Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

miðvikudagur, september 05, 2007

Rigning, rigning og svo meiri rigning...

Já það er óhætt að segja að það sé blautt í Salzburg þessa dagana. Það rignir stöðugt og það ekkert smá. Ég held svei mér þá að það sé komið haust því að ég sá fyrsta snjóinn í fjöllunum í gær. Já já maður stjórnar þessu víst ekki þó svo ég væri alveg til í að hafa sumarið aðeins lengur...
Nóg um veðrið þó að ég sé góð í þeirri umræðu... :)
Nú er Halli kominn heim frá Lungau og er farinn að vinna fyrir fyrirtækið hér í Salzburg. Hann varð nú bara frekar hissa fyrsta vinnudaginn sinn eftir dágott hlé ( tveggja mánaða hlé ). Fólkið var svo ánægt að sjá hann að þau flissuðu bara og töluðu ekki um annað en hvað væri frábært að hann væri kominn aftur. Ég held að hann hafi bara farið hjá sér :) Annars er hann að vinna ansi mikið núna en er búinn að semja um fjögurra daga vinnuviku þ.e.a.s frí á mánudögum þar sem hann getur tekið bassatíma og þýskutíma. Hann er kominn með bassakennara sem er einn besti jazz bassaleikarinn á þessu svæði þannig að þetta lítur allt saman vel út fyrir minn mann. Það ískrar í honum af tilhlökkun... :)
Giggið mitt 1. september gekk bara alveg ágætlega. Þeir sem þekkja mig geta ímyndað sér að ég var ferlega nervus að hitta þetta lið sem var að spila og syngja með mér því að það var einungis æft klukkutíma fyrir flutning og rennt einu sinni fyrir hvert verk. Auðvitað varð þetta svo allt í lagi og alveg hreint hrikalega gaman að syngja með svo góðu fólki. Hljóðfæraleikararnir voru meðlimir úr Mozarteum Orchestra þannig að þetta var ekkert slor. Núna er ég bara að undirbúa komu gestanna hingað í rigninguna ( vona reyndar að hlé verði gert á rigningu ). Hlakka til að fá alla hingað en það verður margt um manninn í september á Linzergasse. Doddi, Valgerður og Sylvía ríða á vaðið og koma 10. sept og verða í fjóra daga. Eftir það skellum við hjónakornin okkur á óperusýningu í Vín og þegar við komum aftur mæta Haukur og Rannveig og svo þegar þau fara koma mæðgurnar Júlía og Elísabet. Okkur finnst gott að hafa gesti :)
Eftir gestatörn byrja ég svo í skólanum og þá er víst ekkert gefið eftir því að ég er svo heppin að hafa verið valin í að syngja aðalhlutverkið, í óperunni Dido og Aeneas eftir Purcell, í óperudeildinni í skólanum í vetur. Mér skilst að æfingar hefjist strax í október þannig að þá þýðir ekkert slór.
Halldóra Björg er alltaf bara eins og prinsessa blessað barnið :) Það gengur allt mjög vel hjá henni í leikskólanum, farin að skrifa nokkra stafi og svo stefni ég á að setja hana í barnakór núna þegar starfið byrjar aftur :) Það verður nú að segjast eins og er að blessað barnið hefur ekki mikið lag en það vonandi kemur... :)

Jæja þetta er nóg raus í bili frá húsfreyjunni
Bið að heilsa

Harpa