Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

mánudagur, maí 24, 2010

Fræinu hefur verið falslega sáð..

Nú eru liðnar 4 vikur síðan Harpa og Matthildur komu frá Munchen eftir aðra hjartaaðgerð Matthildar. PCPC aðgerð, þar sem efri hluti blóðhringrásar líkama hennar var tengdur við lungnaslagæðina, með hennar eigin lífrænu æðum. Aðgerðin sjálf tókst vel, æðarnar hennar sem notaðar voru, voru heldur grannar fyrir þennan blóðflutning en virðast þó (til þessa) vera að uppfylla raunhæfar kröfur. Við aðgerðina sködduðust taugar til þindarinnar sem stjórna öndun og hefur Matthildur átt við erfiðleika í hægra lunga, og enn er óvíst hvort hún komi til með að ná sér af því og geta notað hægra lungað að fullu, í ofanálag fékk hún mikið kvef á spítalanum og hefur verið að berjast við það undanfarnar tvær vikur, á síðustu dögum höfum við merkt mikinn sjáanlegan bata. Matthildur er nú hin hressasta og hlær mikið og leikur sér. En enn þarf hún súrefni í nefið á meðan hún er að veja sig við minnkaða getu veika lungans. Ég hef ekki verið í málaravinnu undanfarnar vikur (þökk sé fjárhagslegum stuðningi velunnara okkar get ég verið með Hörpu á spítalanum) og þannig höfum við getað staðið vaktirnar saman ég og Harpa, við erum hjá Matthildur 24/7, nótt sem dag. Hún finnur ró og traust í okkar nærveru og það sjá allir og finna sem koma að umönnun hennar. Við Harpa höfum fundið fyrir ýmiskonar streytu einkennunm, sem ég persónulega hélt í eina tíð að væru húmbúkk og kjaftæði, en hef nú sjálfur upplifað sterkt og höfum við komið okkur ágætlega í gegnum það. Batnandi mönnum er best að lifa. Það hefur reyndar varla liðið sá dagur frá fæðingu Matthildar að ég hafi ekki lært eitthvað nýtt, svo það er vel.

Í öllu þessu róti og umstangi hef ég þó unnið músíktengda vinnu, spilað tónleika og undirbúið og skipulagt annað, þar á meðal fyrstu opinberu tónleika Hörpu sem Jazz/popp söngkona ásamt mínu eigin jazz projecti, "Baad Roots", titlað eftir einu af mínum eigin hugverkum. Ég náði góðu sambandi við verta hér í bæ sem vill hafa live tónlist hjá sér einu sinni í viku, alltaf á þriðjudögum og hef ég verið tvisvar sinnum með tónlist hjá honum. Bókaði gigg fyrir Hörpu sem "the girl at the piano" í Júni og mitt eigið "Baad Roots" á morgun 25.05. Æfingar hafa staðið yfir hjá okkur Hörpu undanfarið og ætluðum við svoleiðis að "kick some ass" með gæðum og góðu prógrammi og ætluðum við að vera vel undirbúin fyrir fullkomna tónleika. En þá kom sumarið, helvítis sumarið. Vertinn minn afbókar alla tónlist fram til haustsins, fram í lok september ! vegna veðurs, segir sumarið vera komið og enginn vilji hanga inni og hlusta á live músík... I guess he´s right.. En fræinu hefur verið sáð, falslega fyrst um sinn en sáð engu að síður.

Projectin "Baad Roots" og "the girl at the piano" eru rótföst og seig, nú verður ekki hætt við með hálfnað verk. Ég og Dominik (B.R.) ætlum að taka upp demó með lögunum mínum sem ég ætlað að nota í markaðsvinnu, mér verður ekki haggað. Eins hefur Harpa unnið heilmikið af nýju efni eftir Óla (Groundfloor) sem hljómar mjög vel og á fyllilega rétt á sér í músíkmenninguna hér. Hvar eða hvenær við komum fram er auðvitað óráðið enn, þar sem sumarið kom bara í dag og kollvarpaði tilveru okkar. En við ætlum, viljum og gerum.

Með viljann að vopni komum við okkur í gegnum erfiðleika Matthildar, eins og skyndiárás sumarsins !

Þar til næst. Halli.

mánudagur, maí 17, 2010

Veturinn er kominn, .. ans...

Hæ, mér er drullu kalt og sit hér í ullarpeysu, ullarsokkum og í rauðum dúnskóm frá Hörpu, með rauðann nefbrodd og rjúkandi kaffi. Nei, ég er ekki í helgarferð á norðurheimskautinu heldur heima hjá mér, ansk... brr.

Harpa átti afmæli í gær og naut hún þess mjög, þetta var meira að segja stórafmæli því hún skellti sér á 30 stöffið og uppskar vel. Gestir komu færandi hendi, gjafir og kökur á Schwarzstrasse, meðan við Matta nutum lífsins á spítalanum. Eftir að Matthildur var búinn að koma sér þægilega fyrir í rúminu sínu með dúnsængina og með fullann maga af ylmandi þurrmjólk, kyssti ég hana bless og hvarf á braut. Hitti síðan Hörpu (30) heima og við skelltum okkur út að borða. Áttum yndislegt kvöld, með barnapíjur heima, með Halldóru Björgu, og Matthildur í sælum svefni. Eftir matinn röltum við okkur síðan í hátíðarklæðnaði á spítalann og ég kyssti Möttu góða nótt og Harpa tók vaktina, enda afmælisdagurinn búinn og við tók "venjulegt" líf.

Í gærkvöldi voru haldnir söngtónleikar í félagsheimilinu á Hvammstanga, til stuðnings okkur fjölskyldunni vegna veikinda Matthildar. Hún verður örugglega glöð að heyra það seinna hvernig fólk á öllum aldri tók sig saman og söng fyrir hana án þess nokkurn tíma að hafa séð hana. Við hlökkum (ég hlakka, mér hlakkar, þér hlakkar, við hlakkar, véð hlukkum, véð hlykkjumst, .. hvernig var þetta nú aftur rétt?..) mjög til þess að segja henni af öllu sem fólk hefur gert, gefið og sagt í sambandi við hana. Einnig verður það okkur kært þegar við loksins getum komið með hana í "heimahagann", rölt með hana smjattandi á túttu í kaupfélagið, kíkt með hana í Bardúsu, útí Hrútey eða niður á klappirnar í Blöndu og sýnt henni ykkur, þetta sterka, samheldna samfélag sem hún á ættir í að rekja. Ykkar stuðningur hefur haft svo mannbætandi áhrif á okkur öll og ég segi það nú hátt og skýrt að fólk er yfirleitt gott í eðli sínu og velþenkjandi, þó það gleymist stundum í amstri dagsins. Þetta er lærdómur okkar af reynslu síðustu mánuða og verður megininntak í uppeldi Matthildar í framtíðinni.

Lengi lifi íslendingar, lengi lifi Húnvetningar og nærsveitamenn, Lengi lifi stórsöngvara framtíðarinnar úr leikskólanum Ásgarði og Lengi lifi Matthildur ! Kv Halli.