Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

sunnudagur, desember 10, 2006

Massa jolagjafakaupsvika yfirstaðin ..

Nú eru tvær vikur til jóla.. Við uppgötvuðum þetta þegar Lilla og Valdi komu í heimsókn, þau eiginlega komu með jólin með sér frá Íslandi. Við höfðum bara verið hér að vesenast í tónlist og hversdagsheitum, grandalaus um komu jólanna, þegar þau birtust. Með sín rauðu nef og köldu kinnar, berandi töskur og poka fulla af pinklum og gjöfum handa okkur, stormuðu þau út úr flugstöðvarbyggingunni. Stundum koma jólasveinarnir í alvöru frá Íslandi, eða alla vega sérlegir sendiherrar þeirra, eins og núna. Þau komu sér notalega fyrir hér í íbúðinni og tæmdu töskurnar, á augabragði fylltust hér allar hillur af fagurlega skreyttum jólapökkum til okkar.Við hins vegar .. eða öllu heldur Harpa var bara rétt aðeins farin að kíkja á jólainnkaupin þegar hér var komið, (það er yfirleitt best að ég komi þar hvergi nærri með mína smámunasemi, sérvisku og óskynsemi), og þurfti því svolitla jólaaðstoð. En drifkrafturinn í sveinunum tveimur !! Nú þýddi ekkert hálfkák og gluggaskoðanir, nú átti bara að klára dæmið, okkur var gefin vika og verkefnið unnið skipulega með diggri hjálp Íslensku jólasveinanna. Eftir mikið rölt um borgina, búð úr búð var kvöldið yfirleitt tekið snemma, eldaður matur og slappað af á Linzergasse, tekið spil eða bara chillað yfir sjónvarpinu. Mjög þægilegt í alla staði. Harpa fór með þau á marga okkar uppáhaldsstaði; Europark, þar sem allt fæst undir einu þaki, jólamarkaðinn líka, sem er afarvinsæll meðal ferðamanna. Fólk kemur langt að bara til að upplifa jólastemmninguna á þessum gamla, virðulega og hátíðlega jólamarkaði á dómkirkjutorginu. Þau tóku gönguferð inn í hið skemmtilega hverfi Nonnthal og versluðu. Síðan fórum við öll upp í kastalann sem var frábært og síðan borðuðum við á okkar uppáhalds ítalska veitingastað Pasta-e-vino ásamt bara að slæpast um bæinn og njóta veðursins, sem var alveg frábært í þessa daga. Hitinn var þónokkur megnið af dögunum en heitast þó á föstudaginn 17 gráds! Föhn var það heillin, en það eru heitir vindar frá suðlægum slóðum sem líða yfir alpana og leggjast yfir Salzburg þegar þeir eiga leið um, og mynda hér algeran hita pott. Síðan fengu þau líka solítla rigningu og ves en það er bara fínt líka.
Krampússarnir komu líka til að hrella okkur, auma íslendingana. Engar myndir náðust af þeim viðbjóðsfreskjum því að fáir menn hafa þann kjark sem þarf til að mynda þá hér í borg, hvað þá einhverjir saklausir íslenskir flissandi jólasveinar. Höfundur greinarinnar varð fyrstur á vegi þessara óvætta á leið í búðina. Er hann heyrði mikinn kúabjöllu óm og skaðræðisöskur í myrkrinu stoppaði hann hjólið .. skjálfandi á beinunum læsti hann hjólið við burðugan steiptan ljósastaur og stökk inn í næstu búð. Það var plötubúð. Hann stóð í dyrunum og horfði íbygginn upp Linzergasse þaðan sem óhljóðin komu: úr myrkrinu komu þeir hlaupandi, og öskrandi, með horn og hala, loðnir og ljótir, hrintu fólki og öskruðu framan í það rugluðu hárgreiðslum og flengdu fólk með tréprikum. Höfundur greinar þessarar varð svo hræddur við sjón þessa að hann fann sig knúinn til flótta. Stysta og besta leiðin var ofan í vínilplöturekkann. Eftir að skrímslin voru horfin öskrandi og slefandi framhjá kunni hann ekki við annað þar sem hann var einn í búðinni að kaupa eina plötu og flýta sér á hjólið aftur að kaupa í matinn. En við hinn enda götunnar, stóðu þær tvær, dætur jólanna, Lilla og Harpa, ekki hefur greinarhöfundur jafn nákvæma lýsingu á því þegar þessir tveir andstæðu pólar mættust og getur hann því ekki haft orð um það hér. Sú frásögn mun einungis lifa í munnmælasögum hér eftir og héðan í frá. Kvöld og nætur eftir þennan fyrsta fund við Krampus heyrðist í þeim ýlfra og berja sér í dimmum húsasundum, kaldir og hraktir því máttur jólanna var að sigra. (Sláið inn Krampus í google og skoðið myndir, talið er að um 200 krampusar séu á götum Salzburgar hver jól)
En jólastemmningin sjálf kemur hvergi í hús í raun, nema þegar smáköku ilmurinn fyllir hvern krók og kima. Lilla og Harpa tóku sig til og hófu bakstur úr íslenska hráefninu sem Lilla og Valdi fluttu með sér og þá voru jólin komin. 4 sortir og menn eru góðir. Jólin eru komin. Takk Lilla og Valdi fyrir frábæra heimsókn, og verið velkomin aftur. Lifi andi Jólanna ! Og dætur jólanna ! Hipp, Hipp _______ !!
Minnum á nýjar myndir á myndasíðu !!!