Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, september 14, 2010

Hversdagsleikinn...

Ég verð bara að fá að tjá mig um gleði mína í dag...
Fyrsti skóladagur vetrarins hjá frumburðinum, Halldóru Björgu, er runninn upp og hversdagsleikinn þar af leiðandi einnig. Við vöknum snemma. Halli er farinn í vinnuna, Halldóra Björg tekur sinn tíma í að vakna en litli maurinn fær að sofa alveg þar til við förum af stað. Skólinn er í 5 mín. fjarlægð þannig að við Matthildur getum farið út án morgunverðar þar sem þessi heimsókn tekur mjög skamman tíma. Halldóra Björg var mjög ánægð með sig í morgun og dauðfegin að vera byrjuð aftur í skólanum. Matthildur og ég örkuðum svo heim og fengum okkur yndælis morgunmat og sprelluðum. Núna situr Matthildur á gólfinu og leikur sér með dótið sitt á meðan ég kíki á netmiðlana með góða kaffið mitt. Fyrir ÞETTA, nákvæmlega þetta sem ég lýsi hér er ég ólýsanlega þakklát. Hversdagsleikinn er eitthvað sem við teljum sjálfsagðan hlut en er það svo óneitanlega ekki... Það að Matthildur sé svo kröftug og staðráðin í að lifa lífinu sínu eins hamingjusöm og hún er, er ólýsanleg tilfinnig. Það að Halldóra Björg sé svo hamingjusöm og kát, ánægð með systur sína sem hún dröslast með um alla íbúð eins og ekkert hafi í skorist, er ómetanlegt. Það að við fjölskyldan getum lifað eðlilegu lífi saman og notið hversdagsleikans er algerlega ómetanlegt og best í heimi !!!

Ég býð ykkur góðan daginn og njótið !

Harpa