Sönglað í Salz

Hér munu merkar og ómerkar fréttir sem og hugleiðingar líta dagsins ljós frá fjölskyldunni í Salzburg

föstudagur, desember 29, 2006

Jolin okkar i Austurriki.

Vooáh !! Þetta er alveg búið ð vera frábært yfir jólin, þó þau séu hvergi nærri búin, þá verðum við að blogga núna. Annars er hætta á að allt fljóti yfir í einu heildarbloggi eftir jól. Án fjölskyldunnar okkar urðum við að hafa nóg um að vera til að hafa ekki tíma til að hugsa um söknuðinn. Auðvitað á maður að vera með ættingjum og vinum um jólin. En ef það er ekki hægt, þá er bara að reyna hugsa ekki um það. Aðfangadagur byrjaði á austurrísku Jausen hlaðborði í hádeginu. Speck, kjötpylsur ýmiskonar, ostar, svartzbrot, gluhvein og auðvitað harðfiskur, ekki mjög austurrískur en passaði vel inní salta og reykta kjötið. Þetta stóð á borði eiginlega alveg þar til forréttur að aðfangadagsmáltíðinni var borin fram. Gæsalifrarkæfa frá Amsterdam, brauð og sulta, algert lostæti. Síðan fengum við okkur hjartarsteik með sætu grænmeti, sætum kartöflum, sósu og salati. Allt heppnaðist afar vel og vil ég hér með þakka þessum frábæru kokkum sem sáu um matseldina, Takk fyrir. Eftirrétturinn var alveg rosalega góð súkkulaði mússh með kaffi. (Þetta hefði kannski frekar átt að vera á bloggsíðu matarklúbbsins Matskák, en við getum ekki lengur bloggað þar, og færist því allt matartal hingað á meðan). Pakkarnir voru síðan opnaðir við mikinn hamagang, og Lilla, Valdi, Halla, Baldur og börn fylgdu okkur á skæpinu á meðan í sömu gjörðum. Það var einstaklega skemmtilegt að prufa það svona saman. Síðan var hringt í fleiri á skæpinu og undir miðnætti var búið að margræða við alla. Á jóladag fórum við til Dario (undirleikara Hörpu) í jólaboð. Eftir frábæran dag í sveitinni, í mikilli ró komum við heim á Linzergasse og bárum fram jólahangikjötið með uppstúf og heimatilbúnu laufabrauði, af fjölskyldu húsfrúarinnar á íslandi og kunnum við þeim kærar þakkir. Mmh, mmh kjötið var algerlega frábært og stúfurinn og brauðið líka en allir voru sammála um að maltið og appelsínið vantaði nauðsynlega í þessa annars góðu jólamáltíð. Á annan í jólum tókum við okkur til fyrir skíðaferðina, og héldum á leið seinni partinn. Þegar við komum var austurrísk þjóðlagasveit að koma sér fyrir og við skelltum okkur á ball fjölskyldan, Halldóra Björg var afar kát með bandið. Doddi (vertinn á Hotel Speiereck) spilaði með á slagverk og greip svo seinna í nikkuna og allir skemmtu sér vel. Daginn eftir var Halldóra Björg skráð á skíðanámskeið í 2 tíma á meðan ég tók Hörpu í einkakennslu. Þegar við komum aftur vildi Halldóra Björg alls ekki koma með okkur heldur bara vera lengur hjá Alex skíðakennaranum sínum og krökkunum. Við tókum hana með okkur upp í fjall að borða og síðan skíðuðum við öll niður. Brautin var löng og mjög brött á köflum, við þeystumst áfram og Halldóra Björg hrópaði bara "áfram, áfram, hraðar, hraðar !" Eftir skíðadaginn steinsofnaði H.B.H og við fylgdum á eftir. Við spiluðum svo tónleika um kvöldið sem gengu bara vel, fólkið ánægt og við þokkalega líka. Næsti dagur var líka mikill skíðadagur. Námskeið og rembingur, nú var ekkert verið að hlífa sér eitthvað, bara á fulla ferð. Harpa stóð sig rosa vel og undir lok dagsins var gamli plógurinn settur í geymslu og skvísan skutlaði sér fimlega um staurinn hvar sem hún stakk honum niður með skransi og svettum. Halldóra Björg hins vegar sofnaði vært eftir erfiðan dag í lyftunni á leiðinni niður og ældi svo þegar hún kom heim, alveg búin. Lokadagurinn var svo í dag og litla skíðastelpan tók þátt í sínu fyrsta skíðamóti á erlendri grundu, til hamingju. En hún keyrði út úr brautinni í mjög svo erfiðri beygju, einu beygjunni .. brautin var reyndar í örlitlum boga, svona 3 meta löng. Hún lenti í 7 unda sæti af 8 því hinn keppandinn keyrði líka útaf í beygjunni og fór að grenja og kom sér ekki í gegnum hliðið. Við hættum öll útiverunni í dag um hádegi og gerðum okkur tilbúin til heimferðar. Nú erum við komin heim á Linzergasse og erum að fara fá okkur jólapitzuna, hjá skrítna ítalanum í götunni okkar. Júlía, Kjartan og Þórhildur Vala koma á morgun og verða í nokkra daga, hér þarf að gera allt tilbúið fyrir næstu heimsókn og áramótin. Myndir frá jólunum og skíðaferðinni á MYNDASÍÐU. Gleðilegt nýtt ár allir sem þetta lesa og verið' duglega að kommenta. Sí jaaa. Hallskí, Harpsícord og skíðastelpan.

mánudagur, desember 25, 2006

Gleðileg jol og farsælt komandi ar til allra nær og fjær...

Frá fjölskyldunni í Salzburg

föstudagur, desember 22, 2006

Leitin að dularfulla jolapakkanum ..

Við fórum í Europark í morgun, eða eins og við köllum staðinn svona rétt fyrir jól "hellpark", til að kaupa það sem við þurftum fyrir jólamáltíðirnar komandi. Meðan við nutum lífsins í öskrandi mannhafinu, þar sem kerrur skullu saman og fólk ýtti við hvort öðru við kókkælinn, kom DHL sendill að Linzergasse. Við vorum ekki heima til að taka á móti svo sendillinn skildi eftir miða á bjöllunni. Mjög dularfullur miði sem á var letrað, (lausleg þýðing) kom hér klukkan 10 og enginn var heima, fór aftur 10.03 og er með pakkann. kem aftur 27 des, púnktur. En þar sem við verðum ekki heima þá upphófst ráðabrugg og skipulagning verkefnis sem miðaði að því að finna pakkann. Harpa hryngdi í DHL og fékk þær upplýsingar að pakkinn væri frá Danmörku og væri mjög dularfullur. Við fylltumst forvitni og áhuga um pakkann. Hann yrðum við að finna. Eftir allnokkurt málþóf og þýðingar komumst við að því að pakkinn væri staddur í vöruhúsi DHL í Anthering. Anthering er dularfullt þorp langt utan við Salzburg, sem einungis er hægt að komast í, í lest, bíl, hjóli eða fótgangandi, við ákváðum að taka lestina. Við náðum í Halldóru Björgu á leikskólann og tókum hana með okkur ef við skildum ekki koma til baka. Við stoppuðum í Anthering og fórum út úr lestinni. Þar var ekkert nema gras, grænt gras og strákur sem við spurðum um höfuðstöðvar DHL .. engar höfuðstövar hér .. svaraði hann. Það runnu á okkur tvær grímur. Engar höfuðstöðvar DHL= enginn jólapakki= enginn jól í Salzburg= enginn jól á Linzergasse. Hann sagði samt að hann héldi að hann vissi um höfuðstöðvar DHL í næsta þorpi, 5 km í burtu. Við gengum af stað með kerru og nefin rauð. Lengi gengum við og fundum allskopnar hluti, dýr og staði á leiðinni. En svo rákumst við á tvo merkta bíla DHL bak við hús, falda milli trjáa, yfirgefna. Við gengum nær og uppgötvuðum að við vorum bak við stórt dularfullt hús merkt D.H.L ! Hurðin var læst ! ekki nokkur maður sjánlegur inni, .. fyrir skyggðum rúðunum. Á miða stóð, "notið næstu dyr". Við gengum inn og Harpa hvarf inn um dularfulla hurð sem féll svo þétt að stöfum að maður hætti að heyra sinn eigin hjartslátt, einangrunin var svo góð. Eftir langan tíma, í algerri þögn kom Harpa út, með .. ekkert, engann pakka. dularfulli pakkinn var EKKI í húsinu, hann var í bíl .. einhverstaðar .. á leið .. EITTHVERT ! Fjölskyldan ákvað að fara tómhennt heim því það nálgaðist ljósaskiptin ... THE TWILIGHT ZONE en það er einmitt tíminn sem einhver hverfur í dularfullum bæjum. Kannski yrði það eitthvert okkar, kannski yrði það danski jólapakkinn, kannski yrði það Klaus Kircher, kontrabassakennari sem býr einmitt í Anthering. En kjarkur okkar leyfði okkur ekki að bíða þess og við hröðuðum okkur á enn dularfyllri lestarstoppistöð, sem leit út fyrir að hafa ekki verið notuð um háa herrans tíð, .. þó við hefðum farið um hana fyrr í ferðinni. Eftir nokkra bið í kuldanum á stoppistöðinni, kom lestin okkar og við hoppuðum upp í og eftir að hún tók af stað helltust þau yfir, LJÓSASKIPTIN. Við sluppum heim á lífi og öll með hvort annað en engann danskan jólapakka. Myndir úr ferðinni á myndasíðu. GLEÐILEG JÓL HVAR SEM ÞIÐ ÖLL ERUÐ Í HEIMINUM OG VARIÐ YKKUR Á DHL OG .... LJÓSAKIPTUNUM.

sunnudagur, desember 17, 2006

3 ara afmæli og jolaundirbuningur.

Halldóra Björg hélt upp á afmælið sitt á miðvikudaginn síðasta. Hún ákvað að hafa það í fyrra fallinu til að geta boðið öllum íslensku vinum sínum í afmælið áður en þeir fóru til íslands. Hún byrjaði áður en hún fór í leikskólann að taka upp einn pakka. Fyrir valinu varð pakki frá Höllu frænku og có, rosaflottur pæjukjóll sem hún klæddist fyrir skólann, hún var rosa glöð með að geta farið í nyjum kjól að hitta krakkana. Síðan þegar heim var komið tók næsti pakki við, puttavetlingar með allskonar köllum á og buxur og bolur frá afa og ömmu og Arnari frænda Blönduósi, meira pæjudót og var afar glöð með það. Síðan tók eitt við af öðru og hún fékk Baby born frá ömmu og afa Hvammstanga, bökunardót og svuntu frá systrunum Hraunbæ, og prinsessubók frá Kópavogsbræðrum og margt fleira. Hún er svo mikið heilluð af öllu prinsessudóti núna og heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjálf prinsessa. Harpa hrærði í allveg rosalega fína veislu og allir komu sem gátu. Vinkonurnar Halldóra Björg, Lilja og Anna Birna léku sér voða vel saman og borðuðu nammi, alveg eins og gott barnaafmæli á að vera. Gestirnir héldu áfram að koma langt fram á kvöld og sumir bara neituðu alfarið að fara fyrr en langt var liðið nætur. Einn gesturinn kom kl. 4 og fór um miðnættið, þá var líka allur maturinn búinn og allir farnir. (hí, hí, alltaf gaman að stríða) Nei, nei þetta var ógisslega skemmtilegt og vel heppnað, það er gott að nota börnin til að koma öllum saman það gerist ekki það oft en er alltaf jafn gaman. Á föstudaginn kom svo aðalafmælisdagurinn og kveðjurnar streymdu inn, Halldóra Björg og fjölskylda þakkar kærlega hugaheilar afmæliskveðjur á hátíðardaginn sjálfan þann 13 og kveðjur á afmælisdaginn sjálfan þann 15. Um helgina var svo tekið til við að mála tóma íbúðina þeirra Þórunnar og Hlöðvers, góðvina okkar sem eru eigi hér með okkur lengur, .. við vinnu mína í íbúðinni fann ég hvernig minningarnar streymdu inn í huga minn, .. hvítvín, bjór og kjaftæði, Lasagna og snitzelát á gansanum góða, .. en þau eru nú farin.. og búin að skila íbúðinni, .. flutt á brott til annars lands langt í burtu, .. bless, bless kæru vinir... Mitt í þessu öllu, þá fórum við fjölskyldan og keyptum jólatré og skreyttum. Nú er allt heldur betur að detta í jólagírinn hér þó enn sé alveg snjólaust og frekar slepjulegt og blautt á að líta. Í dag fórum við svo á jólamarkaðinn í Shcloss Hellbrunn og höfðum gaman af, þó stígvél hefðu henntað betur í labbið og slabbið þar. Við áttum þar þó afar góðan dag og erum nú komin heim í chillið, jólachillið. Nýjar myndir á myndasíðunni. Frohe Weinacht alle meine liebe freunde und freundine. Cervús !!

sunnudagur, desember 10, 2006

Massa jolagjafakaupsvika yfirstaðin ..

Nú eru tvær vikur til jóla.. Við uppgötvuðum þetta þegar Lilla og Valdi komu í heimsókn, þau eiginlega komu með jólin með sér frá Íslandi. Við höfðum bara verið hér að vesenast í tónlist og hversdagsheitum, grandalaus um komu jólanna, þegar þau birtust. Með sín rauðu nef og köldu kinnar, berandi töskur og poka fulla af pinklum og gjöfum handa okkur, stormuðu þau út úr flugstöðvarbyggingunni. Stundum koma jólasveinarnir í alvöru frá Íslandi, eða alla vega sérlegir sendiherrar þeirra, eins og núna. Þau komu sér notalega fyrir hér í íbúðinni og tæmdu töskurnar, á augabragði fylltust hér allar hillur af fagurlega skreyttum jólapökkum til okkar.Við hins vegar .. eða öllu heldur Harpa var bara rétt aðeins farin að kíkja á jólainnkaupin þegar hér var komið, (það er yfirleitt best að ég komi þar hvergi nærri með mína smámunasemi, sérvisku og óskynsemi), og þurfti því svolitla jólaaðstoð. En drifkrafturinn í sveinunum tveimur !! Nú þýddi ekkert hálfkák og gluggaskoðanir, nú átti bara að klára dæmið, okkur var gefin vika og verkefnið unnið skipulega með diggri hjálp Íslensku jólasveinanna. Eftir mikið rölt um borgina, búð úr búð var kvöldið yfirleitt tekið snemma, eldaður matur og slappað af á Linzergasse, tekið spil eða bara chillað yfir sjónvarpinu. Mjög þægilegt í alla staði. Harpa fór með þau á marga okkar uppáhaldsstaði; Europark, þar sem allt fæst undir einu þaki, jólamarkaðinn líka, sem er afarvinsæll meðal ferðamanna. Fólk kemur langt að bara til að upplifa jólastemmninguna á þessum gamla, virðulega og hátíðlega jólamarkaði á dómkirkjutorginu. Þau tóku gönguferð inn í hið skemmtilega hverfi Nonnthal og versluðu. Síðan fórum við öll upp í kastalann sem var frábært og síðan borðuðum við á okkar uppáhalds ítalska veitingastað Pasta-e-vino ásamt bara að slæpast um bæinn og njóta veðursins, sem var alveg frábært í þessa daga. Hitinn var þónokkur megnið af dögunum en heitast þó á föstudaginn 17 gráds! Föhn var það heillin, en það eru heitir vindar frá suðlægum slóðum sem líða yfir alpana og leggjast yfir Salzburg þegar þeir eiga leið um, og mynda hér algeran hita pott. Síðan fengu þau líka solítla rigningu og ves en það er bara fínt líka.
Krampússarnir komu líka til að hrella okkur, auma íslendingana. Engar myndir náðust af þeim viðbjóðsfreskjum því að fáir menn hafa þann kjark sem þarf til að mynda þá hér í borg, hvað þá einhverjir saklausir íslenskir flissandi jólasveinar. Höfundur greinarinnar varð fyrstur á vegi þessara óvætta á leið í búðina. Er hann heyrði mikinn kúabjöllu óm og skaðræðisöskur í myrkrinu stoppaði hann hjólið .. skjálfandi á beinunum læsti hann hjólið við burðugan steiptan ljósastaur og stökk inn í næstu búð. Það var plötubúð. Hann stóð í dyrunum og horfði íbygginn upp Linzergasse þaðan sem óhljóðin komu: úr myrkrinu komu þeir hlaupandi, og öskrandi, með horn og hala, loðnir og ljótir, hrintu fólki og öskruðu framan í það rugluðu hárgreiðslum og flengdu fólk með tréprikum. Höfundur greinar þessarar varð svo hræddur við sjón þessa að hann fann sig knúinn til flótta. Stysta og besta leiðin var ofan í vínilplöturekkann. Eftir að skrímslin voru horfin öskrandi og slefandi framhjá kunni hann ekki við annað þar sem hann var einn í búðinni að kaupa eina plötu og flýta sér á hjólið aftur að kaupa í matinn. En við hinn enda götunnar, stóðu þær tvær, dætur jólanna, Lilla og Harpa, ekki hefur greinarhöfundur jafn nákvæma lýsingu á því þegar þessir tveir andstæðu pólar mættust og getur hann því ekki haft orð um það hér. Sú frásögn mun einungis lifa í munnmælasögum hér eftir og héðan í frá. Kvöld og nætur eftir þennan fyrsta fund við Krampus heyrðist í þeim ýlfra og berja sér í dimmum húsasundum, kaldir og hraktir því máttur jólanna var að sigra. (Sláið inn Krampus í google og skoðið myndir, talið er að um 200 krampusar séu á götum Salzburgar hver jól)
En jólastemmningin sjálf kemur hvergi í hús í raun, nema þegar smáköku ilmurinn fyllir hvern krók og kima. Lilla og Harpa tóku sig til og hófu bakstur úr íslenska hráefninu sem Lilla og Valdi fluttu með sér og þá voru jólin komin. 4 sortir og menn eru góðir. Jólin eru komin. Takk Lilla og Valdi fyrir frábæra heimsókn, og verið velkomin aftur. Lifi andi Jólanna ! Og dætur jólanna ! Hipp, Hipp _______ !!
Minnum á nýjar myndir á myndasíðu !!!

mánudagur, desember 04, 2006

Fri i dag, manu ..

Oh, jamm, komin í frí eftir langa helgi. Það voru spiluð tvö gigg í Zell og málað líka. Ég missti af lestinni til Zell fyrir jazzgiggið á föstudaginn og villtist um lestarteinana á milli Salzburgar og Zell með kontrabassa í nístingsfrosti, áður en maður rétt komst í hús mínútu fyrir gigg. Hrikalegt bras því maður hoppar ekkert um með kontrabassa eða treður sér þrönga ganga í sveitalestum austurríkis svo auðveldlega. Svo ég sat í óhitaðri farangurgeymslu hálfa leið og var síðan hent út einhverstaðar til að taka næstu lest til Zell. Þar var um 15 stiga frost og ég í nælon sparibuxum og skyrtu og þunnum jakka, þurfti að bíða úti í 35 minútur, brrr dem kalt. Síðan kom lestin, hún var smekk full af fólki á leið til Zell, ég fékk ekkert sæti eða pláss, varð að húka á milli vagna, aftur óupphitað og óþægilegt. Komst í tæka tíð fyrir gigg og skellti í mig smá rommi og byrjaði að spila. Eftir kvöldið ætluðum við strákarnir að gista en ekkert herbergi var laust svo við herbergi í "lokuðu" hóteli á vegum Mavida hótelsins sem við vorum að spila fyrir, þar var hitakerfið ekki komið í gang, en við fengum sængur, brrr kalt. Síðan fórum við niður á lestarstöð um morguninn að taka lest í bæinn, en lestin okkar (kl 10) fer ekki á laugardögum, urðum að bíða úti til hálf tólf !! Brrr, kalt, aftur. Komumst heim um 2, þá bara að gera sig til í næsta gigg í Zell með Hörpu, við fórum auðvitað á bílaleigubíl sem var miklu betra. Giggið gekk vel og fólk var yfirleitt mjög ánægt. Við förum aftur þangað á þriðjudaginn að spila, en það verður í síðasta skiptið fyrir jól. Síðan á sunnudaginn fór ég í lokahnikkinn á skíðahótelinu Speiereck, mínu uppáhaldsgæluverkefni, og vann þar fram á kvöld. Það er líka gott að hafa komist yfir þetta alltsaman fyrir opnunina næstu helgi. Ég var líka farin að hafa smá áhyggjur af sverleikanum því ég borða alltaf svo mikið þegar ég vinn þar, þar eru nefnilega yfileitt veislumatur sem mér líkar afar vel, nú er bara að reyna vinna aðeins á vömbinni til næsta vors, þangað til ég fer þangað aftur. Verkefnið tókst bara afar vel og hótelið ser virkilecht shön aus, og verður gaman að eiga þetta jobb á ferilskránni. Við Harpa ætlum að spila fyrir þau smá jólatónleika þann 26 des, og fara síðan á skíði í nokkra daga eftir það, það verður frábært, ef það verður kominn snjór. En vitrir menn í Lungau segja að það sé ekkert að óttast, snjórinn kemur 8. des.
Jæja nú er næsta heimsókn að bresta á og við ætlum að renna eftir Lillu og Valda til Linz á eftir. Það verður því ekkert bloggað í eina viku býst ég við, en næsta blogg mun ábyggilega innihalda heimsóknarmyndir líka. Jæja verð að fara, alltaf svo mikið að gera .. TZZJÚSH !