Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

laugardagur, maí 17, 2008

Atburðir síðustu daga

Síðustu dagar hafa verið langir og vel bókaðir. Eftir að við komum heim frá Ísl. slöppuðum við af saman í nokkra daga eða þangað til Harpa fór til Þýskalands að tala inn á heimildamynd um ísland. Þarlend kvikmyndagerðar kona er að gera stutta heimildamynd um álfatrú, goðafræði og náttúru vitund íslendinga og hvern annan er þá betra að tala við en okkar helsta sérfræðing í þessum málum, hana Hörpu Þorvaldsdóttur, álfasérfræðing. Hún hafði aflað sér upplýsinga um allt sem að þessum málum snéri og gat svarað öllum spurningum og talað af öryggi þegar dauðarokkari með loðinn míkrafón og Daniella Baumgartner spurðu hana í þaula. Hún kláraði þetta með miklum glæsibrag og kom heim með fullar hendur fjár. Ég skrapp síðan til fjalla að mála á Skihotel Speiereck og drekka smá bjór í leiðinni. Harpa og Halldóra Björg komu svo í smá heimsókn um helgina þegar Harpa var í æfingafríi frá Zauberflute. Ég tók mér smá frí og við nutum veðurblíðunnar og gengum um St.Martin og St.Michael í mikilli ró og næði. Það var æðislegt.

Ég kom síðan heim í gær, á sjálfum afmælisdegi konunnar minnar, og við Halldóra Björg settum allt á fullt í að útbúa og pakka inn gjöfunum fyrir mömmu. Hún að sjálfsögðu kom að okkur þegar við vorum í miðju kafi við að pakka inn og stress, spenna, hróp og köll fylltu annars rólega stemmninguna yfir deginum. Halldóra Björg var svo brjálæðislega stressuð yfir því að mamma kæmi inn í stofuna, "Þú mátt alls ekki koma hér inn, við erum að pakka inn gjöfinni !!!!" öskraði barnið meðan hún lá á hurðinni eins og mamman væri að reyna að ýta henni upp. Þegar ég var svo búinn þá reif hún af mér pakkann náði í Hörpu og tók utan af gjöfinni sjálf, hoppandi af spenningi. Við fengum Öbbu Maríu til að passa og fórum síðan út að borða, á vín kynningu og aðeins út á lífið með íslendingum sem við hittum á vínkynningunni, Perlu og Frey. Þau voru hinn skemmtilegasti félagskapur og nutum við Harpa kvöldsins afar vel. Okkur fannst líka svo gaman að sýna ferðamönnunum borgina okkar sem þau virtust alveg heilluð af.

Núna er laugardagur og sólin skín... Harpa er farin á óperu æfingu og við Halldóra Björg að plana daginn. Ætli við förum ekki bara með nesti á skuggsælan leikvöll og njótum lífsins þar í dag, eða kannski sundlaugargarðinn, hver veit.

Ekki gleyma að kvitta, Bestu kveðjur Halli, Harpa og Halldóra Björg (sem er orðin svo stór...)