Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

mánudagur, desember 31, 2007

Afmæli, pakkarnir, rjupurnar, skiðin, solin og goða skapið.

Gleðilegt nýtt ár allir saman, hér kemur "örlítil" samantekt á atburðum síðastliðna daga. Afmæli Halldóru Bjargar var stórfögnuður sem okkur fannst engann enda taka. Byrjaði viku fyrir settan afmælisdag með afmælisveislu fyrir íslensku vinina sem voru á leðinni heim, síðan tóku afmælispakkar að detta inn allstaðar að úr heiminum og héldu áfram að berast fram á Þorláksmessu. Alltaf þegar ég kom og sótti Halldóru Björgu í leikskólann spurði hún hvort hún ætti ekki líka afmæli í dag og hvort hún fengi ekki líka pakka í dag? Við þökkum öllum fyrir sem sendu henni pakka í afmælisgjöf. Við feðginin fórum síðan tvö til að kaupa jólatré fyrir fjölskylduna... þekkir einhver Grisvold familíjuna? Nei þetta var nebblega svoldið svipað. Við stóðum þarna hönd í hönd feðginin í jólatrésölunni og skoðuðum. Hér vantar sko ekki velvaxin jólatré, það er hægt að fá feit, stutt, mjó, löng, þétt, gisin, gleið og breið. Við settum fram kröfu um hátt, mjótt og jafnvaxið (með jöfnubili milli greina). Rétt áður en ég hafði sleppt orðinu var gæinn horfinn inn í "skóginn" og kominn út aftur með fullkomið og netpakkað tré... Við höfðum einmitt rekið augun í það og talið það hentugast ínn í innréttinguna í stofunni og í fullkomnu samræmi við stemmninguna sem við Harpa vorum að reyna að mynda, jólastemmninguna. það er nebblega hátt til lofts hjá okkur og þetta var bara svona einhver meðalhæð miðað við hin tréin. Ég greiddi uppsett verð fyrir rósmarínkvistinn og gerði mig líklegan til að taka´nn undir hendina... En HÚFFFH ! Þvílík þyngd á einu blómi... Nú sá ég að þetta yrði hugsanlega seinleg heimganga með jólatréð, Halldóru Björgu og "litla" jólatréið hennar. Við gengum af stað með áhyggjuhjartslátt og svitann lekandi niður hálsmálið. Hún með sitt einkatré og var ekki að valda því og ég með okkar stofustáss ... og var ekki að valda því heldur. Við komum, eftir dágóða stund og um 100 metra, að þéttpakkaðri göngugötunni, sjitt hér fær maður engann séns með jólatré, síminn hringdi. Ég svaraði og þá var Harpa og fílhraustur vinur okkar í næsta nágrenni. Ég kallaði neyðarkall. Harpa kom og tók litla tréið og leiddi litlu Björg og við Arnþór héldum á JÓLATRÉNU heim. Þegar heim kom reistum við það upp í stofunni og það passaði ekki inn..., toppurinn bognaði allur og ég varð að skera af honum. Ég notaði tækifærið og setti jólatoppinn á það því annars hefði ég ekki náð úr stól. Síðan mældi ég það og reisti. Nú er það komð upp og stendur í 3,08 metrum, ég skar þó af því u.þ.b. 40 cm !! Við Halldóra Björg skreyttum það saman með góðri hjálp frá mömmu en bara öðrumegin, því við áttum ekki nóg skraut, þó við hefðum keypt meira auka...
3.40m hátt jólatré er jafnstórt og venjulega stóð í horninu á kaupfélagsplaninu nóta bene !!

Síðan komu amma og afi með jólin með sér. Afi Valdi sendi jólin hingað út með afa Mumma, svo allt hér myndi bera hinn hátíðlega blæ íslenskra jóla og var þetta hin besta sending. Þegar svo mamma og pabbi opnuðu töskurnar lyktaði hér allt saman eins og inn í búri hjá ömmu Lillu, harðfiskfíla, parta og hangikjötsylmur, lykt af nýslátruðum rjúpum og laufabrauði, og örlítill nikkelkeimur af dósunum sem geymdu grænubaunirnar. Íslensku jólin voru komin til okkar. Mamma steikti rjúpurnar meðan pabbi reif niður harðfiskinn og chekkaði á pökkunum. Allir hressir. Eftir jólapakkaflóðið sem kemur okkur altaf jafnmikið á óvart þá var lagst í Gaur langt fram á nótt við undirleik Baggalúts, engin eru jólin án þeirra.

Á annan í jólum keyrðum við í smekkfullum BMW bílaleigubíl til Dodda og Þuríðar í Skihotel Speiereck til að spila okkar árlegu jólatónleika og fara á skíði. Við kíktum við í Obertauern og nutum lífsins. Við vorum dugleg að tæta á skíði í alveg hreint frábæru veðri og færi... það var hvoru tveggja æðislegt allann tímann. Maturinn hjá nýja kokkinum hennar Þuríðar var alveg frábær, svo/og hestaferðin í pritzhutte var líka meiriháttar skemmtileg, svo öll ferðin gekk alveg mjög vel upp.

Nú er að nálgast áramót og ég er á minni reglulegu "kálkúnavakt" því ég bað fólkið mitt að gefa mér stund einum með kalkúninum augnablik. Það er vegna þessa að kálkúnavaktina hef ég staðið frá unga aldri á heimili mínu, en það er sökum afmælis Möggu Einars og kann ég henni góðar þakkir fyrir að gefa mér mikilvægi gamlársdagseldamennskunnar með tímasetningunni á afmælisdegi sínum.

Við erum hér öll í glymrandi góðu ármótaskapi og ætlum að reyna að ná áramótaskaupinu á netinu í kvöld, kalkúnninn mallar í smjörinu inn í ofni á meðan salzburg kemur sér í stríðsbúninginn... (sjá færslu frá síðustu áramótum til útskýringa) og unglíngarnir klæðast camóflash. Gleðilegt ár allir og farið varlega.

NÝJAR MYNDIR Á MYNDASÍÐUNNI. CHAO. HALLI.

laugardagur, desember 15, 2007

Vegna anna...

Nei, maður segir ekki vegna Önnu í þeirri setningu sem ég vil hér skrifa. Vinsamlegast kallið fjölskylduna saman og lesið í jólastemmningu.

Vegna anna höfum við ekki séð okkur fært að skrifa jólakort í ár.
Okkur finnst það mjög miður þar sem við skemmtum okkur yfirleitt svo vel við þessar árlegu skriftir. Höfum við oftar en ekki skrifað hjartahlýjar jóla kveðjur eins og "gleðileg jól", "hafið það gott yfir hátíðirnar", "verið hress og ekkert stress" og fleira í þessum dúr. En núna, þar sem Harpa er á þrotlausum æfingum í skólanum og ég svona... að gera eitt og annað (venjuleg heimilisstörf) með námi og æfingum, þá höfum við ekki fundið tíma til að setja þessar stuttu, skemmtilegu jólakveðjur í kort og í póst.

Þannig að við höfum ákveðið að hlýja fjölskyldum okkar, vinum og öðrum þeim sem hér reka inn nefið til lesturs á þessum pistlum, um hjartaræturnar með óskum um


GLEÐILEG JÓL OG GOTT OG FARSÆLT KOMANDI NÝTT ÁR.
KÆRAR ÞAKKIR FYRIR SKEMMTILEGAR STUNDIR SEM VIÐ ÁTTUM SAMAN Á ÁRINU,
HÉR ÚTI OG HEIMA. ÞÖKKUM ÖLLUM ÞEIM FRÁBÆRU GESTUM SEM VÖLDU AÐ EYÐA HÉR FRÍINU SÍNU MEÐ OKKUR, OG ÖLLUM SEM SENDU OKKUR JÓLAKORT SÍÐASTA ÁR.

MEGA DÚNDUR STUÐKVEÐJUR (JÓLA AUÐVITAÐ) TIL ALLRA SEM UNNU MEÐ OKKUR MÚSÍK Á ÁRINU OG TIL ÞEIRRA SEM HAFA STUTT OKKUR Í NÁMINU OG RISA MEGA KLIKK JÓLAKVEÐJUR TIL ÞEIRRA SEM LEIFÐU OKKUR AÐ GISTA, LÁNUÐU OKKUR BÍLANA SÍNA OG GÁFU OKKUR AÐ BORÐA Í SUMAR ÞEGAR VIÐ KOMUM HEIM.

í lokin er hér stutt jóla vídejó af stelpunni okkar sem varð 4 ára í dag. Tíminn er fljótur að líða þegar maður er hress.
Vinsamlegast ýtið á hnappinn.

sunnudagur, desember 02, 2007

Adventupostur..

Hin hátíðlega aðventa er byrjuð með sínum ógeðslegu skrímslum, hræðslu og ótta ! Já svoleiðis er það hér í Salzburg, borginni sem býður venjulega upp á leðurhósur, Heidi kjóla (Dirndl), klassíska tónlist og tísku áttunda áratugarins. Þá byrjar aðventan á því að Nikulás kemur í bæinn. Hann kemur með sinn stóra gilta staf og góða skapið, því hann er boðberi afls kaþólskrar trúar, góðmennsku og gylliboða, til að hrekja hin vondu öfl til síns heima yfir hátíðarnar. Hann er stór karl í bænum, með svaka hatt og yfirmáta rólegur, ákveðinn í að hópa saman þessum ófreskjum (yfirleitt í portinu fyrir aftan íbúðina okkar í miðbænum) og reka þær burt úr bænum. En eins og af vondum öflum má vænta eru þær alls ekki ánægðar með það og verða árásarfullar, hávaðasamar og hrikalegar saman komnar, þessar verur heita KRAMPÚSH !!! Og eru viðurstyggileg kvikindi ... Í dag fórum við á fund þessara óvætta.

Einhver undarleg löngun greip okkur Halldóru Björgu í vikunni til að hitta þessi svokölluðu illmenni. Við sem höfum margra ára reynslu af Grílu og Leppalúða (sem eru samanborið við þessi dýr óttalegir lúðar bæði tvö) töldum við okkur alveg nógu sjóuð til að heilsa upp á kvikindin. Ég spurði Halldóru Björgu oft hvað hún ætlaði að gera ef þær kæmu til okkar og byrjuðu að hræða okkur, öskra, svipa okkur og brjálast. Hún sagðist þá bara ætla að galdra þá burt með töfrastafnum sínum sem (orðrétt) TUFFAR glimmeri... En ég komst að því í dag að hann þurfti víst að kaupa dýrum dómi í dótabúðinni áður en við færum til fundar... svo ekki var hægt að tuffa neinu glimmeri á þessi óargardýr í dag, bara bíta á jaxlinn. Við fórum niður í port og biðum.... ætli þeir þori nokkuð að koma, sagði ég við Halldóru Björgu... hún sagði örugglega ekki, ég ætla að öskra á þá, síðan sagði hún með litlu, björtu, brothættu þriggja ára röddini sinni ... "vvvrrrruuuuu" .... Við biðum spennt .... þeir voru orðnir seinir, klukkan langt gengin sex, eru þessir menn ekki með klukku, hugsaði ég. En þá gerðist það... við heyrðum ógeðslega djúpan kúabjöllu hljóm, baunk, baunk og síðan sagði mamma "þeir eru að koma héðan líka" og gæsahúðin spratt út. Með dimma kúabjöllu hljómnum bárust skerandi vein kvikindanna, WWWRRRÖÖÖÖGGGRRRHHH, WWRRRAAMFFF, HRRRRÖÖGGHH, og þegar þeir birtust úr myrkrinu voru allar leiðir lokaðar heim. Hornin voru það fyrsta sem augað greindi, síðan loðinn og ógeðslegur feldurinn, síðan brennandi augun og þá fyrst greindu eyrun eitthvað sem skarst inn um æðaveggina. Þeir öskruðu, þeir hoppuðu, þeir slógu fólk með hölum sínum, þeir urruðu á lítil börn !!! Þeir voru ekki glaðir. Á eftir þeim rölti hinn hvíti maður, boðberi góðmennsku og gjafmildi. En helvítið rölti bara, og ég var búinn að reikna með að hann kæmi bara strax og bjargaði mér (sem hélt skíthræddur á stjörfu barninu í fanginu) og barninu úr þessum hroðalegu aðstæðum. Hann var bara eitthvað staulast með stafinn, bla, bla bla og við að skíta á okkur af hræðslu ! Komdu þér úr sporunum gamli durgur ! Komdu þessum helvítum í gröfina ! Síðan horfðum við á þá lemja fólk með svipum, öskra og hrista sig, en þegar þeir komu að okkur að skoða barnið í fanginu á mér var mér ekki sama og ekki HBH. En eftir nokkrar æfingar fékk ég Halldóru Björgu til að urra með mér á helvítið sem rak sitt skítuga tríni framan í okkar. Við sögðum saman UUURRRHHH þegar þeir komu. Eftir nokkra stund ákváðum við að nóg væri komið. Mamma var eftir og myndaði á fullu. Þegar við vorum komin inn í lyftuna heima sagði Halldóra Björg að hún vildi aldrei fara út aftur. Síðan varð það "ekki út á morgun" og rétt áður en hún sofnaði var hún farin að tala um það þegar hún urraði á krampússinn og hann fór í burtu rosa hræddur. Þetta var mjög skemmtilegur dagur, en það eru engar ýkjur að þessi kvikindi eru hrikalega ófrínileg og mjög hræðandi. Aðventan er byrjuð með sínum yndislegu kaþólsku hefðum, við reynum að læra og meta hefðir þess lands sem við búum í samt því að taka þátt í "helgiathöfnum" þeirra sem þessum.

Nú erum við að verða búin að skreyta og héðan í frá verða mjög mikið kristilegri hefðir uppi við. Kertljós, jólalög, kossar og hverabrauð ... (mér fannst bara hverabrauð passa en hér eru nottla engir hverir). Það kemur stöku sinnum fyrir að hér finnist smá hveralykt en þá er yfirleitt hægt að reka það til mín.

Með KRAMPÚSH kveðjum, Familien Von Salzach

Nýjar Krampusmyndir á myndasíðunni
!!