Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

laugardagur, ágúst 28, 2010

Allir loksins komnir heim.

Það var yndislegt að fá Halldóru Björgu til baka eftir ansi langt frí frá mömmu og pabba á Íslandi. Það tók líka mikið á að vera án Hörpu þessa fimm daga hér heima en , .. við redduðum því. Fyrstu dagarnir voru auðvitað pínu stressó þar sem ég var að læra mörg sérhæfð handtök í meðförum á móðursjúkum börnum en eftir fyrsta daginn hafði móðurástin mikið minnkað og ég var tekinn í þokkalega sátt. Við lifðum auðvitað ekki alfarið eftir öllum fyrirfram settum reglum en það er okkur orðið tamt, að aðeins að svegja frá forskrifuðum uppskriftum um daglegt brauð. Matthildur unni sér vel hjá pabba og ég meira að segja náði að æfa með hljómsveitum á meðan hún svaf vært og blítt í rúminu sínu.

En miklir fagnaðarfundir urðu loksins þegar þær mæðgur komu heim, loksins öll saman á ný í hvað mest eðlilegum fjölskyldu aðstæðum. Það hefur okkur þótt afar gott að upplifa. Harpa er komin á gott skrið í söngnum og stefnir ótrauð áfram í skólanum í haust. Einnig hefur hún ýtt úr vör gömlu soló projecti frá því hún vanns em húspíanisti og söngvari á veitingarstaðnum Skólabrú, árið áður en við fluttum hingað út. Nú er hún búin að bóka gigg sem "the girl at the piano" á Mattseer Stiftskeller í November og ætlar eitthvað aðeins að vinna það prógram með náminu og fjölskyldunni. Í fjarveru Óla (Groundfloor) stofnaði ég nýtt jazz trío utan um mitt eigið efni og höfum við í "Baad Roots" verið að æfa í sumar og komum til með að deputera programmið á jazzhátíðinni "Jazz and the city" í miðbæ Salzburgar í Oktoberlok. Það verður stórt skref fyrir mig sem lagasmiður að flytja fullt prógram af mínum eigin lagasmíðum.

Eins og stendur eru Harpa og Matthildur á spítalanum, Matthildur hefur verið með hita undanfarið og virðist hann ekkert vera að lækka, svo þær fóru á ambulaz í morgun. En við Halldóra Björg erum á leið til Guðbjargar að mála og laga í íbúðinni hennar, hún flytur til Hollands á morgun, það verður mikill missir úr annars góðri flóru fólks hér í Salz. Hennar verður sárt saknað.

Bestu kveðjur, allir saman, flumbruvalla foringinn, Halli.

föstudagur, ágúst 13, 2010

feðginin á flumbruvöllum

Nú er hér allt í kross og óskipulagi, borðað og drukkið á undarlegustu tímum og hangið í plötubúðum allann daginn í skjóli fyrir rigningunni semnú herjar. Já, mamma er flogin til Íslands að sækja Halldóru Björgu... og við Matthildur því ein í kofanum. Hvorki ég né hún höfum verið sérstaklega þekkt fyrir reglu og skipulag. Annað okkar meira að segja svo að hjartað er ekki einu sinni í röð og reglu, en það er önnur saga. Í dag er fyrsti dagurinn liðinn af fimm sem til stendur að við eigum að vera ein heima, en það kæmi mér ekki á óvart þó að Harpa og Halldóra Björg þyrftu að flýta för sinni aftur heim vegna flumbrugangs og kunnáttuleysis í reksti góðra heimila. Við Matthildur vöknuðum allt of snemma í morgun, og til hvers, .. jú til þess eins að bíða eftir að við sofnuðum aftur. Þá fyndidt mér nú miklu betra að einfaldlega sleppa þ´vi að vakna þarna um hálf sjö leytið og sofa bara beint fram til 10 og fara SVO í plötubúðina, en þar er einmitt eitt að reglulegum embættisverkum okkar feðgina þessa vikuna, að athuga hvort ekki sé allt í röð og reglu í rekkunum. Matthildur unir sér þar vel, og kann ég henni fyrir það bestu þakkir. Hún hefur borðað heilann banana í dag og hálfa krukku af, bæði, spagetti með mozarella og bio kalbs braten í krukku, með hrísgrjónum. Allt soðið niður í yndælis barnamauk sem pabbi ber síðan lystilega fram í plastskál. Matthildur er búin að skipta tvisvar sinnum um alklæðnað í dag, eins og helstu skvísurnar, en þó aðallega fyrir subbulegar matarvenjur frekar en stíl.

Við sjáum hverju fram vindur næstu daga og er nú að renna í aðra nótt okkar Matthildar ein heima, allt getur gerst.

Fylgist spennt með Spagettíætunni Matthildi og þjóninum Haraldi í "feðginunum á flumbruvöllum"