Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, apríl 12, 2011

Því miður...

Því miður hefur facebook unnið, ... lengsta reglulega mánaðarbloggi íslandssögunnar er hér með lokið. Ég komst ekki til að skrifa neitt í mars og hef ekkert að segja núna, reyndar frá nógu að segja en mig skortir orðin, frumkvæðið og kraftinn. Held meira að segja að ég skrifi þessi síðustu orð fyrir vindinn einann því hingað lítur varla nokkur maður lengur inn. Við svo búið blæs ég rykið úr gluggakistunni á þessu litla bloggherbergi sem lengi var fullt af hlátri og kommentum en gleymdist í öllu facebook fjaðrafokinu. Ég kem stólnum haganlega fyrir á sínum stað, ef ég skildi nokkurn tíma koma aftur og ríf niður köngulóarvefinn í síðasta sinn sem kemur alltaf milli eldhússkápsins og gluggakarmsins. Liggur enn eitthvað í draslskúffunni við innganginn? Ég veit það ekki, það er annarra að komast að ef einhver finnur þennan kofa í allri uppbyggingunni. Hérna skil ég eftir allar hálfkláruðu smásögurnar, allar minningarnar og alla vitleysuna. Loka hurðinni og sný lyklinum í ryðgaðri læsingunni. Hér var gott að vera. Ég geng niður að bílnum og lít í átt að blogginu, .. "Ætli honum hafi liðið svona manninum sem læsti hurðinni á síldarvinnslustöðinni í Djúpuvík á ströndum í síðasta sinn". Ég hætti að hugsa um það. Nú eru hér öll ljós slökkt og úti tekið að rökkva. Háuljósin lýsa mér leiðina á facebook. Þar er alltaf bjart og allir heima.