Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Það hríðar og hríðar !

Jibb, þegar ég steig út úr bílnum sem skilaði mér heim, heyrði ég kunnulegt, næstum sér íslenskt hljóð undan skónum. Nýfallni hvíti snjórinn þjappaðist svo skemmtilega í skófar mitt, svo að söng í og varð síðan eftir í formi fullkomlega mótaðs skófar í snjónum. Mér leið vel að hlusta eftir brakinu á leið minni niður götuna marrinu sem ég uppgötvaði, að ég hef saknað svo sáran frá því við fluttum hingað út.
En lítill er leiðinn í dag. Síminn hryngdi í gær og ég beðinn að hunskast í vinnu ef ég gæti haft mig á fætur, því nú væri allt brjálað að gera og þyrfti að klárast í dag ! Oh, hvað mér fannst þetta kunnuleg setning, "klárast í dag" það er sjaldan að maður tekur svona hreiting fagnandi en ég gerði það og mætti galvaskur til vinnu í dag. Þar var mér sagt að það væri allt brjálað og liti jafnvel út að ég hefði vinnu alveg út vikuna ! Ég brosti mínu breiðasta, fór til Linz og málaði þar í hæglæti mínu í dag.

Svörunum svoleiðis hríðaði yfir okkur, við fengum svar úr atvinnuleit Hörpu fyrir sumarið og var henni boðið í viðtal, hellti þar yfir sig kaffi og sullaði síðan aðeins meira í því, sagði af sér í stuttu máli og var svo vinsamlegast beðin að fara... hljómar illa, en er víst staðalbúnaður í atvinnuviðtölum og hún er mjög bjartsýn með djobbið. Við fengum svar úr fínansamt sem sagði að við þyrftum að skila enn fleiri gögnum ... kom á óvart ... svo við bara skilum meiri gögnum. í deyfð minni og fjárþörf sendi ég nokkra emaila og er kominn í annað starfandi band, þau spila reglulega og gæti farið svo að ég verði með fast gigg í Munchen næstu mánuðina, það er allavega spennandi.

Við höfum heldur betur svör frá leigendum og leigusölum svo ekki stendur á neinu hér eftir ... öh, nema kannski að fólk standi við þau svör sem þau gefa svörin sem maður hefur beðið eftir svo lengi og eru loksins gefin, en það telst til ítrustu frekju og yfirleitt til einskærrar slembilukku ef svo illa hendir austurrískan viðmælanda manns að hann "óvart" standi við orð sín fyrir einhverja gleymsku eða rælni. En þetta er ekkert grenjubloog, við biðum eftir ýmsu í síðast bloggi sem er afgreitt og þetta er jú landið sem við viljum búa í, stjórnkerfið sem við viljum búa við og fólkið sem við viljum búa með.

Við erum kát og ánægð og Halldóra Björg er komin með fyrstu lausu tönnina, rosaleg spenna sem fylgir því. Vonandi verður hún ekki eins og ég sem neitaði því að nokkur ég þar með talinn væri að væflast í lausu tönnunum, ekkert að vera jagast í þessu og hreyfa. Það endaði þannig að ég ver drifinn á tannlæknastofu þar sem 4 strórar og fallegar barnatennur voru fjarlægðar þar sem þær voru fyrir hinum sem voru að koma. Það þarf ekkert að orðlengja það en það steinleið yfir mig þegar ég stóð upp úr stólnum og lét tunguna renna ofan í holur í tannröðinni, það var mér um megn.

Groundfloor er búin að bóka fyrsta giggið í 5-8 tónleika röð sem stefnt er á að fara í lok Júni. Go Groundfloor ! Platan heldur áfram að seljast gimmt og nú eru menn farnir að tala um að framleiða fleiri eintök fyrir Musikladen Salzburg.

Jatla skella inn nokkrum nýjum myndum, njótið vel Halli.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Við bíðum og bíðum ... bíðið við, nú er eitthvað að gerast ...

Nei, við bíðum enn. Við Harpa erum í um margt skemmtilegri biðstöðu núna. Við að sjálfsögðu bíðum helgarinnar í ofvæni eins og allir aðrir sem upplifa helgardaga sem frídaga en ég er enn að bíða eftir svari úr vinnunni minni hvenær ég eigi að koma aftur til vinnu og bíð því helgarinnar bara vegna þess að um helgar gerist yfirleitt eitthvað skemmtilegt. En við erum sem sagt líka að bíða eftir svari frá leigusalanum okkar um það hversu langan uppsagnarfrest við höfum, hvort við getum flutt fyrr inn í nýju íbúðina en eftir 3 mán, og þar af leiðandi bíðum við í spennt eftir að geta sagt tilvonandi leigusalanum okkar hvenær við myndum vilja flytja inn. Erum sem sagt að bíða eftir að geta flutt. En það eru fleiri að bíða eftir svari vinnuveitanda heldur en ég, Harpa komst í samband við náunga sem sér um veitinga, diska og bæklingasölu ásamt fleiru á "festspiele" og sótti um vinnu fyrir næsta sumar. Hann svaraði því til að hann myndi svara henni innan fárra daga, hún er enn að bíða. Og á meðan við erum hvorug í vinnu þá eru nú barnabæturnar nauðsynlegur þáttur í innkomu fjölskyldunnar og höfum við þegar sótt um þær og höfum beðið lengi. Fyrir nokkrum dögum hringdum við í finansamt að leyta svara. Þar var okkur sagt að málið væri í vinnslu og við yrðum látin vita innan tveggja - þriggja daga, gott og blessað erum nú þegar búin að bíða í 5 mánuði eftir því og bíðum enn. En svo skemmtilega vildi nú einmitt til að þegar ég fór að endurnýja tryggingarnar á kontrabassanum mínum, breyta og hækka tryggingarfjárhæðina, gat nú þjónustufulltrúinn okkar hjá Vienarstatische engan vegin svarað því sjálfur hvort og hvenær það gengi upp og sagði að hann myndi skrifa mér email upp á það innan fárra daga og enn er ekkert um það komið og ég bíð enn. Og svona til skemmtunar og yndisauka lesenda bloggfærslna þessa þá erum við að sjálfsögðu líka að bíða þess að Mörthu batni pestin svo hún geti farið að kenna aftur áður en febrúar fríið skellur á, sem við erum sjálfsögðu líka að bíða eftir í ofvæni, þá koma mamma og pabbi í heimsókn til okkar og við ætlum á skíði öll saman, ég bara get ekki beðið !!!

Bídd´aeins eru ekki allir hressir? ...
Sjaumst seinna, (þó við þurfum aðeins að bíða þess).

Halli.

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Allt komið á fullt, ... eða þannig

Það byrjaði allt í gær... Harpa er farinn að syngja á fullu og kemur vel undan jólasteikinni. Halldóra Björg á miljandi siglingu í skólagrúbbunni í leikskólanum og ég byrjaði að vinna í gær. Eldferskur og til í slaginn, bretti ég upp á ermarnar og drekkti rúllunni í málningu en var sendur heim vegna verkefnaskorts í lok dagsins ... sjitt, veit ekki hvenær ég fer aftur að vinna.

Ætla aðeins að æfa mig á bassann og reyna að redda einhverjum einkagiggum, mála fyrir fólk og rigga tónleikaum, vonandi gengur það eitthvað.

Nýjar myndir á myndasíðunni.

Chao H.

föstudagur, janúar 02, 2009

Gleðileg jól og ánægjulegt komandi ár.

Þessi póstur er skrifaður frá Hvammstangabrautinni, í blíðuveðri og afslöppun. Hendurnar á mér hanga á borðbrúninni og augun eru löt og nenna varla að horfa yfir skjáinn. Við höfum verið í afbragðsgóðu yfirlæti bæði á á Blönduósi og Hvammstanga, fullt af veisluréttum og víni í bland og belgurinn fullur af góðgæti. Við höfum hitt mikið af skemmtileu fólki, tekið þátt í "jólamúsíka" hjá Kjartani á Síróp og fórum á tólistarskemmtun í félagsheimilinu á Blönduósi til heiðurs Skarphéðni Einars tónlistarskólastjóra. Harpa söng frábæra tónleika með karlakór Hvammstanga, Lóuþrælum og ég lék svaramann í brúðkaupi ársins hjá Gumma og Ollu í Bergstaðarkirkju. Við Halldóra Björg fórum og kíktum á hvítabjörninn sem flutti til Íslands í sumar og heimsóttum við hann á bæjarskriftofurnar. Hún var hress. Allt þetta plús venjubundin hátíðarhöld í tilefni jóla og áramóta.

Við höfum tekið vel af myndum í ferðinni og komum til með að setja inn myndir þegar við komum aftur heim, svo endilega bíðið þolinmóð eftir því. Besti kveðjur og gleðilegt ár.

Halli, Harpa og Halldóra Björg.