Leitin að dularfulla jolapakkanum ..
Við fórum í Europark í morgun, eða eins og við köllum staðinn svona rétt fyrir jól "hellpark", til að kaupa það sem við þurftum fyrir jólamáltíðirnar komandi. Meðan við nutum lífsins í öskrandi mannhafinu, þar sem kerrur skullu saman og fólk ýtti við hvort öðru við kókkælinn, kom DHL sendill að Linzergasse. Við vorum ekki heima til að taka á móti svo sendillinn skildi eftir miða á bjöllunni. Mjög dularfullur miði sem á var letrað, (lausleg þýðing) kom hér klukkan 10 og enginn var heima, fór aftur 10.03 og er með pakkann. kem aftur 27 des, púnktur. En þar sem við verðum ekki heima þá upphófst ráðabrugg og skipulagning verkefnis sem miðaði að því að finna pakkann. Harpa hryngdi í DHL og fékk þær upplýsingar að pakkinn væri frá Danmörku og væri mjög dularfullur. Við fylltumst forvitni og áhuga um pakkann. Hann yrðum við að finna. Eftir allnokkurt málþóf og þýðingar komumst við að því að pakkinn væri staddur í vöruhúsi DHL í Anthering. Anthering er dularfullt þorp langt utan við Salzburg, sem einungis er hægt að komast í, í lest, bíl, hjóli eða fótgangandi, við ákváðum að taka lestina. Við náðum í Halldóru Björgu á leikskólann og tókum hana með okkur ef við skildum ekki koma til baka. Við stoppuðum í Anthering og fórum út úr lestinni. Þar var ekkert nema gras, grænt gras og strákur sem við spurðum um höfuðstöðvar DHL .. engar höfuðstövar hér .. svaraði hann. Það runnu á okkur tvær grímur. Engar höfuðstöðvar DHL= enginn jólapakki= enginn jól í Salzburg= enginn jól á Linzergasse. Hann sagði samt að hann héldi að hann vissi um höfuðstöðvar DHL í næsta þorpi, 5 km í burtu. Við gengum af stað með kerru og nefin rauð. Lengi gengum við og fundum allskopnar hluti, dýr og staði á leiðinni. En svo rákumst við á tvo merkta bíla DHL bak við hús, falda milli trjáa, yfirgefna. Við gengum nær og uppgötvuðum að við vorum bak við stórt dularfullt hús merkt D.H.L ! Hurðin var læst ! ekki nokkur maður sjánlegur inni, .. fyrir skyggðum rúðunum. Á miða stóð, "notið næstu dyr". Við gengum inn og Harpa hvarf inn um dularfulla hurð sem féll svo þétt að stöfum að maður hætti að heyra sinn eigin hjartslátt, einangrunin var svo góð. Eftir langan tíma, í algerri þögn kom Harpa út, með .. ekkert, engann pakka. dularfulli pakkinn var EKKI í húsinu, hann var í bíl .. einhverstaðar .. á leið .. EITTHVERT ! Fjölskyldan ákvað að fara tómhennt heim því það nálgaðist ljósaskiptin ... THE TWILIGHT ZONE en það er einmitt tíminn sem einhver hverfur í dularfullum bæjum. Kannski yrði það eitthvert okkar, kannski yrði það danski jólapakkinn, kannski yrði það Klaus Kircher, kontrabassakennari sem býr einmitt í Anthering. En kjarkur okkar leyfði okkur ekki að bíða þess og við hröðuðum okkur á enn dularfyllri lestarstoppistöð, sem leit út fyrir að hafa ekki verið notuð um háa herrans tíð, .. þó við hefðum farið um hana fyrr í ferðinni. Eftir nokkra bið í kuldanum á stoppistöðinni, kom lestin okkar og við hoppuðum upp í og eftir að hún tók af stað helltust þau yfir, LJÓSASKIPTIN. Við sluppum heim á lífi og öll með hvort annað en engann danskan jólapakka. Myndir úr ferðinni á myndasíðu. GLEÐILEG JÓL HVAR SEM ÞIÐ ÖLL ERUÐ Í HEIMINUM OG VARIÐ YKKUR Á DHL OG .... LJÓSAKIPTUNUM.
<< Home