Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Stórum áfanga náð.

Eftir reglulegar æfingar fyrir svefninn og umræður um dularfullu verðlaunin sem biðu þar til settu markmiði væri náð hefur Halldóru Björgu tekist að læra íslenska stafrófið, með eðum, uffsylonum og öllum skrítnu stöfunum. Nú er hennar aðalleikur að taka niður pantanir í þykjó þjónustustúlkuleik með alvöru stöfum. Hún fékk í verðlaun, við hátíðlega athöfn, alvöru köfunar pípu sem má kafa með í vatni og anda í gegnum. Hún hefur varla komist upp úr baðinu síðan, þó neflokunar tæknin sé ekki alveg fullkomnuð og veldur stundum vanda, þá er það mjög mikið sport að kafa... en neflokunin er bara eitthvað sem lærist og kemur.

Snjórinn er kominn og tímasetti hann komu sína vel, ... jólamarkaðurinn í miðbænum opnaði og allt varð hvítt... mjög skemmtilegt. Á sama tíma opnaði skautasvellið og Harpa og Halldóra Björg voru fyrstar á ísinn og skautuðu eins og englar og skemmtu sér vel.

Í dag fórum við í boði Kjartans og Erlu í þakkargjörðarmáltíð í kirkjunni þeirra, áttum frábæran dag, borðuðum vel og nutum góðrar tónlistar, enduðum síðan í spjalli og þægilegheitum heima hjá Prof. Mörthu eftir matinn. Nú erum við komin heim í ró að gera okkur ready fyrir komandi viku.

Bráðum förum við til íslands !

föstudagur, nóvember 14, 2008

Skeggsöfnun, Jazz og íslenskir tónleikar í Salzburg.

Ég og fjölskyldan höfum ákveðið að ég muni safna mér gríðarmiklu skeggi, okkur til ánægju, skemmtunar og yndisauka ... uuh ... veit ekki með yndisaukann en alla jafna stefni ég á að leifa andlitsgróðrinum að vaxa villtum þar til í Mars 2009. En nóg um það.

Ég og Kjartan vinur minn fórum á magnaðatónleika með Chick Corea og félögum í Grosses festspielhaus og skemmtum okkur konunglega, alveg frábærir tónlikar. Í þetta skiptið var kollegi minn Christian Mcbride með sinn eigin bassa og þurfti mín langt-útrétta hjálparhönd ekki að redda "betri" bassa fyrir sjóvið. Núna erum við Kjartan einlægir aðdáendur brjálaða saxófóns leikarans Kenny Garret (The real Kenny G). En tónleika fréttum er hvergi nærri lokið í þessum pistli, því daginn eftir jazzinn fór ég á rokktónleika með Tito & Tarantula sem er frábært, mega cool amerískt/mexíkanskt band sem er helst frægt fyrir að redda soundtrackinu í súrrealíska, umdeilanlega meistaraverkinu "From dusk til dawn" eftir Tranatino. Það voru einnig frábæriri tónleikar. Halldóra Björg bauð okkur einnig á "tónleika"/skemmtum hjá leikskólanum og börnin sungu ljóskerslög, því á miðvikudaginn var ljóskersdagurinn eða lediennenfest og mikið trallað. Síðan var komið að tónleikum með íslenska folk/trad tríoinu Úngút í Oval, sem er stórt svið í Europark og mjög góðu tónleika staður. En aðalsöngkonan Rósa Baldursdóttir var drullulasin og vinir þjóðarinnar tóku sig saman og gestuðu í röðum á kvöldinu. Harpa Þorr, Þorri Þorr, Geiri Gadsjet, Unnur Möll, Baldur, Hjörtur og Árni Rósu synir komu til að redda kvöldinu og það tókst. Góðir tónleikar og skemmtilegt kvöld.

Þannig að nú er allt í stuði og við ætlum að kíkja á Miriam Acoustic barn á morgun og síðan tekur bara lífið við á mánudag. Ég spila í Linz á miðvikudaginn ef einhver hefur áhuga á að koma og hlusta...

Cha bel, Halli Mumm.

Fullt af nýjum myndum coming up.

laugardagur, nóvember 08, 2008

Geðveikt gaman að vera til !

Ég fór og hitti gaurana í Mark Ribbot trio á föstudaginn síðasta, ætlaði bara að eins að kíkja á þá stilla upp og sánchekka og reyna að troða mér inn í smá jamm með þessum sniðuga Bassaleikara, Henry Grimes. Hann er helst frægur fyrir að hafa spilað með John Coltrane, Sonny Rollins, Cecil Taylor, Albert Ayler og fleiri gæjum ásamt því að hafa unnið sem dyravörður, í 35 ár. Það mætti sem sagt segja að í dag árið 2008 væri hann aðalega frægur fyrir húsvarðar árin sín... skringilegt nokk, en eftir að hafa spilað með öllum þessum gaurum sólbakaðist bassinn hans á toppi bandrútunnar í Arisona og klofnaði allur og sprakk og þurfti að fara í viðgerð. Þá upphófst ferill þessa eftirsótta kontrabassaleikara sem húsvörður í blokk Harlem. Árið 2000 gróf jazz rannsakandi nokkur Henry Grimes upp í niðurníddri íbúð í kjallara blokkarinnar sem hann vann við og bauð fram hjálp sína við að koma honum inn í jazz senuna á ný. Nú eftir 8 ár er hinn 72 ára Henry Grimes nýja undrið í avant garde senunni í New York. Hann dregur að unga sem aldna og spilar frjótt og fumlaust. Ég var vægast sagt mjög spenntur fyrir fundi okkar og tók með mér bassann minn til að reyna að fá hann til að grípa í hann... Þegar ég mætti var mér boðið i mat og spjall, boðið að drekka og við bassastrákarnir tókum smá jamm saman. Hann var að prófa bassann sem leigður hafi verið fyrir hann af jazzhátíðinni og ég spilaði á minn. (Þóttist vera nýkominn af æfingu, hí, hí, hí). Þegar stund var kominn fyrir Henry að stíga á svið að tengja hljóðfærið og koma sér fyrir, sagði ég að það væri mér mikill heiður ef hann væri til í að taka aðeins í bassann minn, hugsaði að því væri gaman að segja frá, og það var ekkert mál. Hann spilaði á bassann minn um stund og ég hugsaði að kvöldið hefði nú ekki getað farið betur... en ég vissi ekki neitt. Eftir að hann hafði spilað í nokkrar mínútur leit hann upp og sagði með sinni grófu, muldrandi bassarödd á næstum óskiljanlegri Harlem ensku "would you mind if I play your bass on the show?".... "Would I mind? Mr Grimes? ... I would be honoured !" sagði ég hátt og hvellt með ÓVENJUskrækri íslenskri tenór rödd minni og fannst ég hálf fíflalegur með augabrúnirnar svo hátt uppi, þannig að ég lét þær síga eins og ég væri í fýlu og sagði aftur með þvingaðri dekkri rödd " Nó próblem maaan" Hann bósktaflega rústaði bassanum mínum á sviðinu, dsjíses kræst what a show !

Síðan fórum við í partý á sunnudeginum til Mörthu ásamt öllum hinum nemendunum hennar og skemmtum okkur konunglega. Hún bauð vel að borða og nóg af öli. Hljómsveitir og kvartettar voru stofnaðir og mikið stuð, getum vart beðið eftir að endurtaka likinn.

Á mánudaginn byrjaði ég svo að vinna hjá Muthwill og er þegar farinn að heilka fólk. Fólki líður mjög vel eftir að ég mála fyrir þau, línurnar á réttum stöðum og allt í stuði. Harpa og Halldóra Björg er enn lasnar og lufsulegar en við vonum nú að fari braðum að rofa til í þeim efnum.

Endilega kommentið ef þið nennið það er svo gaman.

Þessu bloggi fylgir ný myndaseríja á myndasíðunni okkar, go check it out.