Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

laugardagur, maí 31, 2008

Ups and downs eins og alltaf.

Af ups-um og dáns-um er af nógu af taka, en ég ætla mér að láta nægja að minnast á nokkra þeirra. Hitinn hér er búinn að vera rosalegur undanfarna daga sem gerir alla fjölskyldumeðlimi þunga í skapi og snarpa í tilsvörum, ekkert endilega svo gott skap sem fylgir svona rosalegri veðurblíðu. Ég er hins vegar búin að snúa ástandinu mér í hag og hangi inni kaldri íbúðinni að æfa mig, lengur en ella og er því að ná alveg öskrandi framförum, ásamt því að vera að búa til meiri lög og nú er stefnan að reyna að klára tónleika prógram fyrir næsta sumar (2009). Harpa er búin að vera í marathon Töfraflautu æfingum ásamt öðru í skólanum og hefur stundum verið á barmi taugaáfalls við komuna heim að Linzer, svoleiðis eru lætin. En hún er hörð og þegar á móti blæs þá ýtir hún harðar og bítur fastar og mylur niður andstöðuna sem hún mætir og klárar sín verkefni.

Núna í dag var General prufa fyrir fullu húsi í Mozarteum. En við byrjuðum daginn á að fara í pikknikk í Volksgarden. Sátum í svalandi skugganum við vatnið horfðum á endurnar dilla rassinum meðan við mauluðum nestið okkar. Við ímynduðum okkur hvað það væri skemmtilegt að taka þetta upp á video vélina sem ég tók með... en hún var batteríslaus og myndavélin okkar hvergi nærri. Við borðuðum smurt úr bakaríinu á horninu og lékum okkur en það var ekki fyrr en við tókum upp crossantið að stokkandapar, sem við höfðum verið að fylgjast með, tók land við teppið okkar og vaggaði rólega í áttina að okkur. Þau voru um það bil 10 cm frá okkur þegar ég fór að banda þeim frá mér. Maður veit ekkert hvað þessar austurrísku háfjalla endur geta gert bláeygri íslenskri fjölskyldu. En þó ég hafi margt hugsað um endurnar datt mér þetta ekki í hug sem á eftir fór. Ég hafði greinilega gefið í skyn að yfir mig yrði ekki vaðið og færðu þær þá sóknarsvæðið að veikasta meðliminum, hinni fjögurra ára Halldóru Björgu. Hún sat á milli okkar með pínulitla brauðmola sem hún kastaði til þeirra öðru hvoru, en eins og það væri nóg? Ó nei, ó nei, svona fæðubóta endur vilja helst ekkert nema frankfurther pullsur, djúpsteikta kjúklinganagga og smjordeigs crossant. Þær réðust nú til atlögu að teppinu hægramegin við mig, þar sem Harpa sat og baksaði við nestispokann. Við höfðum öll augun á stokkandarsteggnum sem dillaði rassinum og kvaggaði sér, snéri upp á gogginn og dansaði á línu... Á augabragði, þegar við vorum sem dýpst sokkin í dáleiðandi sýningu steggsins, stökk andamamma upp í fang Hörpu, tók fiðurlétt spor, rétt til að teygja og lengja mjúkan hálsinn og festa flötum gogginum í risastórt crossantið sem Halldóra Björg hélt á og hafði rétt tekið einn aggalítinn bita af. Áður en við vissum var parið flúið á haf út og reif á milli sín crossantið. Hann reyndar fékk eiginlega ekki neitt þar sem hún var búin að lofa honum að bera börnin hans og fæða (þið vitið hvað matarlistin eykst og breytist á meðgöngu og karlarnir verða undirgefnir og meirir...) og þurfti þess vegna að borða það allt. Þarna var þetta ljóslifandi, hún hakkaði krossantið í sig meðan svangt barni grét söltum tárum. Eftir að við lentum í þessu fylgdumst við af og til með sakborningunum... (þau átu sönnunargagnið) og sáum að hún var alltaf með rassgatið upp í loft og andlitið á bólakafi að ná í sand á botninn til að éta, vegna greynilegra ofsafenginna meltingatruflana, sem kennir okkur eitt, ... eins og Harpa sagði svo skemmtilega þegar hún skellihló að sandætunni... Þér skulið ekki stela.

Harpa söng "dritte dame" með þvílíkum krafti og offorsi í dag að á tímabili leit út fyrir að verki hefði verið skrifað um þriðju þjónustu stúlku næturdrottningarinnar, sem missti barn sitt í hendur ræningja sem prinsinn Tamino ætti að bjarga frá vondum mönnum, drekum og díflissum. Hún stóð sig mjög vel, gerði það sem gera þurfti eftir miklar æfingar og ves, og söng eins og engill. Ég tók Halldóru Björgu með mér í fyrsta skipti til að sjá mömmu á sviðinu, á óperu, í 3 og hálfan tíma... Ég var alveg viðbúinn því að ég þyrfti kannski að fara heim eftir hlé en hún krafðist þess að fá að sjá alla sýninguna. Sem var í alla staði einstaklega vel heppnuð og skemmtileg, frábær leikstjórn, búningar, tækni trix og söngur, mér fannst eins og allt gengi bara upp... en hvað veit ég svo sem?...

Bestu kveðjur og munið útgáfutónleika Groundfloor á Organ 16 Júlí, frítt inn.

Halli.

laugardagur, maí 17, 2008

Atburðir síðustu daga

Síðustu dagar hafa verið langir og vel bókaðir. Eftir að við komum heim frá Ísl. slöppuðum við af saman í nokkra daga eða þangað til Harpa fór til Þýskalands að tala inn á heimildamynd um ísland. Þarlend kvikmyndagerðar kona er að gera stutta heimildamynd um álfatrú, goðafræði og náttúru vitund íslendinga og hvern annan er þá betra að tala við en okkar helsta sérfræðing í þessum málum, hana Hörpu Þorvaldsdóttur, álfasérfræðing. Hún hafði aflað sér upplýsinga um allt sem að þessum málum snéri og gat svarað öllum spurningum og talað af öryggi þegar dauðarokkari með loðinn míkrafón og Daniella Baumgartner spurðu hana í þaula. Hún kláraði þetta með miklum glæsibrag og kom heim með fullar hendur fjár. Ég skrapp síðan til fjalla að mála á Skihotel Speiereck og drekka smá bjór í leiðinni. Harpa og Halldóra Björg komu svo í smá heimsókn um helgina þegar Harpa var í æfingafríi frá Zauberflute. Ég tók mér smá frí og við nutum veðurblíðunnar og gengum um St.Martin og St.Michael í mikilli ró og næði. Það var æðislegt.

Ég kom síðan heim í gær, á sjálfum afmælisdegi konunnar minnar, og við Halldóra Björg settum allt á fullt í að útbúa og pakka inn gjöfunum fyrir mömmu. Hún að sjálfsögðu kom að okkur þegar við vorum í miðju kafi við að pakka inn og stress, spenna, hróp og köll fylltu annars rólega stemmninguna yfir deginum. Halldóra Björg var svo brjálæðislega stressuð yfir því að mamma kæmi inn í stofuna, "Þú mátt alls ekki koma hér inn, við erum að pakka inn gjöfinni !!!!" öskraði barnið meðan hún lá á hurðinni eins og mamman væri að reyna að ýta henni upp. Þegar ég var svo búinn þá reif hún af mér pakkann náði í Hörpu og tók utan af gjöfinni sjálf, hoppandi af spenningi. Við fengum Öbbu Maríu til að passa og fórum síðan út að borða, á vín kynningu og aðeins út á lífið með íslendingum sem við hittum á vínkynningunni, Perlu og Frey. Þau voru hinn skemmtilegasti félagskapur og nutum við Harpa kvöldsins afar vel. Okkur fannst líka svo gaman að sýna ferðamönnunum borgina okkar sem þau virtust alveg heilluð af.

Núna er laugardagur og sólin skín... Harpa er farin á óperu æfingu og við Halldóra Björg að plana daginn. Ætli við förum ekki bara með nesti á skuggsælan leikvöll og njótum lífsins þar í dag, eða kannski sundlaugargarðinn, hver veit.

Ekki gleyma að kvitta, Bestu kveðjur Halli, Harpa og Halldóra Björg (sem er orðin svo stór...)

fimmtudagur, maí 01, 2008

Örstutt Íslandsför og eitthvað meira...

Hæ allir saman.

Frá því við blogguðum síðast höfum við ferðast víða. Ég fór upp í Lungau til Dodda og Þurý í Skihotel Speiereck að mála og var það kærkomið verkefni, það er alltaf gaman að vinna fyrir þau, þetta er svona "gæluverkefni" mitt hérna úti. Áður en ég náði að klára það sem ég fór til að gera, féll afi Einar frá eftir löng og erfið veikindi, og við fjölskyldan pökkuðum í töskur og drifum okkur til Íslands. Við vorum varla búin að átta okkur á öllu saman þegar við vorum bara lent og komin á Hvammstanga í mat hjá ömmu Lillu. Þaðan héldum við síðan rakleitt á Blönduós til ömmu Erlu og afa Mumma. Þar var allt í ró og spekúleringum eins og fylgir aðstæðum sem þessum, og margt hið skemmtilegasta rifjað upp af lífshlaupi gamla mannsins yfir gömlum myndum sem hann hafði tekið á leiðinni. Við Halldóra Björg ræddum þetta allt saman á leiðinni til Íslands, hver ástæða fararinnar væri, og hún var alveg búin að ákveða að hún vildi hitta hann rétt aðeins áður en hann yrði jarðsettur og kveðja hann með söng. Okkur leist nú ekkert á það en þegar hún vaknaði á laugardagsmorguninn, jarðarfaradaginn og endurtók þetta og spurði hvort hún gæti gert þetta í dag þá ákváðum við að fara til fundar við gamla manninn upp í kirkju. Við fórum þrjú og settumst á fremsta bekk, þar sem kistan stóð og ræddum um þetta allt saman, hversu vel honum liði núna eftir veikindin og hversu vænt um honum þætti nú örugglega að hafa okkur þarna. Á leiðinni út úr kirkjunni tók sú stutta að söngla frumsamið prinsessulag í lágum og mjúkum rómi. Ástæðan fyrir því að talað er svona lágt í kirkjum er að sálir heyra svo rosalega vel og því er hvísl og lágvær söngur nóg. Í jarðarförinni flutti ég mitt fyrsta frumsamda jazzlag honum til heiðurs og gagngert skrifað til hans. Ópusinn "Portait" var fluttur af trompet og flugelhorn leikaranum Ara Braga Kárasyni og mér á kontrabassa. Flutningurinn tókst afar vel og er ég þess viss um að þetta hefði hann viljað heyra sjálfur. Afi studdi mig ávallt í tónlistar brasinu og ræddum við oft um tónlist og hann sagði einnig oft við mig að bassinn væri aðal málið, þyrfti að vera hár og góður. Stundum söng hann líka með bassanum "bomm, bomm," þegar hann var að leyfa mér að heyra eitthvað sem hinum fannst æðislegt. Hann var kátur karl.

Tíminn var naumur sem við höfðum í þessari ferð og engar heimsóknir eða hittingur planaður. Við rétt náðum að hitta Skúla frænda og Höllu og fjölskyldurnar rétt áður en við þustum upp í vél áleiðis til Salzburgar aftur. Við komumst að lokum, eftir 7 kl.tíma bið á Stansted eftir flugi, áfram til Salzburg. Þegar við komum tók svo vorið hlýja og sæta á móti okkur. Ylmandi nýbrums lyktin út um allt og unglingar sötrandi bjór við árbakkann. Unglingar drekka á fleiri bökkum bjór en í bláa húsinu "Við Árbakkann" á Blönduósi og þegar ég sé þessa krakka með kassagítarinn og kassa af bjór í grasinu við iðandi ána get ég ekki annað en hugsað heim í bláa húsið hennar mömmu.

Nú er allt komið aftur í réttan farveg og ég á leið upp í Speiereck aftur eftir viku, þessum pistli fylgja nýjar myndir á myndasíðunni.

Þar til næst, chao. H.