Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

föstudagur, september 19, 2008

Veturinn er kominn

Hæ allir ! Veturinn er kominn með sitt ferska loft sem einhvern veginn lyktar af köldu járni... Við frónlendingar erum búin að ná okkur í ullarklæðnaðinn í geymsluna og fer því vel um okkur á Linzergasse. Íbúðin okkar er þó svolítið köld, við höfum ekki enn sett hitann á því heimamenn segja okkur að það eigi örugglega eftir að hlýna bráðlega, þetta sé bara svona vetraráminning.
Harpa er komin á fullt í undirbúningi fyrir skólann og er að syngja okkur Halldóru Björgu skala, æfingar og aríur... heimilislegt og þægilegt. Ég var í stúdíói í Þýskalandi í dag, rétt fyrir utan Salzburg, með tveimur gítaristum í bandinu String Thing. Annar gítaristinn kemur úr írska geiranum og hinn úr gítar bíbobbi (það er að segja ALLT of hröð gítarsóló með ALLT of mörgum nótum) og ég svona úr báðum áttum. Upptökurnar tókust bara vel og var þetta mjög gaman, tókum allt upp live á 4 tímum, allt í allt 9 lög. Halldóra Björg er á fullu í skólaundirbúningi í leikskólanum, læra stafina, og tölurnar og fleira svona beisik og henni finnst hún rosalega fullorðin og stór... sem hún er að verða.

Við Harpa erum að fara út í kvöld og erum komin með barnapíu... Jibbí jei ! Við ætlum á krimma... "Sex and Crimes" Leiklesin krimmasaga blönduð spennu og kynlífi... á þýsku, ... voða spennó. Þetta á sér stað á kaffihúsinu okkar í miðbænum, 220°. En þar höfum við eignast góða vini og komum líklega til að flytja einhverskonar tónlist þar einhverntíma seinna. Áður en spennusagna upplesturinn hefst þá er boðið upp á STERKA gúllash súpu fyrir þá sem þora.

Úps ! Konan er að reka á eftir mér... gúllashið, krimminn og kynlífið bíður mín, verð að þjóta.

Halli.

miðvikudagur, september 10, 2008

Miriam Acoustic Group Íslandstúrinn

Pólsk/Íslenska jazzhljómsveitin Miriam Acoustic Group, með mig innanborðs, fór í afar vel heppnaða tónleika og kennsluför til Íslands í liðinni viku. Verkefnið var skipulagt og stýrt af formanni framkvæmdasviðs hljómsveitarinnar á Blönduósi, Guðmundi Haraldssyni ásamt aðalritara fjölmiðlaráðs Berglindi Björnsdóttir. Við komum á Blönduós á sunnudagskvöldi og var þá bíll búinn öllum helstu hljómsveitargræjum tilbúinn til notkunar fyrir okkur alla vikuna. Við byrjuðum á að spila fyrir skólakrakka í grunnskólanum á Blönduósi á mánudagsmorgun. Við höfðum sett saman lítið verkefni sem miðaði að því að komast að því hvort að tónlistarmenn bæru með sér ómeðvitaðar tónlistarhefðir þeirra þjóða sem þeir tilheyra í tónsköpun sinni. Við ákváðum að taka þekktar laglínur frá hvoru landinu sem allir þekkja og útsetja hvort í sínu lagi, en ég sem íslenskur tónlistarmaður útsetti pólska lagið án nokkurrar vitneskju um hvað lagið fjallaði eða hvernig það væri flutt venjulega og stelpurnar tóku Sofðu unga ástin mín og útsettu á sinn veg, einnig án nokkurra skýringa frá mér. Við reyndum hvorug að gera "þjóðlega útsetningu" bara eins og okkur fannst það flottast og passa best við laglínurnar. Út úr þessu spunnust margar skemmtilegar vangaveldur og spurningar sem var afar gaman að velta fyrir sér með krökkunum eftir að þau höfðu heyrt útsetningarnar bornar saman við upprunarlega flutninginn. Síðan spiluðum við tónleika í félagsheimilinu um kvöldið.
Á þriðjudeginum spiluðum við fyrir krakka í grunnskólanum á Húnavöllum og síðan eftir hádegi fyrir grunnskólanemendur á Skagaströnd. Enduðum síðan daginn á kvöldtónleikum í Kántrýbæ.
Miðvikudaginn tókum við fyrir vestan og spiluðum á Laugarbakka í mjög góðri stemmningu fyrir góðan hóp af börnum. Síðan fórum við á selasafnið og í mat til Lillu Skúla, sem var frábært, því að hún bauð upp á íslenska kjötsúpu og átti nóg í dalli. Eftir matinn keyrðum við út með sjávarsíðunni og fylgdumst með selum, og þótti stelpunum það alveg æðislegt. Síðan skelltum við okkur í laugina og spiluðum tónleika í Café Síróp um kvöldið. Fimmtudagurinn var frí og við ákváðum að fara upp í Blönduvirkjun og upp á Hveravelli. Okkur var rosalega vel tekið í Blönduvirkjun og við leidd um alla króka og kima og að endingu boðið í fínasta hádegismat áður en við héldum á hálendið. Það þarf nú ekki að taka það fram en þær algerlega heilluðust af hálendinu, Hveravöllum og Fjalla Eyvindi. Ég mundi nú ekki nóg af frásögnum af honum og skreytti bara og bætti við þannig að úr varð hin ævintýralegasta frásögn sem endaði í einu fylgsni hans upp við Hveravelli. Við skemmtum okkur mjög vel.
Á föstudeginum spiluðum við fyrir 350-400 börn í Grunnskólanum á Sauðárkróki sem var mjög gaman og síðan á frábærum tónleikum á Mælifelli um kvöldið. Á laugardeginum áttum við gigg á Ljósanótt í Reykjanesbæ og brunuðum þess vegna suður á laugardagsmorgun til að ná þeim. Við stoppuðum í umþ.b. klukkutíma í Reykjavík dán tán áður en við gerðum allt klárt fyrir Ljósanótt. Við spiluðum góða tónleika í Flughótel Keflavík og skelltum okkur svo í Bláa Lónið að sjálfsögðu. Stelpurnar áttu ekki eitt einasta orð yfir hinu mjög svo ólíka og undarlega landslagi sem ferðin okkar leiddi þær í. Júlía lenti í smá slysi í Blú lagún en henni fannst það bara flott og hlakkaði til að koma heim og segja frá því.

Skólaprógrammið tókst afar vel í alla staði og það kom mér mikið á óvart hversu áhugasöm og eftirtektarsöm krakkarnir voru í heildina. Ég hefði örugglega verið hoppandi, hlaupandi og hundleiðinlegur hefði mér verið boðið upp á þetta þegar ég var krakki, en nei, hér voru engin slík vandamál. Í eitt skiptið stöðvaði kennari tal tveggja ungra drengja sem sátu á gólfinu beint fyrir framan okkur meðan við vorum að spila, mér fannst spjall þeirra afar áhugavert og tók það upp sjálfur við drengina eftir að flutningi okkar lauk, en þeir voru einmitt að spá í stærð bassans, tengingu hans við fiðluna og stelpunni á trommunum. Við bara ræddum þessi mál, mér fannst þetta afar skemmtilegt.

Í lokin vil ég þakka framkvæmdastjóra, matráðskonu og ritara Íslandsdeildar Miriam Acoustic Group þeim Mumma Haralds, Erlu Björgu og Berglindi kærlega fyrir vel unnið og skemmtilegt verkefni svo og þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem studdu okkur við tónleikahaldið og sérstakar þakkir til Menningarráðs NorðurlandsVestra sem gerði ferðina mögulega.

Myndir úr ferðinni koma seinna.
Kv. Halli.