Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

fimmtudagur, september 17, 2009

Skólastelpa...

Það er margt að gerast hjá okkur núna hér í Schwarzstrasse 41. Fyrir utan það að undirbúa komu annars unga þá var tilvonandi stóra systir að byrja í skóla núna á mánudaginn. Spenningurinn var gríðarlegur og ekki síst yfir að fá að fara með skólatöskuna af stað og að opna Schultute sem er hefð hér í Austurríki og í Þýskalandi. Hefðin er þannig að elstu börnin á leikskólanum fá svokallaða skólakeilu (schultute) sem er full af alls kyns góðgæti og nauðsynjum. Þetta fara svo börnin með í skólann fyrsta skóladaginn og opna þegar þau koma heim.
Það var smá misskilningur hjá okkur mæðgum (eða bara mömmu) og héldum við að þetta ætti að fylgja skólatöskunni, þ.e. að koma með þetta fyrsta alvöru skóladaginn, ekki á skólasetninguna... en það var víst ekki svo og var Halldóra Björg eina í bekknum sem var ekki með sína keilu... :( Við ræddum aðeins málið og komumst að því að þetta væri nú ekki mikið mál, myndum bara opna þetta heima í gleði eftir skólann.
Okkur lýst mjög vel á skólann og erum búin að fara á fyrsta foreldrafundinn þar sem starfið var kynnt fyrir foreldrunum. HB kemur þreytt og ánægð heim úr skólanum og sofnar algerlega um leið og hún leggst á koddan á kvöldin.

Annars allt í gúddí og heyrumst fljótlega. Nýjar skólamyndir á myndasíðunni !

Tjuss

Harpsicord

laugardagur, september 05, 2009

samantekt síðast liðinna vikna

Hæ, segjum við hér úr haustlegu Salzburg. Hér er enn hlýtt og gott en helsti munurinn er sá, og það sem segir okkur jafnframt að haustið sé komið, er að hitastigið á nóttunni fer alveg undir 20 gráður og maður getur næstum því bara sofið ágætlega. Haustið er komið.

En á daga okkar hefur drifið ýmislegt undanfarið, ég og trommari Groundfloor fórum á tónlistahátíð í St.Pölten, einmitt þar sem við spiluðum mánuði áður, aðallega til að hlusta á og sjá eina af okkar uppáhaldshljómsveitum til margra ára, Radiohead. Við fórum á fimmtudegi eins og við værum að fara á útihátíð um verslunarmannahelgina ´95, með tjald og bjór. Enga dýnu, engann prímus, engann svefnpoka, engann mat, engin aukaföt og ekkert rugl, þetta var rokk ferð. Við komum auðvitað seint og hátíðin löngu byrjuð, þannig að við ætluðum að tjalda í óleyfi einhverstaðar utan svæðis en þá benti einhver okkur á að þarna fengum við háa sekt ef við tjölduðum þarna. Sá hinn sami, bauð okkur pláss hjá þeim. Færði tjald félaga síns sem var ekki heima, með öllu innan í, og hjálpaði okkur að tjalda. Tjaldið okkar var töluvert stærra en við gerðum okkur sjálfir grein fyrir og varð svo úr að þegar við vorum búnir að tjalda var ekki með nokkru þægilegu móti hægt að komast að innganginum að tjaldi gestgjafans né vina hans. Við vorum sívinsælu íslensku gæjarnir. Þetta fólk er frá Stuttgart og er á okkar aldri og tók okkur afar vel, gaf okkur a borða, drekka og hékk með okkur út um allt. Radiohead tónleikarnir voru svo góðir að ekki hefur mér enn tekist að setja það í skiljanleg orð hversu vel þeir tókust og hversu bandið flutti efni sitt vel þetta kvöld.. ógleymanlegt, óútskýranlegt, ólýsanlegt. Get ekkert annað en mælt með að fólk sem hefur áhuga á þessarri hljómsveit reyni eftir mesta megni að uplifa þá á sviði.

Á meðan ég kútveltist blindfullur um tjaldsvæðið í St.Pölten eins og táningur á Halló Akureyri ´95, komu, mín elskaða tengdamóðir og mín virta mágkona, Halla frænka okkar til Salzburgar. Þær komu með Halldóru Björgu til baka eftir 3 vikur á ferðalagi á Íslandi, þó með örlítilli leiðsögn vandamanna. Þær voru hingað komnar í eina af skemmtilegum mæðgnareisum og nutu þær Salzburgar í hitabylgjunni. Þær báru með sér að heiman fulla tösku af barnafötum fyrir væntanlegann grísling í desember og himneskan fisk frá Íslandi. Þær gengu hér þvers og kruss um allt og Halla hljóp á fjöll hér um kring. Það var gott að hitta þær mæðgur eftir langan aðskilnað en þó enn betra að endurheimta ungann okkar eigin, aftur í foreldrahús.

Í gær, rúntuðum við upp til Dodda og Þuríðar í Skihotel Speiereck og var okkur tekið þar opnum örmum, boðið í mat og drykk og enduðum við á að leggjast inn í eitt af mörgum fallegum herbergjum á hótelinu til næturgistingar. Í morgun vöknuðum við síðan við kaldan haustvindinn inn um opinn gluggann og sólargeisla sem skinu í gegnum köngulóarvefinn fyrir utan. Snæviþaktir tindar fjallanna í kring skörtuðu sínu fegursta þar sem við klifruðum í náttfötunum út á svalir í morgun, útsofin og glöð. Í dag ætlum við að gera Sushi með góðum gestum og halda áfram að njóta lífsins, síðan byrja ég að vinna aftur á mánudaginn. Þá tekur alvaran aftur við sem er þó samt eins og ævintýr því þetta er jú ennþá Austurríki, yndislega fallegt land.

Afsakið ljóðmælgina og væmina en mér líður bara svo vel. kv H.