Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

mánudagur, desember 19, 2011

Hugleiðingar

Nú eru 5 dagar til jóla og ég stend í miðjum Sörubakstri. Búin að skreyta að mestu og halda tvö barnaafmæli, gera pakka dagatal og svo kíkja jólasveinarnir auðvitað í heimsókn hingað til Salzburgar. Síðast bakaði ég Sörur áður en ég eignaðist Matthildi mína. Þá var ég svo tímanlega í öllu til að hafa allt tilbúið fyrir komu dótturinnar. Við Halldóra Björg náðum sem betur fer að eiga góða aðventu saman og bökuðum og föndruðum fjöldan allan af jólakortum sem svo aldrei fóru í póst... Desember 2009 var sérstaklega erfiður tími hjá okkur fjölskyldunni. Líf okkar breyttist á einni nóttu og var okkur kippt inn í atburðarás sem var okkur algerlega ókunnug. Á sama augnabliki fundum við hvernig þéttur veggur myndaðist í kringum okkur af fjölskyldu og vinum.
Halldóra Björg náði sem betur fer að njóta jólanna í faðmi fjölskyldunnar á Íslandi á meðan við, mamma og pabbi, fylgdumst með litlu systur hennar og öðrum litlum veikum börnum, berjast við að halda lífi í annars mjög svo veikum kroppum. Sumir töpuðu baráttunni en Matthildur barðist og barðist þar til hún sigraði örugglega. Í desember 2010 varð Matthildur aftur lasin og var lögð inn á spítalann hér í Salzburg. Það gerðist 14. des eða daginn fyrir 7 ára afmælisdaginn hennar Halldóru Bjargar. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sagði Halldóru Björgu að við yrðum aftur á spítala á afmælinu hennar og við yrðum að færa afmælispartýið þar til í janúar. Hún tók því eins og ekkert væri og faðmaði mömmu sína... Matthildur dvaldi á spítalanum í viku og Halldóra Björg bakaði súkkulaðiköku og gaf hjúkkunum á afmælisdaginn :) Við náðum að eiga yndisleg jól þar sem Matthildur náði sér á mettíma. Mér var hins vegar ómótt allan desembermánuð...
Nú í desember 2011 eru allir við hestaheilsu. Halldóra Björg búin að halda afmælispartý og Matthildur stjórnar öllu hér eins og herforingi. 15. des. fór Matthildur svo í 2 ára skoðun hjá barnalækninum sínum sem var hæstánægður með hana þar sem þroskinn er fullkomlega eðlilegur.
Nú heldur hinn árlegi jólaundirbúningur áfram en með öðrum áherslum en áður. Ég er breytt manneskja, ég finn það svo vel. Ég var alveg ógurlegt jólabarn og er það sjálfsagt enn en á allt annan hátt. Hef upplifað jólin í einmanaleika án barnanna minna sem kenndi mér að það er ekkert mikilvægara en að eiga góða fjölskyldu og njóta þess sem maður á. Jólin koma án þess að þess að búið sé að skúra eða klára Sörurnar og án þess að kaupa dýrar og fínar gjafir. Allt þetta skiptir engu máli. Lífið skiptir máli og það erum við sem kennum börnunum okkar lífsins gildi.
Það er skrítið að vera endalaust þakklát en það er einfaldlega þannig sem mér líður. Þakklát fyrir allt sem ég á og hef áorkað.

Gleðileg jól !

Harpa