Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

fimmtudagur, maí 01, 2008

Örstutt Íslandsför og eitthvað meira...

Hæ allir saman.

Frá því við blogguðum síðast höfum við ferðast víða. Ég fór upp í Lungau til Dodda og Þurý í Skihotel Speiereck að mála og var það kærkomið verkefni, það er alltaf gaman að vinna fyrir þau, þetta er svona "gæluverkefni" mitt hérna úti. Áður en ég náði að klára það sem ég fór til að gera, féll afi Einar frá eftir löng og erfið veikindi, og við fjölskyldan pökkuðum í töskur og drifum okkur til Íslands. Við vorum varla búin að átta okkur á öllu saman þegar við vorum bara lent og komin á Hvammstanga í mat hjá ömmu Lillu. Þaðan héldum við síðan rakleitt á Blönduós til ömmu Erlu og afa Mumma. Þar var allt í ró og spekúleringum eins og fylgir aðstæðum sem þessum, og margt hið skemmtilegasta rifjað upp af lífshlaupi gamla mannsins yfir gömlum myndum sem hann hafði tekið á leiðinni. Við Halldóra Björg ræddum þetta allt saman á leiðinni til Íslands, hver ástæða fararinnar væri, og hún var alveg búin að ákveða að hún vildi hitta hann rétt aðeins áður en hann yrði jarðsettur og kveðja hann með söng. Okkur leist nú ekkert á það en þegar hún vaknaði á laugardagsmorguninn, jarðarfaradaginn og endurtók þetta og spurði hvort hún gæti gert þetta í dag þá ákváðum við að fara til fundar við gamla manninn upp í kirkju. Við fórum þrjú og settumst á fremsta bekk, þar sem kistan stóð og ræddum um þetta allt saman, hversu vel honum liði núna eftir veikindin og hversu vænt um honum þætti nú örugglega að hafa okkur þarna. Á leiðinni út úr kirkjunni tók sú stutta að söngla frumsamið prinsessulag í lágum og mjúkum rómi. Ástæðan fyrir því að talað er svona lágt í kirkjum er að sálir heyra svo rosalega vel og því er hvísl og lágvær söngur nóg. Í jarðarförinni flutti ég mitt fyrsta frumsamda jazzlag honum til heiðurs og gagngert skrifað til hans. Ópusinn "Portait" var fluttur af trompet og flugelhorn leikaranum Ara Braga Kárasyni og mér á kontrabassa. Flutningurinn tókst afar vel og er ég þess viss um að þetta hefði hann viljað heyra sjálfur. Afi studdi mig ávallt í tónlistar brasinu og ræddum við oft um tónlist og hann sagði einnig oft við mig að bassinn væri aðal málið, þyrfti að vera hár og góður. Stundum söng hann líka með bassanum "bomm, bomm," þegar hann var að leyfa mér að heyra eitthvað sem hinum fannst æðislegt. Hann var kátur karl.

Tíminn var naumur sem við höfðum í þessari ferð og engar heimsóknir eða hittingur planaður. Við rétt náðum að hitta Skúla frænda og Höllu og fjölskyldurnar rétt áður en við þustum upp í vél áleiðis til Salzburgar aftur. Við komumst að lokum, eftir 7 kl.tíma bið á Stansted eftir flugi, áfram til Salzburg. Þegar við komum tók svo vorið hlýja og sæta á móti okkur. Ylmandi nýbrums lyktin út um allt og unglingar sötrandi bjór við árbakkann. Unglingar drekka á fleiri bökkum bjór en í bláa húsinu "Við Árbakkann" á Blönduósi og þegar ég sé þessa krakka með kassagítarinn og kassa af bjór í grasinu við iðandi ána get ég ekki annað en hugsað heim í bláa húsið hennar mömmu.

Nú er allt komið aftur í réttan farveg og ég á leið upp í Speiereck aftur eftir viku, þessum pistli fylgja nýjar myndir á myndasíðunni.

Þar til næst, chao. H.