Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

föstudagur, janúar 22, 2010

skrítnir tímar

Hæ. Ég sit í rökkri morgunsins og skrifa. Halldóra Björg er komin í skólann að nýju og gestirnir sofandi inni í herbergi. Harpa komin upp á herbergi til Matthildar í Munchen og við bíðum með kvíðahnút í maga þess sem dagurinn ber í skauti sér.

Mamma og pabbi komu með Halldóru Björgu frá Íslandi fyrir viku síðan, það var yndislegt að fá hana aftur eftir svona langa fjarveru. Hún stendur sig vel skvísan okkar, komin vel áfram í heimanáminu eftir dvölina á Íslandi og dansar um allt í nýju rapp skónum frá ömmu. Sem betur fer hefur hin mjög svo breytta fjölskyldumynd ekki haft svo neikvæð áhrif á hana hingað til. Þökk sé einstaklega sterkri, samheldinni og ástríkri fjölskyldu hennar á Íslandi, sem tóku hana að sér yfir hátíðarnar. Vinir okkar hér úti lögðu líka mjög mikið af mörkum við að mýkja hið þunga högg í byrjun desember sem var okkur afar dýrmætt og gleymist aldrei.

Ég sjálfur byrja að vinna við áframhaldandi litaheilanir moldríkra austurríkismanna í næstu viku og hef fengið lítinn, tveggja sæta bíl til notkunar frá fyrirtækinu. Ég kem til með a vinna mun stopulla en ég gerði áður og einnig styttri vinnudaga, þar sem ég fer með og sæki HBH í skólann á tilsettum tímum í framtíðinni. Við vonum þó að innan einhverra fárra vikna fái Matthildur að leggjast á deild hér í Salzburg, þar sem Harpa gæti komið heim og og hvílt sig hjá okkur og við HB ættum greiðari aðgang að Matthildi. Saman erum við fjölskyldan hægt og rólega að raða saman brotunum úr gamla lífinu okkar og slípa og móta þau við nýja lífið, það gengur ágætlega. Ég er að spila fyrstu tónleikana mína á þessu ári í kvöld, það er þjóðlagajazztríóið Úngút sem leikur "fyrir dansi" í tónleika sal í Laufen í Þýskalandi. síðan erum við aftur með tónleika í Salzburg næstu helgi svo þetta fer svona hægt og rólega af stað aftur. Groundfloor, er að skipuleggja nýjar upptökur í febrúar með 2009 teiminu og ætlum við a nota þær upptökur til útgáfu á nýrri og vandaðari plötu en okkar ágæta "Bones" sem kom út 2008. Síðan verðum við með tónleika 19 feb í Salzburg, það verður eitthvað til að hlakka til. Í næstu viku komum við til með að setja inn myndir af litla kraftaverkinu okkar í Munchen.

Vil ég, fyrir hönd okkar fjölskyldunnar, þakka öllum, frá okkar dýpstu hjartarótum, fyrir ómetanlegan stuðning, í formi orðsendinga og bæna og andlegan og veraldlegan stuðning því það hefur gefið okkur botnlausa uppsprettu af vonum, trú og krafti. Við komum aldrei til með að geta fært það í orð hversu dýrmætur stuðningur ykkar hefur verið okkur á þessum erfiðu tímum. Matthildur finnur það í gegnum okkur og notar það í sinni baráttu við veikindin.

með ást og hlýju, Halli, Harpa, Halldóra Björg og Matthildur Haraldsdætur.