lífsins. Fórum snemma heim því Þorri og Doctorinn þurftu að græja sig til brottfarar snemma daginn eftir.

Helgin var frábær, við nýttum það að Valdi var á bíl og keyrðum um ókunnarslóðir. Á laugardaginn fórum við hinn svokallaða "vatnahring stærri" en það er þorpsvegir með fram fimm afar fallegum alpavötnum og í gegnum mörg lítil falleg þorp. Og þar fannst mér Traunsee standa upp úr í náttúru fegurð og staðsetningu, yndislegur staður. Við keyrðum áfram að Mondsee og þar hvíldum við ferðabeinin og slökuðum á við vatnið og fengum okkur í gogginn. Þagar heim var komið fórum við HBH í bælið og hvíldum okkur meðan Harpa og Valdi héldu til fjalla. Þau rétt náðu fyrir lokun lyftunar upp á Untersbergið, en það er hæsta fjallið í næsta nágrenni við Salzburg, þar sem hægt er að fara upp á með kláfi og njóta útsýnissins yfir Salzburg og Þyskaland. (sjá einnig færslu frá áramótum 2006-2007 Halli og Kjartan). Síðan nutum við inverskar matargerðar um kvöldið.
Á sunnudeginum fórum við skemmtilega leið á milli fjalla, yfir þýsku landamærin og aftur yfir til Austurríkis, milli hárra fjalla til Lofer. Þaðan héldum við til Sell am See og áfram upp í Grossglockner þjóðgarðinn. Við keyrðum hring eftir hring og upp, upp, upp og alla leið upp í 2571 metra yfir sjávarmáli, allt malbikað og brúað. Æðisleg leið, æðislegt útsýni og veðrið var frábært. Toppurinn Grossglockner gnæfði yfir okkur rúmum kílómeter ofar, í 3789 metrum. Við fórum niður til Heiligenblutt og ætluðum þaðan til Ítalíu fyrir mistök austurrískra kortagerðarmanna en snerum aftur við til heimfarar. Borðuðum grískt og slöppuðum af heima og nutum lífsins. Valdi fór til Íslands á mánudagsmorgun og var þessi heimsóknarvika alveg hreint frábærlega heppnuð í allastaði.

Viljum við kærlega þakka þátttakendum í partýinu mikla fyrir skemmtunina, heimsóknina og hlökkum til að sjá alla aftur í Júlí. Allt voðalega vel documenterað á myndasíðunni og munið að kommenta, það er svo skemmtilegt. Sjáumst !!!