Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

föstudagur, febrúar 15, 2008

Pucheim æfingabúðirnar búnar, tónleikarnir að baki og Skúli kominn með gengið sitt.

Harpa söng og söng í Pucheim í eina viku, meðan Halldóra Björg var á skíðanámskeiði í Flachau með leikskólanum og ég æfði mig. Ásamt því að æfa mig var ég að brasa í promo demó diskagerð fyrir Groundfloor sem ég sendi á útgáfufyrirtæki í Evrópu, engin svör enn. Á Laugardaginn spilaði ég síðan frábæra tónleika í Kleines Studio í Mozarteum með Miriams acoustic group sem tókust alveg frábærlega. Við spiluðum í rúman klukkutíma fyrir smekkfullum sal og fengum mjög góðar móttökur. Þegar ég kom heim voru svo Skúli, Íris, Baldur og Ari litli búin að koma sér fyrir á Linzergasse ásamt Hörpu sem var nýkomin heim aftur. Sunnudagurinn fór í afslöppun og skoðunarferð um bæinn, Á Mánudaginn fórum við í æðislegu veðri upp á Untersberg með kláfnum og nutum stórkostlegs útsýnis og veðurblíðu. Á Þriðjudaginn leigðum við síðan bíl og rútuðum um sveitir Austurríkis með smá viðkomu í Þýskalandi. Stoppuðum við Königsee á leið okkar til Zell am See áður en við brunuðum fram hjá Alpendorf, St.Johann, Flachau og Tennengebirge á leið okkar til Salzburgar á ný. Á miðvikudaginn skiptum við síðan liði. Stelpurnar fóru í EUROPARK hina yndislegu og gemutlichheit-uðu verslunarmiðstöð okkar Salzburginga, og við pabbarnir og börnin fórum í göngu á Kaputzinerberg a.k.a. Plómuberg (þangað eru alltaf teknar með plómur og borðaðar í nesti) og klifruðum og njósnuðum í skóginum. Fimmtudagurinn var skíðadagurinn og við rifum okkur eldsnemma upp og fórum með rútu í átt Dachsteinscæðisins þar sem við ætluðum að eyða deginum. Við skíðuðum í Rohrmooz, rétt ofan við Schladming í Steiermark, í heilan dag og gríslingarnir renndu sér á sleða. Nema auðvitað Baldur sem er orðinn svo stór að hann stóð á skíðum allan daginn og skemmti sér vel. Í dag er föstudagur og sér fyrir endann á þessari frábæru heimsókn, gestirnir okkar fljúga heim á morgun og við höldum enn á ný til fjalla þar sem okkur líður best. Nú ætlum við að eyða vikunni í skíðanámskeið og gleði hjá Dodda og Þurý í Skihotel Speiereck í St.Martin. Nú er skólafrí hjá Hörpu og hún að skíða úr sér andlegu þreytuna fyrir líkamlega þreytu í heila viku. í Mars byrjar síðan hasarinn aftur og Pucheim tónleikarnir eru aðra helgina í Mars.

Myndir af gleði undangenginna vikna eru að finna á myndasíðunni, skemmtið ykkur vel og verið dugleg að kommenta, það eru einu höfundalaun okkar, og eru þau alltaf vel þegin.

jæja until next time. HHH.