Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

þriðjudagur, september 18, 2007

Gestir fra Herlev og operuferð til Vinar.

Við fengum mjög skemmtilega heimsókn frá Danmörku í síðustu viku. Doddi, Valgerður og Sylvía komu með góða skapið og gubbuna. Ég var að vinna á daginn sem var pínu fúlt en hitti þau svo á kvöldin í góðu yfirlæti Hörpu minnar og var það rosa næs, alltaf heitur ylmandi matur, allir kátir. Stelpurnar litlu náðu rosalega vel saman og áttu mörg frábær móment. Við Doddi notuðum kvöldin saman til drykkju eins og gengur (soleiðis gera strákar sko) og röltum í regninu. Eitt kvöldið enduðum við uppá fjalli, hérna beint fyrir ofan Linzergasse og annað kvöldið á Jazzklúbbnum mínum þar sem við heyrðum eiginlega ekki neitt fyrir skvaldri og glasa glamri og enduðum bara á hinu margrómaða "Shakespeare" listakaffi. En það var einmitt þar sem hinn þaulreyndi atvinnumálari fékk hreinlega gubbupest af litavali staðarhaldara og náði sér ekki fyrr en nokkrum dögum seinna, ældi alla nóttina. Ég hins vegar er orðinn ónæmari fyrir þessum hörmulega innanhúslita stíl og slapp við veikina. Á fimmtudegi voru frídagar þeirra taldir hér í Salzburg og þurftu þau frá að hverfa til vinnu og venjulegs lífs í Herlev. Á sama degi mætti ég til vinnu um morguninn í Hallein, (hálftíma fyrir utan Salzburg) og var rakleiðis sendur til Vínar að vinna í einn dag, en þangað eru 4 klukkutímar í keyrslu frá Hallein. Skemmtileg tilviljun því við Harpa vorum einmitt á leiðinni þangað um helgina að endurnýja góð kynni okkar af borginni frá 2002, til að á fara á óperusýningu.
Óperuferðin
Sunnudagurinn vakti okkur snemma, kirkjuklukkurnar lömdu bjölluhljómnum ákveðið í hlustir okkar, við spruttum á fætur og Guðrún vinkona kom til að taka við Halldóru Björgu í tvo daga. Við fórum í lest til Vínar og á ágætt hótel í úthverfi Vínar, síðan fórum við á Japanskan veitingastað klukkan fimm og tókum svona "wild ride" á matseðlinum sem var rosalega skemmtilegt. Við smellhittum á veitingastað rétt við torgið kringum Staatsoper, þjónustan var frábær og maturinn líka. Við fengum Miso súpur, skrítinn fisk, andakjöt, steiktan þara, sushi og tofu. Ég get mælt með öllu sem við fengum nema ... Ígulkerja súshjí... það er svona brún búðíngsleðja sem vafið er inn í nori blað, þjónninn sagði að japanir trúðu því að það hjálpaði til við kynlífið... Allt svona skrítið á að hjálpa til við kynlífið í japan, það er ekki eins og þessir japanir þurfi neina hjálp í því, rosa fjölgun alltaf þar. Ekki mælum við heldur með rauðu risahrognunum sem voru líka vafin í Nori blöð og eitt hrogn var eins og ein lýsis perla og nákvæmlega eins á bragðið, allt annað frábært. Við að sjálfsögðu þurftum að hlaupa á óperuna alveg við það að verða of sein. Við höfðum 8 mínútur að finna sætið sem er fínn tími fyrir sætisleit í bíóinu á Blönduósi en í Staatsoper í Vín í fyrsta skipti telst það stuttur tími eiginlega ógjörningur. En með okkar einstöku lagni, hlaupum og stressi tókst okkur að komast í frábæru sætin okkar á fjórðu hæð, fremst á svölum, beint gegnt sviðinu. Sýningin byrjaði þegar við settumst, keyptum ekki litla gullna óperu kíkinn fyrr en í fyrsta hléi. Sýningin var "Werther" eftir Jules Massenet og var mín fyrsta óperusýning, Þetta var STÓRKOSTLEGT, algerlega frábær upplifun og segi ég það núna að ég er opinberlega orðinn áhugamaður um óperur og óperusýningar. Þetta er algerlega ólýsanleg upplifun líkt og þegar maður fer á Napalm death í stuttbuxum og gleymir sér. Ólýsanlegt.
Núna erum við að fá nýja gesti, Haukur og Rannveig koma í kvöld og við hlökkum mikið til, alveg brjálað plan framundan...

Nyjar myndir á myndasíðunni.

Bæjó.

laugardagur, september 08, 2007

enn rignir og rett að koma gestir.

Já, hér er allt að flæða yfir og Salzach rennur hér í gegn á fullum krafti, rífur með sér tré og gras og alls kyns drasl og fleytir niður til sjávar. Það er óneytanlega mikilfengleg sjón að sjá svo vatnsmikið fljót, allt mórautt og grátt þjóta framhjá með skvettum, öldugangi og hávaða, sem venjulega hríslast framhjá með þægilegu gutlandi hljóði, blágrænt og rólegt. Hér eru vatnskaða fréttir í útvarpinu og vegum lokað hingað og þangað um Austurríki. Vonandi fer þessu vatnsveðri að linna þar sem Sylvía, Doddi og Valgerður ætla að koma á mánudaginn, það verður stuð.

Við fórum í Europark eða HELLpark eins og við köllum það í dag. Ég fór að reyna að finna einhverja skjíðajakka á "inventurabverkauf" lagerútsölu sem ég gæti keypt mér fyrir allann peninginn sem ég fékk í þrítugsammælisgjöf frá fólkinu mínu á ísl. Ég fann ekkert, síðan fórum við í IKEA að kaupa stóla fyrir gestina og eitthvað meira drasl, þið vitið öll hvernig þessar IKEA ferðir enda. Á að kaupa eitthvað eitt (sem yfirleitt er ekki til en væntanlegt) og endað á að kaupa allskonar dót sem er algerlega nauðsynlegt og á alveg ótrúlega góðu sænsku verði, sjitt hvað maður lætur alltaf plata sig. Eftir þetta ákváðum við að dröslast aftur í HELLpark til að fá okkur að borða, ég valdi hinn austurríska Rashhofer´s eða eitthvað svoleiðis. Dauðsvöng og pirruð fórum við og fengum okkur sæti innan um sísvælandi, sítt að aftan, yfirvaraskeggs almúgafólk og ég pantaði mér BJÓR og NAUTASTEIK. Steikin kemur á borðið eftir 1-2 mínútur (tímann sem það tekur að ganga frá borðinu, inn í eldhús og til baka) þó það væri brjálað að gera, sneitt, grátt, rennblautt og bragðlaust. Sem sagt soðið í potti í sneiðum og veitt upp úr við hverja pöntun með gataausu.
Þó diskurinn flyti í vatni þvældi ég mér í gegnum matinn (þetta var nú steik) með fullt af salti og pipar, því það var bara soðið, ekkert bragð. Þegar ég var spurður hvernig smakkaðist, sagði ég að það hafi ekki verið neitt sérstaklega gott og afþakkaði boð um eitthvað annað af matseðlinum og nennti engu veseni, enda búinn með megnið af matnum. Eftir um hálfan bjór, tók ég að stara ofan í hann eins og einmana róni á Manhattan í mynd eftir Woddy Allen og hvað er þetta? .... eridda .. ? ... ha? .. Dsjíses, Harpa sjáðudda ! ... þetta er ótrúlegt. Harpa leit ofan í brjórglasið mitt og starði lengi ... hvað ... dsjíses er þetta eldspíta? "já" sagði ég "brunnin eldspíta" Glæsilegt! nú var hungrið farið fyrir ógleði af soðnu nautakjöti og bjórþorstinn farinn fyrir lífrænt ræktaðan eplasafa eða bara kranavatnslöngun, mikill djöfulsins bömmer. Ég kallaði á þjóninn og sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem ég sæji bjórinn borinn svona fram og spurði hvort þetta væri venjan og heimtaði "angebot" (tilboð, kannski ekki nógu gott orð). Hann sagði þetta ekki venju og baðst ofboðslega afsökunar og þegar við gerðum upp sá ég að ég fékk bjórinn OG eldspítuna fría. Mér fannst í raun eins og mér hefði verið misþyrmt eða niðurlægður og vildi bara komast út. Því borgaði ég bara og rauk út í rigninguna meðan stelpurnar fóru aðeins meira að versla.

Eftir þetta gat ég bara ekki verið neinsstaðar inni, mér leið eins og soðið nautakjöt og eldspíta í bjór, svo ég ákvað að fara til Þýskalands í innkaupaferð. Við fórum til Freilassing (15-20 mín í strætó) og gerðum innkaup. Þar komumst við að því að í Þýskalandi kostar allt um það bil eina evru og oftast verðsett í sentum !! kippan kostar meira að segja svipað og bjórinn hér. (Alltaf er maður að græða) Við keyptum rosalega inn fyrir vikuna og ákváðum að þetta þyrfti að vera gert tvisvar í mánuði, allavega, þvílíkur var sparnaðurinn.

Nú erum við komin heim og vorum að spæna í okkur bestu fiskisúpu sem hvort okkar hefur smakkað, hún var æði. Ég hef bæði náð bragðinu, og lyktinni úr vitum mínum af þessari soðnu nautasteik sem jafnvel SuðuSigfús hefði fúlsað við og er allur að komast í rétt lag. Takk fyrir lesturinn og látið vita hver þið erum, okkur finnst það svo gaman. Sí ja.

Soðin nautalund með koltvíoxíðs brunabragðs, nýbrugguðum bjór í reykmettuðu, röku og svitafýlu andrúmslofti.

miðvikudagur, september 05, 2007

Rigning, rigning og svo meiri rigning...

Já það er óhætt að segja að það sé blautt í Salzburg þessa dagana. Það rignir stöðugt og það ekkert smá. Ég held svei mér þá að það sé komið haust því að ég sá fyrsta snjóinn í fjöllunum í gær. Já já maður stjórnar þessu víst ekki þó svo ég væri alveg til í að hafa sumarið aðeins lengur...
Nóg um veðrið þó að ég sé góð í þeirri umræðu... :)
Nú er Halli kominn heim frá Lungau og er farinn að vinna fyrir fyrirtækið hér í Salzburg. Hann varð nú bara frekar hissa fyrsta vinnudaginn sinn eftir dágott hlé ( tveggja mánaða hlé ). Fólkið var svo ánægt að sjá hann að þau flissuðu bara og töluðu ekki um annað en hvað væri frábært að hann væri kominn aftur. Ég held að hann hafi bara farið hjá sér :) Annars er hann að vinna ansi mikið núna en er búinn að semja um fjögurra daga vinnuviku þ.e.a.s frí á mánudögum þar sem hann getur tekið bassatíma og þýskutíma. Hann er kominn með bassakennara sem er einn besti jazz bassaleikarinn á þessu svæði þannig að þetta lítur allt saman vel út fyrir minn mann. Það ískrar í honum af tilhlökkun... :)
Giggið mitt 1. september gekk bara alveg ágætlega. Þeir sem þekkja mig geta ímyndað sér að ég var ferlega nervus að hitta þetta lið sem var að spila og syngja með mér því að það var einungis æft klukkutíma fyrir flutning og rennt einu sinni fyrir hvert verk. Auðvitað varð þetta svo allt í lagi og alveg hreint hrikalega gaman að syngja með svo góðu fólki. Hljóðfæraleikararnir voru meðlimir úr Mozarteum Orchestra þannig að þetta var ekkert slor. Núna er ég bara að undirbúa komu gestanna hingað í rigninguna ( vona reyndar að hlé verði gert á rigningu ). Hlakka til að fá alla hingað en það verður margt um manninn í september á Linzergasse. Doddi, Valgerður og Sylvía ríða á vaðið og koma 10. sept og verða í fjóra daga. Eftir það skellum við hjónakornin okkur á óperusýningu í Vín og þegar við komum aftur mæta Haukur og Rannveig og svo þegar þau fara koma mæðgurnar Júlía og Elísabet. Okkur finnst gott að hafa gesti :)
Eftir gestatörn byrja ég svo í skólanum og þá er víst ekkert gefið eftir því að ég er svo heppin að hafa verið valin í að syngja aðalhlutverkið, í óperunni Dido og Aeneas eftir Purcell, í óperudeildinni í skólanum í vetur. Mér skilst að æfingar hefjist strax í október þannig að þá þýðir ekkert slór.
Halldóra Björg er alltaf bara eins og prinsessa blessað barnið :) Það gengur allt mjög vel hjá henni í leikskólanum, farin að skrifa nokkra stafi og svo stefni ég á að setja hana í barnakór núna þegar starfið byrjar aftur :) Það verður nú að segjast eins og er að blessað barnið hefur ekki mikið lag en það vonandi kemur... :)

Jæja þetta er nóg raus í bili frá húsfreyjunni
Bið að heilsa

Harpa