Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

við akvaðum að ferðast norður eftir evropu

Kuldinn og frostið var farið að gera okkur lífið leitt, atvinnu og verkefnaleysi og von um eitthvað betra ýtti okkur út í okkar síðasta ferðalag. Við ákváðum eftir langa umhugsun og vangaveltur að leita betra lífs og hamingju mun norðar, höfðum heyrt af frjósemi og flötu jarðlendi í Skandinavíu, við ákváðum að halda yfir hálfa evrópu til Danmerkur. Eftir viku heilubrest aðalfyrirvinnu fjölskyldunnar, hófum við að pakka til langdvalar. Við tókum með okkur föt, nesti og þá peninga sem við áttum í hendi, restina geymdi bankinn fyrir kreppuna.
Við tókum lest frá Salzburg klukkan 4 og héldum beinustu leið til Munchen, þaðan sem fólksflutningalest átti að halda til Kaupmannahafnar um 7 leytið, með okkur innbyrðis. Þegar til Munchen var komið, höfðum við rétt um 25 mínútur til að næra okkur á lestarstöðinni, áður en fólksflutningalestin tæki okkur til höfuðborgar danska ríkisins. Við fundum okkar vagn, þann sem við höfðum pantað með svefnplássi fyrir tvo, því það er dýrara fyrir 3. Við ætluðum því Halldóru Björgu að sofa upp í hjá mömmu sinni á leiðinni. Engir aðrir ferðalangar komu í klefann okkar á leiðinni til Danmerkur og gátum við öll sofið í sér koju og var ferðin alveg hreint yndisleg. Við lásum bækur og horfðum út um gluggann á klefanum okkar og sáum borgirnar þjóta framhjá, fyrst fjölmargar þýskar borgir og síðan um morguninn urðu þær danskar. Um sex leytið vorum við vakin af vopnuðum dönskum landamæravörðum sem lömdu hurðina á klefanum okkar að utan. Eftir svolítil vandræði gátum við opnað hurðina, þeir ruddust inn á eftir miklum formælingum á danskri tungu. Þeir vildu fá vegabréfin okkar. Við hins vegar vorum að flýja gamla heiminn og skildum allt svoleiðis eftir, öll skjöl um okkur og pappíra sem segðu hver við værum. Þeir spurðu okkur hver við værum og við svöruðum því til að við værum íslensk fjölskylda á leið til höfuðborgar lands þeirra og hefðum búið í Salzburg, Austurríki í um hálf ár. "án pappíra?" spurðu þeir þá hratt og skrollandi og vonuðust til að hafa þarna fundið pappírs lausa íranska fjölskyldu á flótta. Nei sögðum við, pappíranir urðu bara eftir þar sko, við héldum að Shengensamningurinn og allt það, E.U. og soleiðis eitthvað myndi hjálpa okkur? ... va fo noged? var þá hreytt framan í okkur og sagt að hafa okkur hljóð um þetta atvik, við fengum að halda ferðinni áfram pappírslaus. Við komumst til Kaupmannhafnar um hálf ellefu. Við létum okkur fljótt hverfa í mannþröngina á strikinu, þar þótti okkur öruggast að vera, falin innan um fjölda annarra íslendinga.
Þar hittum við Svanhildi læknanema og áttum með henni leynifund á kaffihúsi, ræddum framtíð okkar í landinu, hennar framtíð og framtíð annarra íslendinga sem flust hafa til Danmerkur á þessum tímum. Síðan slæddist inn á þetta dularfulla kaffihús tengiliður fjölskyldunnar í Kaupmannahöfn númer eitt, Guðrún Ása, einnig þekkt sem "guðmóðirin" og eyddum við góðum tíma með henni áður en við héldum á annan stað innan dönsku landamærana, Herlev. "Guðmóðirin" hjálpaði okkur að komast í rétta vagninn til Herlev, þar sem á móti okkur tók annar íslenskur tengiliður, maður að nafni Þórður eða "boxarinn" og tók okkur að heimili sínu.
Við komum að heimili Valgerðar, Dodda "boxara" og Sylvíu í yndislega, afslappaða stemmningu. Þau buðu okkur í fiskiveislu í kvöldmatinn sem við kunnum mjög vel að meta, enda ekki mikið aðgengi að fiski í evrópskri innborg, nema signum og þurrkuðum. Við strákarnir fórum og keyptum í matinn, ég keypti mér peysu, og við fórum á bar, Bodega 100 og það sýndi mér að hér er lífið æðislegt .. Fiskiveisla, peysa og bjór, hér er engin kreppa, nauð eða þurrð. Kvöldsins var notið í chilli, bjórdrykkju og barnknúsi. Okkur fjölskyldunni fannst það gott að vera innan um þessa nýbökuðu fjölskyldu og vini okkar í Herlev, Halldóra Björg var afar áhugasöm um litla barnið Sylvíu og passaði hana rosalega vel, alltaf að strjúka, kyssa og knúsa hana. Harpa líka var mjög hrifin af því að vesenast með lítinn nýjan grís, það er orðið allt of langt síðan Halldóra Björg var lítil og létt. Mér fannst það líka mjög fínt, við náðum vel saman en ég var ekkert að vesenast of mikið með hana hún varð að sjá að einhver úr nýja heiminum gæti hitt hana án þess að klípa, strjúka, knúsa eða kyssa hana. Ég naut bara návistar hennar eins og við öll, þeirra allra. Helgin leið hratt og fyrr en varði fundum við okkur í Kaupmannahöfn á ný, spázérandi á strikinu með "guðmóðurinni" sem sagði okkar að tíminn væri á þrotum og við þyrftum að flýta okkur aftur til Austurríkis. Við tókum lestina til baka kl 7 og vorum komin til munchen kl 9 um morguninn. ákváðum þá að leyta lukkunnar þar, í miðborginni. Þar fundum við ekkert nema karnivalstemmningu og hljómsveitir. Við gengum inní hátíðarhöld öskudagsins og allir sem við hittum voru málaðir og grímuklæddir. Básarnir risu og um 11 leytið byrjaði ballið, hljómsveitir hófu að spila fyrir dansi og við fjölskyldan tókum fram dansskóna ... sem voru einu skórnir sem við tókum með í ferðina, og tókum að dansa. Við skemmtum okkur öll á hinn besta veg og nutum hátíðarhaldanna. Að þeim loknum ákváðum við að halda aftur heim til Salzburgar, þar þekktum við þó sósjalinn og samfélagshjálpina sem við gætum þurft á að halda seinna meir.
Nú er allt komið í sama farið. Mér var sagt að hanga heima í dag, engin vinna. Ég hryngdi í fiðlusmiðinn og hann sagði að allt væri off, ekkert nám, ekkert læri og ekkert stuð. Harpa fór í plötubúðina og þar er allt í einu tungumálið orðið ofboðsleg fyrirstaða og líklega engin vinna strax. Síðan í svartsýninni fórum við félagarnir í Shnitzel jazz company á stúfana að reyna að redda okkur spila vinnu, .. fórum á ábyggilega 20 staði og lítið sem kom út úr því, en sjáum til hvað gerist. Síðan endaði ég bras dagsins á að sækja um vinnu á nýjum stað, en eins og stendur eru engar fleiri upplýsingar gefnar um það. Halldóra Björg var álfaprinsessa í leikskólanum og sló algerlega í gegn og hún upplifði sig alveg sem "the real thing".
Allir eru samt hinir hressustu hér í Linzer og af okkur allt hið besta að frétta, nú er bara gleði og bjartsýni fram undan.

Myndir úr ferðinni og af álfastelpunni á myndasíðunni.